Síðasti leikur okkar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu verður á morgun þegar Rúmenarnir frá Cluj koma í heimsókn. Fyrri leiknum lauk með naumum sigri United í einum af streðleikjum þessa hausts. Fjórir sigrar í fyrstu fjórum leikjum riðilsins hafa þó tryggt okkur áfram og við getum tekið á móti Cluj með hálfgerðu varaliði, enda erfiðasti leikur tímabilsins framundan um næstu helgi, heimsóknin á Etihad.
Eftir martröðina um síðustu helgi eru köllin eftir David de Gea orðin skerandi hávær, ekki síst þegar horfti er til næstu helgar og ég ætla sannarlega að vona að Sir Alex láti það eftir okkur. Að öðru leyti verður þetta létt. Rooney verður með sagði Fergie það í dag, enda spilar hann betur þegar hann fær leiki. Af öðrum aðalmönnum ætla ég að spá því að Rafael byrji til að gefa honum sjálfstraust eftir að hafa verið kippt útaf um helgina, en annars verður þetta svona bland í poka. Young má alveg við að spila gegn veikara liði, hann lék betur á laugardaginn en hann hefur gert í vetur. Jones og Smalling þurfa leikæfinguna ef annar hvor eða báðir eiga að spila á móti City, og Fletcher þarf hvíld ef hann á að spila á móti City. Svo verða þarna uppáhalds kantmenn okkar allra, Young og Welbeck.
De Gea
Rafael Wootton Smalling Büttner
Cleverley Jones
Welbeck Rooney Young
Chicharito
Bekkurinn verður svo kjúklingasafn hið mesta. Enginn Vidic. Macheda spilað í varaliðsleik í gær annars væri ég jafnvel til í að spá honum inn í byrjunarliðið
Cluj eygir möguleika á sæti í næstu umferð ef úrslit þeirra eru betri en úrslit Galatasaray gegn Braga þannig það má búast við þeim í hörkustuði.
Segjum að við sleppum með jafnteflið, 1-1 í leik sem skiptir okkur litlu máli.