Loksins er leyndarmálinu sem öll vissu ljóstrað upp.
https://twitter.com/ManUtd/status/1517083257539637248
https://twitter.com/ManUtd/status/1517088504525860864
Fylgst með Ten Hag
Lið hans Ajax spilaði á páskadag til úrslita um hollenska bikarinn gegn PSV Eindhoven.
Eflaust eru einhverjir betur inni í hollenskum fótbolta og Ajax heldur en ég, en undanfarna mánuði hafa skapast nokkur tækifæri til að horfa á Ajax. Samhliða hrakförum Manchester United gegn Atletico Madrid í Meistaradeildinni gat ég haft annað augað á Ajax – Benfica. Það kvöld lá Ajax á Benfica, vann boltann hátt og átti sæg af tækifærum en að lokum var það annar eftirsóttur einstaklingur, Darwin Nunez, sem skoraði úr eina færi Benfica.
Ég náði líka lokamínútum í Groeningen – Ajax. Þar var Ten Hag dúðaður inni í úlpu og með húfu á hliðarlínunni. Ajax var í smá brasi en þriðja markið í 1-3 sigri kom í blálokin eftir bolta sem vannst af varnarmanni heimaliðsins við miðlínu. Lið Ten Hag eru einmitt sögð spila hápressu og leggja áherslu á að vinna boltann framarlega af mótherjanum.
Stuðningsmenn Manchester United hafa eflaust fengið að heyra ýmislegt um ágæti og feril Ten Hag síðustu mánuði, að minnsta kosti nóg til að meirihluti þeirra – sem og stjórnendur félagsins – virðast sannfærðir um að hann sé rétti maðurinn til að rétta við United-skútuna.
Maður með skoðanir
En það má fara stuttlega yfir það helsta. Ten Hag er alinn upp í bæ nærri Twente, foreldrar hans eru fasteignasalar og fjölskyldan ágætlega efnuð en Erik valdi þó frekar fótboltann en feril hjá fjölskyldufyrirtækinu. Hann er sagður hugsa stöðugt um fótbolta og alltaf hafa verið tilbúinn að spyrja og hafa aðrar skoðanir en flestir aðrir.
Hann spilaði sem miðvörður og átti þokkalegan feril sem atvinnumaður á tíunda áratugnum, lengst af hjá Twente. Hann fór síðan að þjálfa hjá félaginu og var meðal annars aðstoðarmaður Steve McClaren, aðstoðarmanns Sir Alex Ferguson árið 1999. Hann byrjaði sem aðalþjálfari hjá Go Ahead Eagles, ráðinn af Marc Overmars og kom liðinu upp um deild en varð síðan aðstoðarþjálfari Pep Guardiola hjá Bayern München. Það kom mörgum á óvart, flestir héldu að Ten Hag myndi halda áfram að klífa metorðastiga aðalþjálfara en hann valdi í staðinn að auka við þekkingu sína.
Hann snéri síðan aftur til Hollands, tók við Utrecht og kom liðinu í Evrópukeppni áður en Overmars, nú orðinn yfirmaður hjá Ajax, hringdi aftur í Ten Hag sem hefur verið aðalþjálfari Amsterdam-veldisins síðan í desember 2017. Bæði þjálfarinn og leikmennirnir slógu i gegn á leið liðsins i undanúrslit Meistaradeildarinnar 2019, einkum fyrir að hafa yfirspilað Real Madrid. Fyrir þann leik var reyndar talað um að starf Ten Hag væri í hættu.
En meðan lykilleikmenn fóru hélt Ten Hag áfram og byggði upp nýtt lið samhliða því að gefa ekki eftir í deildinni í Hollandi. Nú hyllir hins vegar undir að bæði þjálfarinn og fjöldi leikmanna fari.
Leikmenn sem leikið hafa undir Ten Hag tala um að hann hafi gott auga fyrir smáatriðum en sé kröfuharður, bæði innanvallar sem utan. Slíkt gæti orðið erfiðra, eða umdeildara, í stórliði á borð við Manchester United. Einstakir leikmenn hafa lýst honum sem leiðinlegum meðan flestir segja Ten Hag sýna þeim umhyggju. Honum hefur jafnvel tekist að hafa stjórn á mönnum sem hafa orð á sér fyrir að vera erfiðir, eins og Marco Arnautovic. Eins á eftir að koma í ljós hversu vel leikmennirnir laga sig að leikaðferðum hans. Hann hefur líka orð á sér að vera hreinskiptinn, jafnvel hrokafullur, í samskiptum við blaðamenn. Kannski er dálítill Louis van Gaal í honum.
Hálft liðið á förum
En hvað gerðist á páskadag og hvaða ályktanir er hægt að draga? Varast ber að álykta út frá einum leik og kannski sú slær staðreynd að Ajax tapaði aðeins á bjartsýni stuðningsmanna United. Leikurinn gat reyndar dottið hvoru megin sem var, tvö mörk voru dæmd af liðinu vegna rangstöðu, það virtist snuðað um víti auk fleiri væra. En það var líka dæmt mark af PSV og það fékk fín færi.
