Ef eitthvert okkar var bjartsýnt fyrir leiktíðina er óhætt að segja að hörmuleg frammistaða móti Brighton á Old Trafford um síðustu helgi hafi dregið þær vonir niður svo um munaði.
Slúður vikunnar sem var gott meira en slúður um að United væri á eftir Marco Arnautovic, Adrien Rabiot og nú síðast Marco Verratti hefur svo heldur betur gert stuðningsfólk fúlt og leitandi að þeim sem líst vel á eitthvað af þessum. Það vantar ekki annað en að bæta afmælisbarni dagsins, Mario Balotelli á listann til að fá alla helstu vandræðagemsa síðasta áratugar á hann. Vonum að Murtough sé ekki að lesa þetta, hann gæti fengið hugmyndir.
En á morgun fer liðið til London og tekur á móti fyrrum liðsfélögum Christian Eriksen í Brentford. Eriksen bjargaði nýliðunum frá falli í fyrra og það verður vel gert ef þeir ná að sleppa aftur þetta tímabilið. Styrkingin felst í að Ben Mee kom frá Burnley á frjálsri sölu, í vikunni kom Mikkel Damsgaard frá Sampdoria og síðan koma tveir ungir vinstra megin, Aaron Hickey frá Bologna í bakvörð og Keane Lewis-Potter fram á við. Hickey er tvítugur og Lewis-Potter 21, og þykja báðir mjög efnilegir.
Liði Brentford er annars spáð svona
Ef vörn United verður áfram jafn ótraust og verið hefur mun Ivan Toney hugsa sér gott til glóðarinnar. Toney hefur verið aðeins inni í slúðrinu í sumar hér og þar, enda nokkuð lunkinn senter. Kannske verður þetta leikurinn sem hann notar til að koma sér endanlega á framfæri?
United
Það eru flestir leikmenn heilir, aðeins Viktor Lindelöf og Anthony martial sem eru á meiðslalistanum. Ten hag gaf út að Ronaldo væri til í heilan leik án þess að staðfesta að hann myndi byrja, en fór annasr fögrum orðum um hann og gaf út að Ronaldo yrði áfram. Enda ekkert lið sem vill borga fyrir að fá hann…
Spáum liðinu:
Ég held að jafnvel þau sem vilja Harry Maguire best yrðu ekki hissa þó hann hvíli á morgun. Raphaël Varane er heill og ætti að spila og Lisandro Martínez á skilið að halda sætinu. Kannske fær Tyrell Malacia sénsinn, kannske ekki og ég hlakka til að sjá það ef Ten Hag dettur eitthvað skárra í hug en McFred. Kannske verður niðustaðan sú að Eriksen detti niður á miðjuna, það getur varla verið verra. Ronaldo hlýtur svo að byrja frammi.
Það eru enn rúmar tvær vikur eftir af glugganum og enn einhver möguleiki á að United geri eitthvað, enda sagðist Ten Hag vonast til þess. En eins og fyrr sagði hafa nöfnin sem nefnd hafa verið hingað til lítið gert til að kveikja í stuðningsmönnum. Góð frammistaða á morgun myndi hins vegar gera eitthvað í þá áttina, skyldi síðasta vika hafa nýst vel á æfingasvæðinu eða halda dökk ský áfram að hrannast upp? Eða er þetta bara alltof snemmt til að vera með svartsýnisraus
Leikurinn kl 16:30 á morgun að íslenskum tíma segir kannske eitthvað. Flautumeistarinn er Stuart Atwell.