Þá er skrýtnum leik lokið í ensku bikarkeppninni. United byrjaði leikinn af miklum krafti og virtust staðráðnir í að skora snemma í leiknum. West Ham voru tilbúnir að verjast og ætluðu að beita skyndisóknum. Það var svo á 23.mínútu sem við tökum forystuna eftir nett samspil á milli Chicharito og Cleverley sem afgreiddi boltann snyrtilega í markið.
Það tók West Ham ekki langan tíma að jafna leikinn eða 4 mínútur, Joe „Messi“ Cole átti fína fyrirgjöf sem James Collins stangaði örugglega í markið. Staðan 1-1 í hálfleik þar sem United voru betri aðilinn en heimamenn vörðust vel.
Í seinni hálfleik byrjuðu West Ham betur, okkar menn virtust alltof rólegir og það kostaði okkur mark á 59’mínútu þegar Messi og Collins buðu uppá copy/paste af fyrra markinu, 2-1 fyrir West Ham og rétt rúmur hálftími eftir.
Eftir þetta bökkuðu Hamrarnir verulega og voru nánast alltaf með 11 menn fyrir aftan bolta og nákvæmlega ekkert var að ganga upp hjá okkur, Paul Scholes sem hafði fengið gult spjald á 24. mínútu var tekinn af velli ásamt Chicharito og í þeirra stað komu Robin van Persie og Antonio Valencia.
Þrátt fyrir skiptingarnar virtist ekkert í spilunum og allt leit út fyrir enn eitt bikartapið gegn West Ham. Chris Smalling var svo tekinn af velli og Ryan Giggs kom í hans stað. Þessi skipting skilaði meiri árangri en Valencia sem virðist eiga í töluverðum sjálfstraustsbresti þessa dagana.
Giggs átti skalla rétt framhjá og leit úr fyrir að síðasti sjensinn væri farinn til að fá eitthvað úr leiknum.
Svo átti Giggs þessa mögnuðu sendingu fram á Robin van Persie sem gerði það sem hann gerir best, skoraði. Staðan orðin 2-2. Eftir þetta mark pressuðu við aðeins en vorum aldrei nálægt því að skora aftur og lokastaðan jafntefli. Þetta hefði verið mjög pirrandi fyrirfram en miðað við hvernig seinni hálfeikurinn þróaðist velkomið.
Veit ekki alveg hver var maður leiksins en ætla að leyfa Giggs og van Persie að deila heiðrinum fyrir frábæra samvinnu í jöfnunarmarkinu.
Liðið sem byrjaði:
De Gea
Smalling Vidic Evans Büttner
Scholes
Rafael Cleverley
Kagawa
Chicharito Welbeck