Manchester United er úr leik Ungmennadeild UEFA eftir tap gegn Borussia Dortmund eftir vítaspyrnukeppni í 16 liða úrslitum í gærkvöldi. Rauðu djöflarnir höfðu hins vegar ánægju af því að fylgjast með leiknum til að sjá margar af helstu ungstjörnum United.
Í Ungmennadeildinni (UEFA Youth League) spila lið skipuð leikmönnum 19 ára og yngri. Það sem gerði lið United í gær spennandi var að þar voru margir þeirra leikmanna sem látið hefur verið mest með að undanförnu. Annað er að sjá heilan leik með þeim heldur en klippur af mörkum eða tilþrifum á Twitter, því allir geta litið vel út eitt augnablik.
Þannig voru í byrjunarliðinu Zidane Iqbal og Charlie Savage sem fengu tækifæri gegn Young Boys í Meistaradeildinni í haust, Will Fish og Shola Shoretire sem spiluðu lokaleikinn í úrvalsdeildinni gegn Wolves í fyrra auk Hannibal Mejbri sem var þrisvar á bekknum hjá aðalliðinu í febrúar en kom aldrei inn á.
Ungir leikmenn eru gjarnan talaðir upp og það er spennandi að fylgjast með þeim fá sín fyrstu skref. Liðið í gær er afrakstur fjárfestingar og uppbyggingar á unglingastarfi United sem trúlega er best að afmarka með tilkomu Solskjær, þótt væntanlega hafi vinna bakvið tjöldin verið komin vel af stað í fyrra.
Staðreyndin er þó sú að gott er ef einn skilar sér upp í aðalliðið, frábært ef þeir eru tveir. Út frá tölfræðinni má kannski búast við að 2-3 í viðbót geti átt þokkalegan feril í ensku úrvalsdeildinni og kannski 1-2 í viðbót ef horft er til sæmilegra deilda í Evrópu. En síðan eru líka fræ sem aldrei verða blóm og enda jafnvel á að spila í Bestu deildinni.
Vel spilandi lið
United var mun sterkara liðið í gærkvöldi, þótt úrslitin hafi ekki endurspeglað það. Bæði mörk Dortmund komu úr skyndisóknum sem byrjuðu með löngum sendingum úr varnarstöðu. Móttakandinn var sá sami í bæði skiptin, Jamie Bynoe-Gittens, 17 ára Englendingur sem nefndur hefur verið hinni nýi Sancho. Það er ekki óeðlilegt, báðir eru aldir upp í London og spiluð hjá Manchester City áður en þeir fóru til Þýskalands.
Í báðum mörkunum fékk Bynoe-Gittens boltann nærri miðju og einfaldlega hljóp varnarmenn United af sér. Í því seinna litu miðverðirnir ekki vel út, Fish varð undir í návígi og Rhys Bennett mistókst að loka á skotið í kjölfarið.
Þetta lið United er vel spilandi, oft í leiknum leysti það vel úr þröngum stöðum og þræddi sig í gegnum vörn Dortmund. Fyrra markið, þar sem Iqbal sendi inn á Charlie McNeill sem skildi eftir varnarmann gestanna á rassinum, var dæmi um það. United skoraði tvö áþekk mörk í viðbót, bæði voru réttilega dæmd af vegna rangstöðu.
United pressaði líka vel framarlega á vellinum, framherjarnir þrír lokuðu mjög vel á útspil varnarmanna Dortmund – nokkuð sem aðalliðið þyrfti snarlega að læra af! Segja má að frá 30 mínútu hafi United ráðið ferðinni alfarið í leiknum og hefði verðskuldað að nýta eitt færi í viðbót af þeim sem liðið skapaði til að gera út um leikinn í venjulegum leiktíma.
Því miður tókst það ekki og leikurinn fór í vítakeppni. Marc Jurado var eini United maðurinn sem skoraði, McNeill, Hannibal og Noam Emeram klúðruðu. Ein spyrna Dortmund var dæmd ógild, þegar sóknarmaður rann á vellinum og sparkaði boltanum í sjálfan sig og þaðan í netið og önnur var varin.
