Real Madrid – Manchester United.
Real Madrid – Manchester United.
Real Madrid – Manchester United.
Þeir gerast ekki stærri og söguþrungnari leikirnir í Evrópukeppninni. Tvö stærstu lið álfunnar síðustu 60 árin leiða saman hesta sína enn á ný og gefa mér afsökun til að týnast í sögulegri upprifjun þar sem hver viðureignin var annarri stærri. Leyfið mér það og ég lofa að ég kemst á endanum í að fjalla um nútímann.
Fyrsti leikur þessara liða var fyrir 56 árum, 11. apríl 1957. Manchester United hafði storkað ensku deildarkeppninni og knattspyrnusambandinu og ákveðið að taka þátt í Evrópukeppni meistaraliða. Í undanúrslitum mættu þeir Evrópumeisturum síðustu tveggja ára og fengu kennslustund. Fyrri leikurinn fór 3-1 í Madríd og það var bara sárabót að ná 2-2 jafntefli á Old Trafford eftir að Real komst í 2-0.
Eftir flugslysið í München var Real Madrid eitt þeirra liða sem sýndu United höfðingsskap og vináttu. Þeir buðust til að lána leikmenn, nokkuð sem Enska deildin bannaði af víðkunnri tillitsemi, börðust fyrir því að United var boðið sæti í Evrópukeppninni 1958-9, sem Enska deildin stöðvaði af sömu tillitsemi og hjartnæmni, og léku síðan haustið 1959 tvo vináttuleiki við United, heima og heiman.
United komst aftur í Evrópukeppni meistaraliða 1965-6 en töpuðu í undanúrslitum gegn Partizan, þegar Real beið í úrslitum.
En tveim árum síðar var aftur kominn tími á risaslaginn. Fyrri leikurinn var á Old Trafford og Georgie Best skoraði eina markið. Í seinni leiknum voru United undir 3-1 í hálfleik en Busby minnti þá á í klefanum að einungis vantaði eitt mark og United brást við með að ná jafntefli 3-3. Bæði er til fimmtán mínútna samantekt úr leiknum, en líka leikurinn allur fyrir þau sem hafa tíma (og skilja þýsku).
Við þurfum ekkert að rifja upp hvers vegna Evrópukeppni meistaraliða var Unitedlaus í 25 ár, en aftur var komið að því að Evrópumeistarar stigju á stokk þegar þessi lið mættust. Í þetta sinn var það Manchester United, og árið var 2000. United var að rúlla upp deildinni, voru helst til varkárir í útileiknum á Santiago Bernabéu, komu heim með 0-0 jafntefli og töpuðu síðan heima 2-3 í leik sem breytti knattspyrnufílósófíu Sir Alex upp frá því. Rob Smyth segir betur frá því en ég gæti nokkurn tímann gert.
Síðast léku þessi lið saman vorið 2003. Tap í Madrid, 1-3, olli því að verkefnið á Old Trafford var óviðráðanlegt, en leikurinn varð magnaður.
Það er ekki oft sem leikmaður andstæðinganna fær standandi lófaklapp þegar hann gengur af velli á Old Trafford, en Ronaldo (orginallinn) átti það svo sannarlega skilið eftir þennan magnaða leik.
En nú er árið 2013.
Real Madrid urðu verðskuldað Spánarmeistarar í fyrra, en hafa gefið gríðarlega eftir í vetur í deildinni. Altalað er að José Mourinho fari frá liðinu í sumar og það er útilokað annað en að nú sé allt kapp lagt á að vinna Meistaradeildina. Real kemur inn í þennan leik eftir auðveldan sigur, 4-1 á Getafe um síðustu helgi og mun blása til sóknar á Santiago Bernabéu. Líkleg uppstilling er
Diego López
Arbeloa Ramos Pepe Coentrão
Khedira Alonso
Benzema Özil Ronaldo
Higuain
Angel di Maria er meiddur og verður frá í báðum leikjum.
Þarna þarf engan að kynna nema helst Diego Lopéz sem kom frá Sevilla í janúar og er ágætis varaskeifa fyrir Casillas. Það er síður en svo árennileg sókn og miðja í þessari uppstillingu og það verður gríðarlega spennandi að sjá hvernig Fergie stillir þessu upp. Mun Phil Jones spila á miðjunni? Verður Valencia yfirfrakki á Ronaldo?
Eins og ég lýsti að ofan höfum við í tvö síðustu skipti farið flatt á útileik á Bernabéu og það er spurning hvort að nú muni Sir Alex ákveða að sókn sé besta vörnin og gerast eilítið djarfur. Það sem mér finnst hins vegar algerlega skýrt er að vinnusemi er lykill að þessum leik. Þetta er svona leikur þar sem fyrir þrem árum hefði Park Ji-sung verið fyrsta nafnið á liðsblaðið.
En án ábyrgðar, með smá óskhyggju, ætla ég að spá þessu svona
De Gea
Rafael Ferdinand Evans Evra
Valencia Carrick Jones Welbeck
Rooney
Van Persie
Vidic er líklega enn ekki nógu sterkur í tvo leiki á skömmum tíma og þá er vörnin örugglega svona ef Evans er heill eftir sunnudaginn. Valencia mun spila og vinna varnarvinnu betur en Nani nokkurn tíma, Carrick, Rooney og Van Persie munu örugglega spila og ég vel Jones (aftur, ef hann er heill eftir sunnudaginn) og Welbeck þarna vegna þess að þeir munu hlaupa og hlaupa og hlaupa allan leikinn. Og ekki eins og hauslausar hænur. Sama á við um Rooney. Það verður gríðarleg barátta á miðjunni móti Khedira og Alonso og til að brjóta það niður þurfum við Jones og Rooney og þeir ásamt Carrick eiga að geta haldið boltanum og spilað honum án þess að vera að gefa hann frá sér að óþörfu. Svo er jafnvel spurning hvort Jones þurfi ekki að veita Özil sérstaka athygli.
Ég treysti síðan Rooney og Van Persie til að nýta eitt færi, því það er algerlega nauðsynlegt að fara heim með mark. Markaskorarar United í leikjum við Real Madrid eru Tommy Taylor, Bobby Charlton, George Best, David Sadler, Billy Foulkes, Beckham, Scholes, og Van Nistelrooy. Allt risanöfn í sögu United, (Eða næstum. David Sadler á ‘ekki nema’ 335 leiki fyrir United…) og nú er komið að því að bæta á þennan lista. Wayne og Robin, ykkar verkefni!
Og svo ekki vera að gefa neinar heimskulegar aukaspyrnur innan við 30 metra frá marki, strákar.
En það fer að styttast í leik, og ég get hreinlega ekki beðið. Fyrir leikinn á sunnudaginn var fínt að tala um að deildin væri það sem skipti öllu máli, hún gerir það enn, en nú er það stóra stundin.
Þetta er það sem Evrópukeppnin snýst um.
Þetta er alvöru!