Fjármál eru líklega það leiðinlegasta sem nokkur fótboltaáhugamaður hlustar á, en síðan í maí 2005 þegar Glazer-fjölskyldan tók United yfir og hlóð öllum skuldum yfirtökunnar á félagið hefur það verið eitt af því sem United áhugamenn hafa þurft að fylgjast náið með. Ég bið samt fyrirfram afsökunar á neðangreindu.
Í gær voru birtar niðurstöður fyrsta fjórðungs fjárhagsárs rekstrarfélags Manchester United, fyrir júlí-september.
Helstu niðurstöður voru sem hér segir:
- Fyrsti ársfjórðungur er alltaf rólegur, er alla jafna um 15% af hagnaði ársins.
- Tekjur hækkuðu um 3,4% frá sama fjórðungi fyrra árs.
- Tekjur af leikdögum hækkuðu vegna Ólympíuleikanna.
- Auglýsingatekjur hækkuðu um 24%, einn þriðja af þeirri hækkun má rekja til nýja auglýsingasamningsins við Chevrolet.
- Tekjur af sjónvarpi og öðrum miðlum lækkuðu um 37%, m.a. vegna tímasetningar leikja í Meistaradeild og beinum útsendingum í deildinni. Tveimur færri leikjum í deild og einum í Meistaradeild var sjónvarpað m.v. sama tíma í fyrra.
- Launakostnaður hækkaði um 6,5%. Í raun var hækkunin 10% en á móti komu greiðslur vegna þáttöku leikmanna í Evrópukeppni landsliða.
- Annar kostnaður hækkaði um 18%.
- Nettófjármagnskostnaður lækkaði úr 19,3m pundum í 12,4m pund. Þetta má rekja til áhrifa frá gengisþróun dollars! Þarna er um að ræða helming árskostnaðar þar sem vextir af skuldabréfi félagsins eru greiddir á hálfs árs fresti. Heildarvaxtagreiðslur á ári eru því um 24m punda, eða sem nemur einum Robin van Persie.
- Tap fjórðungsins var 6m punda, en sem fyrr segir er þetta ekki merkilegasti fjórðungur ársins hvað veltu varðar. Skattalega séð var 20m punda hagnaður þar sem félagið bjó yfir 26,4m punda skattaívilnun út af endurskipulagning rekstrar. Þetta skattahagræði hefur þó í raun lítil áhrif á rekstur félagsins.
- Skuldir félagsins eru nú 359,7m punda, félagið á 52,5m punda í reiðufé og nettóskuld því 307,2m punda. Skuldirnar lækkuðu þar sem 62,7m punda af tekjum af hlutafjárútboðinu voru notaðar til kaupa til baka skuldabréf, og einnig voru gengisáhrif jákvæð sem fyrr sagði.
Heildarkostnaður við yfirtökuna stendur nú í 550m pundum. Til samanburðar má áætla að arðgreiðslur ef félagið hefði áfram verið skráð hlutafélag hefðu verið um 71,3m punda á þessum árum.
Hlutabréfin hafa verið að rokka í verði milli 12 og 13 dollara á hlut, stundum rúmlega það eftir að hafa farið í sölu á 14 dollara hluturinn (eftir að upphaflega var stefnt á 16-20).
Niðurstaðan: Hlutafjárútboðið lækkaði skuldir eins og vitað var. Laun eru enn að hækka stöðugt, en tekjur að aukast. Auglýsingadeildin er mjög grimm í þessu og menn þar búast við frekari tekjumöguleikum. Í vikunni voru fréttir um að nýir alþjóðlegir sjónvarpssamningar myndu auka tekjur ensku liðanna enn frekar. Þeim tekjum er skipt alfarið jafnt milli félaga þannig að United fær þar sama og aðrir. Eftir sjö ára streð eru vaxtagreiðslur loksins farnar að minnka eftir útboðið í ár, og frekar leyndardómsfulla skuldalækkun í fyrra sem aldrei hefur verið upplýst hvernig var fjármögnuð.
Fyrir þá sem vilja fylgjast náið með fjármálunum er ekki hægt að mæla með neinu meira en @andersred og blogginu hans. Við munum auðvitað alltaf koma með helstu fréttir hér.