Frá því Sir Alex Ferguson, besti knattspyrnustjóri allra tíma, lagði stjórafrakkann á hilluna í maí 2013 hefur Manchester United spilað allnokkra leiki sem koma til greina sem sigurvegarar í þeim vafasama flokki verstu frammistöður United eftir að Fergie hætti. Í dag fengum við sterka tilnefningu, einn af of mörgum kandídötum frá þessu tímabili, í þann þrotaflokk. Það var nákvæmlega ekkert ósanngjarnt við þetta rúst. Stærra tap hefði ekki verið ósanngjarnt. Leikmenn Manchester United eru andlega komnir í sumarfrí fyrir löngu og það sést.
Þetta helsta
Manchester United stillti upp þessu byrjunarliði í dag:
Bekkur: Henderson, Fernandez, Jones, Maguire (71′ fyrir Mata), Wan-Bissaka, Fred (46′ fyrir Matic), Lingard, Cavani (46′ fyrir Elanga), Garnacho.
Heimamenn stilltu upp svona:
Bekkur: Steele, Lamptey (75′ fyrir March), Webster (67′ fyrir Allister), Maupay (83′ Trossard), Lallana, Alzate, Duffy, Offiah, Ferguson.
Mörkin
15′ – Moisés Caicedo fyrir Brighton & Hove Albion. Langskot sem klobbaði Lindelöf og endaði í bláhorninu.
49′ – Marc Cucurella fyrir Brighton & Hove Albion. Átti gott hlaup inn í teig og fann sér pláss aleinn þar sem Trossard gat gefið út á hann og spænski varnarmaðurinn kláraði færið mjög vel með skoti upp í vinkilinn nær.
58′ – Pascal Gross fyrir Brighton & Hove Albion. Heimamenn fóru ævintýralega auðveldlega í gegnum vörn Manchester United. Sending frá markmanni á Cucurella á kantinum sem fann Trossard í hlaupi. Trossard gaf á Pascal Gross sem hljóp bara inn í teig og skoraði. Leikmenn United voru ekki einu sinni með.
60′ – Leandro Trossard fyrir Brighton & Hove Albion. Bara algjört grín á þessum tímapunkti. Welbeck fékk stungu innfyrir og var aleinn. Gat meira að segja chippað yfir De Gea. Dalot náði að bjarga marki frá Welbz en björgunin tókst ekki betur en svo að boltinn fór í vömbina á Trossard og í markið.
Spjöldin
45′ – Ronaldo (United) gult.
47′ – Dalot (United) gult.
Leikurinn sjálfur
Æi, díses fokking kræst!
Þetta var bara verðskuldað. Leikmenn Manchester United hafa orðið sér og félagi sínu trekk í trekk til skammar í vetur. Brighton var nær því að skora fleiri mörk en United að minnka muninn.
Lið sem tapar samanlagt 9-0 fyrir Liverpool á tímabilinu. Lið sem lætur Brighton og Hove Albion líta út eins og Harlem Globetrotters fótboltans. Það eru ekki margir leikmenn úr slíku liði sem geta með sannfærandi hætti gert tilkall til þess að fá að spila fleiri mínútur fyrir félagið. Einhverjir þeirra munu þó gera það, þrátt fyrir að hafa tekið þátt í þessum hörmungum. Þeir verða þá að sýna meiri karakter í að bæta upp fyrir þetta en þeir gerðu í þessum leikjum. Og of mörgum fleiri leikjum í vetur.
Besti United-maðurinn í þessum leik var Manchester United stuðningsmaðurinn Moisés Caicedo sem er alltaf duglegur að læka alla samfélagsmiðlapósta sem tengjast Manchester United og skoraði fyrsta mark leiksins með laglegu langskoti á 15. mínútu. Sá leikmaður myndi líklega bæta þetta United-lið til muna.
Framundan
Manchester United á núna einn leik eftir á tímabilinu, gegn Crystal Palace á útivelli 22. maí.
West Ham United á þrjá leiki eftir. Gegn Norwich á útivelli á morgun, gegn Manchester City á heimavelli á sunnudag eftir viku og gegn Brighton & Hove Albion sunnudaginn 22. maí.
Wolves á líka þrjá leiki eftir á tímabilinu. Gegn Machester City á miðvikudag, gegn Norwich á sunnudag eftir viku og loks gegn Liverpool 22. maí.
West Ham getur náð United að stigum ef liðið vinnur Norwich og Manchester City, fyrir lokaumferðina. Wolves getur komist 2 stigum á eftir United ef liðið vinnur Manchester City og Norwich.
Það eru sennilega meiri líkur á að Manchester City tryggi Evrópudeildarsætið fyrir Manchester United en að United nái því á eigin frammistöðu.