Nú virðist loksins komin hreyfing á félagaskiptagluggann hjá United. Christian Eriksen er nýjasta viðbótin í herdeild Erik ten Hag en hann kemur til með að skrifa undir samning sem gildir til 2025. Ekki er ljóst hver launapakkinn verður en þar sem um þrítugan leikmann á frjálsri sölu má gera ráð fyrir hærri launapakka en ella.
https://twitter.com/ManUtd/status/1547944083800223745
En eins og flestum íþróttaáhugamönnum og öðrum er kunnugt þá féll Eriksen niður þegar daninn fékk hjartaáfall í leik gegn finnum á Evrópumótinu 2020. Fótboltaheimurinn stóð kyrr um stund á því augnabliki á meðan leikmenn beggja liða mynduðu hring í kringum Eriksen á meðan bráðaliðar hófu endurlífgun. Eriksen var þá borinn út af á börum og við tók langt og strangt endurhæfingarferli enda alls kosta óvíst hvort hann gæti leikið fótbolta að nýju. Sjaldan ef nokkurn tímann hefur fótboltaheimurinn staðið jafn heilshugar og í kringum þetta atvik.
En þótt hugljúfi daninn virtist seigari en flestir eftir að búið var að þræða gangráð í hann mátti hann ekki halda áfram að spila með Inter Milan, þar sem hann var á samning, vegna reglna þar sem heimila ekki leikmönnum með slíkan búnað að spila í Seria A. Hann fór því heim til Danmerkur og hóf að æfa með uppeldisfélagi sínu (OB) þar sem hann var á mála áður en hann fór til Ajax 2013.
En eftir stutt stopp þar fór hann einmitt til Ajax og æfði þar með aðalliðinu undir stjórn Erik ten Hag áður en hann komst á hálfs árs samning í janúar hjá Brentford í ensku Úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Eriksen ætti að vera flestum þeim sem fylgjast með ensku deildinni kunnugur en fyrir þá sem ekki hafa fylgst með honum þá varð hann þrítugur á árinu en hann hefur leikið með liðum á borð við Ajax, Tottenham og Inter Milan ásamt fyrrnefndu liði Brentford en með þessum liðum hefur hann leikið 393 leiki og skorað 81 mark. Af því eru 49 leikir í Meistaradeildinni og 38 í Evrópudeildinni og þá er vert að nefna að hann á að baki 115 leiki með danska landsliðinu og hefur skorað ein 38 mörk í þeim. Hér er því gífurlega reynslumikill leikmaður en hvers vegna stökk ekkert lið á Eriksen fyrst hann var á frjálsri sölu?
Það voru eflaust margir efins um það hvort hann væri yfir höfuð leikfær fyrir ensku deildina en Thomas Frank knattspyrnustjóri Brentford tók áhættuna í janúar og fékk hann til liðsins og það borgaði sig svo sannarlega. Í síðustu 11 leikjum Brentford tókst þeim að vinna 7 leiki, þar á meðal burstuðu þeir Chelsea á brúnni 1-4 og tóku svo West Ham 2-0 á heimavelli beint í kjölfarið. Þeir náðu svo markalausu jafntefli við Tottenham og unnu mörg af liðunum í kringum sig á töflunni og voru í raun aldrei í fallhættu. Þess má geta að Eriksen var í þrígang valinn maður leiksins á þessu stutta tímabili sem hann spilað með Lundúnarliðinu.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1547947802914738177?s=20&t=tEj9t_fkau1krKRiJmTzTA
Eriksen er miðjumaður og eflaust flestir sem líta á hann sem sóknarmiðjumann en hjá Ajax spilaði hann sem tía með ansi frjálst hlutverk og undir bæði Andre Villa Boas og Tim Sherwood hjá Tottenham fékk hann nánast sama frelsi á vellinum. Það var hins vegar ekki það sama upp á teningnum hjá Mauricio Pochettino því það var augljóst að dregið hafði úr þessu frelsi og staða hans og hlutverk á vellinum fékk ákveðinn „stöðugleika“. Hjá Brentford hins vegar var honum spilað sem hreinræktuðum miðjumanni með aukið frelsi á vellinum og sá danski blómstraði.
