Á fyrsta degi nýs árs skruppu United yfir í næsta bæ og sóttu þrjú auðveld stig
Fyrsti hálftíminn var frekar slakur. Wigan gekk vel að stöðva leik United með fjölmenni í vörn og á miðj. Það var helst að fyrirgjafir United væru að skapa smá hættu upp við mark Wigan þegar leið á og vörn Wigan var ekki alltof sannfærandi. Sér í lagi var Al Habsi ekki að halda skotum vel. Það endaði á því að þegar Evra kom skoti á hann úr teignum sló Al Habsi boltann beint út og þar var Javier Hernandez og skoraði auðveldlega af markteig. Það er ekki nóg með að vörnin okkar sé að skora meira en miðjan, heldur átti vörnin þetta mark alveg, Rafael vann boltann og Jonny Evans átti góða sendingu inn á Evra.
Wigan hélt boltanum vel eftir markið en það var United sem bætti við. Hröð sókn upp kantinn, sending frá Hernandez yfir á Van Persie sem fintaði varnarmann upp úr skónum, og skoraði síðan með hárnákvæmu skoti út við stöng. Virkilega glæsilegt mark.
Seinni hálfleikurinn komkst fljótlega algerlega í eigu United. Héldu boltanum vel á miðjunni og áttu nokkrar góðar sóknir. Kone kom reyndar boltanum í netið eftir kortér í fyrstu sókninni Wigan í hálfleiknum, en var hárfínt rangstæður. örlítið vel sloppið þar. En Chicharito skoraði síðan sitt sjötta mark gegn Wigan á ferlinum og gerði endanlega út um leikinn. Rafael vann aukaspyrnu rétt fyrir utan teig í góðri skyndisókn. Van Persie renndi á Young sem stoppaði boltann svo Van Persie gæti skotið. Skotið fór í vegginn og til Chicharito sem afgreiddi þetta snyrtilega.
Þá gat Fergie hvílt menn frekar, Smalling kom inn fyrir Ferdinand og Kagawa fyrir Carrick. Þetta hafði lítil áhrif á leikinn. Wigan kom reyndar aðeins meira inn í hann, en ekki þannig að skipti máli. Ashley Young meiddist eitthvað lítillega við brot og Danny Welbeck fékk tækifæri á að koma inn á. Young hafði átt ágætan leik.
Síðan var eins og þessar skiptingar United og góðar skiptingar Wigan settu Wigan í smá gang og þeir voru mun meira með boltann án þess þó að skapa neitt að ráði.
En það var United sem átti síðasta orðið. Þeir komust loksins í sókn, varnarmenn Wigan hlupu hver á annan innni í teig, Welbeck hirti boltann, lék upp og gaf fyrir á Van Persie dauðafrían og hann gerði engin mistök.
Virkilega góður sigur hjá United. Ekki alltaf fullkomið spil og Wigan gerði margt alveg ágætlega í byrjun leiks og lok hans, án þess að eiga skot á mark og gæði leikmanna United skinu í gegn. Það voru margir sem áttu góðan leik í dag, vörnin var örugg, Evans einna bestur þar. Carrick carrickaði miðjuna, Giggs var nettur og Van Persie og Hernandez gerðu það sem þeir gera best. Góð byrjun á árinu.