Eftir frábæra byrjun United voru þeir á endanum heppnir að fá annað tækifæri til að komast í undanúrslitin og mæta Manchester City.
United byrjaði miklu betur. Boltinn var að ganga vel á milli og strax á fimmtu mínútu leit Michael Carrick upp á miðjunni og sá möguleikann. Hann sendi háa sendingu inn á teiginn, Hernandez kom sér í stöðuna, stökk upp og skoraði með nettum skalla yfir Cech sem var fastur í einskismannslandi, kominn af línunni en ekki út í Javier.
Rétt rúmum fimm mínútum síðar var Cech aftur í ruglinu. United hafði staðið af sér staðlarar sóknir-eftir-að-fá-á-sig-mark sóknir Chelsea, kom upp í sókn og brotið var á Nani utan við vítateigshornið vinstra megin. Rooney tók aukaspyrnuna, sveiflaði boltanm inn á teiginn þar sem Luiz og Evans stukku upp, misstu báðir af boltanum og hann hélt áfram óáreittur í markhornið. Cech var frosinn á línunni, alveg óviðbúinn að báðir misstu af boltanum.
2-0 eftir 10 mínútur og 20 sekúndur, ekki slæm byrjun.
Chelsea fóru eftir þetta að taka nokkur völd á vellinum, og auka sóknarþunga. Vörnin var þó föst fyrir og var ekkert að hleypa þeim of langt. Loks kom þó að því að United stoppaði þá vitleysu og fór að sækja. Cech þurfti að verja glæsilega skalla frá David Luiz… já. Rooney átti gott skot sem hrökk af Cech, Luiz skallaði að marki og Cech rétt náði að slá boltann . yfir. Hefði verið mjög skemmtilegt sjálfsmark annars.
Eftir nokkura mínútna yfirráð hleypti United svo Chelsea í sama farið. Chelsea hélt boltanum vel á miðjunni, sótti upp að teig, en þar strandaði allt á vörn United, hvort sem það var Rafael, Rio, Evans eða Evra. Sóknirnar þyngdust þó og Victor Moses gerði vel þegar hann hitti hornfánann… úr nokkuð opnu færi í teignum. Ákveðið afrek þar á ferð.
Nani hafði verið að spila vel en mínútu fyrir lok hálfleiksins meiddist hann og var strax tekinn útaf fyrir Valencia.
Seinni hálfleikur var nokkuð jafn framan af. Hvorugt liði náði jafn miklum yfirburðum og þau höfðu skipst á að hafa í fyrri hálfleik, en Chelsea þó meira með boltann og eftir tvöfalda skiptingu Lampard og Moses fyrir Mikel og Hazard jókst sóknarþunginn. Þeir áttu tveggja mínútna stanslausa sókn og rétt þegar United hafði bundið enda á hana kom Chelsea beint til baka og Hazard sneri boltann inn af vítateigslínu, framhjá Rafael og De Gea, 2-1.
United reyndi sitt besta til að breyta þessu, Van Persie kom inná og United sótti svolítið. En þá komst Chelsea í skyndisókn sem endaði á því að Ramirez komst í gegn og skoraði. 2-2. Sanngjarnt, enda höfðu þeir átt mestan hluta hálfleiksins.
Loksins eftir þetta náði United nokkrum sóknum, en það mesta sem kom út úr því voru tvö verstu skot vetrarins, Valencia ætlaði að taka þrumu á lofti við teiginn en það endað sem þver’sending’ og síðan þrumaði Cleverley næstum yfir stúkuþakið. Victor Moses hlýtur að hafa liðið betur á eftir. Chelsea sótti mun meira það sem eftir lifði leiksins og sóknir United voru afskaplega máttlausar og skar sig þar úr Antonio Valencia sem átti alveg ótrúlega slakan leik. Það er ekki eins og það sé vottur eftir af gamla Valencia og er vonandi að Nani sé ekki illa meiddur.
Juan Mata, besti maður Chelsea, átti að klára leikinn á 90. mínútu en í stað þess að hann næði að setja boltann laglega framhjá De Gea, varði David skotið snilldarlega og sá til þess að leikjaröðunartölvan fær höfuðverk, þar sem það er víst ekki búið að gera ráð fyrir aukaleiknum.
En við megum kallast afskaplega heppnir að sleppa í aukaleik. Fyrstu tíu mínúturnar voru frábærar, og stöku kaflar eftir það í fyrri hálfleik, en seinni hálfleikur var einn sá slakasti sem maður hefur séð á þessu ári. United gaf miðjuna gjörsamlega eftir og gat aldrei náð henni aftur. Skiptingin hjá Chelsea þegar Hazard og Mikel komu inná sá alveg til þess og við erum hreinlega ekki með sams konar miðjumenn, eigum alltaf erfiðara með að ná valdi á miðju ef við höfum það ekki, allt annað mál ef við erum með yfirhöndina. Ekki hjálpaði að sendingar United voru verulega slakar í dag.
Vörnin var verulega góð í fyrri hálfleik, en eftir sem miðjuyfirburðir Chelsea urðu meiri þá varð æ erfiðara fyrir þá að verjast.
Ekki góður dagur þrátt fyrir góða byrjun, en við fáum annað tækifæri… og svo bíður City. Núna er vika í næsta leik, og síðan tekur við landsleikjahlé, þannig að það gefst tími til að gyrða í brók og finna út úr því hvað klikkaði í dag.