Liðið sem Sir Alex tefldi fram í kvöld var mikið breytt frá Real Madrid leiknum en engu að síðar voru það þrír bestu leikmennirnir úr þeim leik sem héldu sætum sínum og fengu enga hvíld, Welbeck, De Gea og Jones. Það var þó ekkert að sjá að liðið væri eitthvað varalið, United pressaði frá upphafi. Það varði þó aðeins fimm mínútur eða svo og síðan varð leikurinn nokkuð jafn og ef eitthvað var voru Reading menn meira með boltann. Nemanja þurfti meira að segja að sýna gamla takta í vörninni til að stoppa Reading.
Besta færi United það sem af var leik kom þegar Federici varði tvisvar vel, fyrst langskot Cleverley og svo skot Young sem náð hafði frákastinu. Annars var þetta allt frekar tíðindalítið þangað til Phil Jones þurfti að fara útaf meiddur á ökkla eftir samstuð. Flestum á óvart kom Nani inná og Valencia fór í bakvörðinn. Enda hvað sagði ég í upphituninni!
Annars þurfti De Gea að verja ansi vel undir lokin og síðan átti Nani þrumuskot í stöng og litlu síðar annað sem Federici sló yfir. Annars var það helst að bætt var við fjórum mínútum, eftir miklar tafir snemma í leiknum þegar Noel Hunt blæddi vel úr höfði eftir samstuð við Vidic.
Hálfleikurinn var frekar slakur af okkar hálfu, miðjunni hélst ekki á boltanum og Reading spilaði bara nokkuð vel.
Sá seinni byraði hins vegar eins og á fyrri, og gera má ráð fyrir að Fergie hafi prédikað hraustlega í hléinu. En tæpar 20 mínútur liðu án þess að United næði að skora, þrátt fyrir stökufæri og Ferguson ákvað að svo mætti ekki vera, og setti Van Persie inn á fyrir Young.
Pressan var gríðarleg og það hlaut að koma að því að United skoraði. Boltinn barst til Nani í teignum, hann tók eina snertingu og smellti boltanum svo í fjær hornið. Fagnaði síðan gríðarlega enda ekki nema þriðja markið á tímabilinu.
Þrem mínútum síðar skallaði svo Hernandez í netið. Hann var mættur á nærstöngina og tók á móti fyrirgjöf Nani. Í millitíðinni hafði reyndar de Gea varið mjög vel og þar með höfðu United menn tryggt þennan leik.
Eða svo hélt ég. United gaf eftir og endaði á því MacAnuff minnkaði muninn fyrir Reading eftir slaka varnarvinnu. Það er ekki eins og Reading hafi ekki verið að vinna trekk í trekk með mörkum undir lokin þannig að við þessu mátti búast Fergie setti Carrick inn á til að taka miðjuna föstum tökum, Anderson hafði ekki verið nógu hress í þessum leik.
Reading sótti samt mjög, og United var að ná hraðaupphlaupum frekar en að halda boltanum. Welbeck klúðraði boltanum í einu slíku og Nani skaut í hliðarnetið í annarri, eftir að Federici varði frá Chicharito Sóknir Reading héldu áfram, Federici kom upp þegar þeir áttu aukaspyrnu og svo horn, ekkert varð úr því og United fékk sókn sem endaði í aukaspyrnu sem Nani setti yfir með síðasta skoti leiksins.
Þetta var bölvað streð. Byrunarliðið var ekki að gera sig alveg, og varamennirnir breyttu miklu. Nani var maður leiksins, og var alltaf hættulegur. Van Persie kom svo inná og innan sex mínútna var United komið 2-0 yfir. De Gea varði nokkrum sinnum geysi vel, sér í lagi hefði verið erfitt ef Reading hefði jafnað í staðinn fyrir að við kæmust í 2-0.
Annars er ekki að sleppa að minnast á Adam Federici í Reading markinu sem varði hvað eftir annað frábærlega og maður var vel hræddur við að hann myndi gera okkur enn meiri grikk þegar hann fór þarna fram undir lokin.
En United kláraði sig af þessu verkefni og núna bíður Chelsea eða Middlesborough í næstu umferð.
Breytt 02:30 af MÞM: Flottir taktar hjá Robin Van Persie í leiknum! (gif)