Ajax komst yfir um miðjan fyrri hálfleik. Ryan Gravenberch skoraði með fínu langskoti eftir samspil við Davy Klaasen. Gravenberch er 20 ára gamall miðjumaður sem United gæti eflaust nýtt sér. Hann er stór, 1,90 metrar en á auðvelt með að finna sendingaleiðir á milli varnarmanna andstæðinganna sem kemur samherjum hans í góðar stöður. Um margt minnir bæði leikstíll og líkamsburðir hans á Paul Pogba. Þegar leið á bikarúrslitaleikinn var Gravenberch kominn aftastur til að senda boltann fram á við. Hann slapp einu sinni að fá gult í staðinn fyrir rautt spjald fyrir að brjóta á PSV-manni sem var sloppinn í gegn. Synd að Bayern München virðist hafa tryggt sér hann.
Af einstökum leikmönnum Ajax var hann helst sá sem vakti athygli en hálft liðið hefur verið orðað við United. Vængmaðurinn Anthony var ekki með, er meiddur út tímabilið en miðvörðurinn Jurriën Timber spilaði 90 mínútur. Hann staðsetur sig vel og er vel spilandi en nær ekki 180 sm. hæð, sem gæti skapað honum vandræði í skallaeinvígum í enska boltanum.
Gamli United-maðurinn Daley Blind spilaði 90 mínútur sem vinstri bakvörður. Það segir sitt um hollenska boltann að hann leit vel út. En hann sýndi bæði styrki sína og galla frá United. Blind er afar vel spilandi leikmaður, það reyndist nokkrum sinnum vel hjá van Gaal að hafa miðvörð sem gat sent 40 metra sendingar en hann vinnur engin spretthlaup. Nefna má líka framherjann Brian Brobbey sem er líkamlega þroskaðri en flestir 20 stráklingar. Hann er með samning við RB Leipzig.
Ajax spilaði fótbolta, PSV barðist
Framan af tímabilinu í hollensku deildinni fékk Ajax varla á sig mark, þeim hefur aðeins fjölgað síðustu vikur. Þrátt fyrir að mikið sé látið með Ten Hag og Ajax er liðið ekki með neina yfirburðaforustu í deildinni, fjögur stig á PSV. Þó má segja að PSV er með gott lið og fínan stjóra, Þjóðverjann Roger Schmidt, einn úr Red Bull skólanum. Hann hættir eftir tímabilið.
Talsvert er talað um að Ten Hag hafi endurbyggt lið sitt árlega. Það gerir PSV líka. Bæði lið eru samsett úr ungum leikmönnum sem verða seldir og gömlum leikmönum sem ekki eru lengur nógu góðir fyrir stærstu deildirnar. Þannig er Mario Götze, sem skoraði sigurmarkið á HM 2014, hjá PSV í dag. Eftir stendur þó að markaðsvirði Ajax er tvöfalt hærra en PSV samkvæmt Transfermarkt.
Sem fyrr segir var Ajax liðið sem var meira með boltann. Hann gekk vel manna á milli, þótt halda megi því fram að vantaði hafi fleiri afgerandi marktækifæri. Á móti sýndi PSV gríðarlega líkamlega baráttu og beitti flottum skyndisóknum. Mörkin komu með stuttu millibili í byrjun seinni hálfleiks, það fyrra skalli eftir fast leikatriði, hið seinna eftir að náð slakri hreinsun varnarmanna Ajax. Nafn þess sem skoraði sigur markið, Cody Gakpo, gæti átt eftir að heyrast oftar.
Þarna mættust því tveir ólíkir leikstílar og lið sem ekki munar miklu á. Ten Hag reyndi þegar leið á leikinn að skipta um kerfi og þótt það hafi ekki virkað til fulls vantaði ekki mikið upp á að Ajax næði jöfnunarmarkinu. Það tók líka fulla áhættu, Gravenberch mættur í vörnina en Blind í sóknina til að vinna skallaboltana.
Með liðsuppstillingu sinni sýndi Ten Hag að hann er tilbúinn að taka stórar ákvarðanir. Marten Stekelenburg var í markinu í stað André Onana. Það hefur víst verið vesen í tengslum við félagaskipti Onana til Inter Milan.
Eftir stendur að tíminn einn leiðir í ljós hvort Ten Hag sé réttur kostur fyrir United. Þótt hann hafi ekki unnið bikarinn var lið hans tilbúið í alvöru bikarúrslit. Sjálfur var Ten Hag að þessu sinni berhöfðaður á hliðarlínunni með skallann og sýndi heilmikla ástríðu, fagnaði markinu ákaft og var eins og liðið til í slaginn.