Hannibal Mejbri
Af einstökum leikmönnum þá bar Hannibal höfuð og herðar yfir alla á vellinum, ef frá eru taldir sprettirnir tveir hjá Bynoe-Gittens. Eftir því sem leið á leikinn fóru nær allar sóknir United í gegnum Hannibal. Engu skipti þótt 2-3 leikmenn Dortmund mættu til að pressa hann, yfirleitt snéri hann þá af sér. Ráð þeirra voru þá ýmist að toga í peysuna eða reyna að sparka hann niður. Hannibal virðist hafa einstaka yfirsýn á velli, hann gat fundið samherja með stuttum sendingum eða sent langa bolta þvert yfir völlinn til að losa um kantmenn. Hann gat, eins og að framan hefur verið lýst, prjónað sig út úr þröngum stöðum.
Hann er þó síður en svo gallalaus, bakkgírinn er ekki sérstakur hjá honum, ef hann er yfir höfuð virkur. Hannibal átti líka frekar sérstaka tæklingu inni í teig, í raun með tveimur fótum. Blessunarlega hirti hann boltann. Á móti kemur virðist að Hannibal mæti í pressu þegar hann á að gera það auk þess sem hann er sterkur og vinnur þannig bolta í návígum. Hann á það hins vegar til að fara frekar auðveldlega niður og tuða í dómurum eða mótherjum, enda hefur hann náð sér í drjúgt af spjöldum á ferlinum.
Aðrir leikmenn
Af öðrum leikmönnum í gær má nefna vinstri bakvörðinn Álvaro Fernandez, þar virðist efnilegur sóknarbakvörður á ferð. United sótti mikið upp vinstra megin, þar var Hannibal mest en þriðji maðurinn í vinstra tríóinu var framherjinn Alejandro Garnacho sem átti ágæta spretti. Svo virtist sem aðrir leikmenn leituðu mest að Garnacho og Hannibal.
Sem fyrr segir skoraði McNeill laglegt mark og var duglegur í pressuvörninni. Shoretire var frammi hægra megin, hann átti tvo góða spretti sem hann lauk með mjög góðum sendingum sem sköpuðu færi, en hann var ekki afgerandi og skipt út af síðasta kortérið.
Á miðjunni var Charlie Savage mjög vel spilandi. Hann kom aftur til varnarmannanna til að sækja boltann og dreifði spilinu mjög vel. Að því leyti minnti hann á Nemanja Matic. Hann gæti orðið öflugur miðjumaður og sannnefndur föðurbetrungur, en spurningin er hvort hann sé nógu fljótur til að ná alla leið. Iqbal var mjög öflugur í stutta spilinu og virtist hafa góða yfirsýn.
Fyrir áhugafólk um norræna knattspyrnu má nefna að Norðmaðurinn Isak Hansen Aaröen kom inn fyrir Iqbal síðustu tíu mínúturnar. Aaröen stendur vart út úr hnefa, er rétt rúmir 170 sm á hæð, en var orkumikill og viljugur þegar boltinn kom nálægt honum.
Til viðbótar við þá leikmenn sem spiluðu í gærkvöldi má nefna að Amad Diallo og Teden Mengi, sem báðir eru í láni, tilheyra U-19 ára aldurshópnum.
Staðreyndir leiksins:
Lið United:
Isak Hansen Aaröen og Noam Emeran inn fyrir Shoretire og Iqbal á 83. mín.
Mörk United: McNeill 23, Bennett 85.
Mörk Dortmund: Bynoe-Gittens 16, 68
Mark Bennett
Fantastic finish from Rhys Bennett pic.twitter.com/awuOb89z8B
— utdreport Academy (@utdreportAcad) March 1, 2022
Mark McNeill
Charlie McNeill pic.twitter.com/LKpBG72hsk
— utdreport Academy (@utdreportAcad) March 1, 2022
Helstu atvik leiksins (þarf loggin á UFEA.com)
https://www.uefa.com/uefayouthleague/match/2034642–man-united-vs-dortmund/