Leikstíll hans má einna helst lýsa sem skapandi sóknarmiðjumanni sem er sífellt á hreyfingu og finnur svæði og veikleika á varnarskipulagi andstæðinganna. Hann þrífst einkar vel þegar hann er í liði sem er meira með boltann en mótherjinn og sóknarleikurinn er mjög flæðandi. Hann er með frábærar fyrirgjafir og langskot sem gerir hann stórhættulegan úr föstum leikatriðum auk þess að vera útsjónarsamur og naskur að sjá og búa til tækifæri fyrir samherjana sína. Þetta sést mjög vel á tölfræðinni hjá Brentford á síðustu leiktíð með og án Eriksen eftir fyrstu 7 leikina sem hann byrjaði hjá þeim:
when Eriksen starts (7 games) |
without Eriksen (28 games) |
|
Expected goal differential (xGD) | + 2.8 | – 5.9 |
pass completion % | 74.2 | 70.2 |
switches (40+ yard horizontal passes) | 12.4 | 9.3 |
Penalty Area Touches/90 min | 28.3 | 21.2 |
Shot Creating Actions (SCA)/90 min | 21.3 | 14.7 |
SCA from dead ball situations/90 min | 3 | 1.8 |
Eriksen var með 1 mark og 4 stoðsendingar í þessum leikjum sem hann spilaði með Brentford en ofangreind tölfræði er eftir einungis fyrstu 7 leikina. Í næstu tveimur leikjum átti hann sitthvora stoðsendinguna áður en liðið lá gegn Leeds í lokaumferðinni svo líklega má telja að þessar tölur séu í hóflegri kantinum miðað við endanlega tölfræði. Liðið leit einfaldlega mun betur út á vellinum með Eriksen á miðjunni og áfram er hægt að skoða tölfræðina og bera hann saman við aðra miðjumenn United til að fá enn skýrari mynd á því hvað hann mun bjóða liðinu undir Erik ten Hag.
Minutes per goal or assist
Christian Eriksen – 187.6
Bruno Fernandes – 195
Fred – 254.5
Donny van de Beek – 484
Scott McTominay – 1196.5
Chances created per 90 minutes
Christian Eriksen – 2.9
Bruno Fernandes – 2.6
Fred – 1.2
Scott McTominay – 0.9
Donny van de Beek – 0.4
United gerir 2 ára samning við Christian Eriksen með möguleikanum á einu ári til viðbótar. Það verður áhugavert að vita hvort Erik ten Hag sér hann fyrir sér sem miðjumann með Frenkie de Jong eða hvort hann eigi að vera bein samkeppni við Bruno Fernandes um tíuna sem myndi þá vonandi hafa sambærileg áhrif og Telles hafði á Luke Shaw 2020/21 tímabilið. Einhverjir hafa nefnt að hann sé yngri útgáfa af Juan Mata og vísa þá eflaust til svipaðra einkenna og hæfileika þeirra enda báðir töframenn með boltann og báðir hreint óþolandi likeable náungar á sinn hátt en Eriksen er svo miklu meira en bara það. Það var virkilega gott í United-hjartað að sjá einmitt Brandon Williams í leik Norwich og Brentford ætla að rjúka til og vaða í manninn sem lá undir honum þar til hann sá hver það var og þá snöggbreyttist viðhorfið og þá gat skapbráði bakvörðurinn okkar ekki annað en brosað.
Það er hins vegar alveg ljóst að Eriksen kom ekki til United til að vera bara einhver nice guy á bekknum og spila bikarleiki og hvar sem hann kemur til með að spila þegar hann mætir á völlinn er ljóst að breiddin og reynsla liðsins eykst með tilkomu hans og það verður yndislegt að sjá hann í rauðu treyjunni með nýja kraganum á komandi leiktíð.