Manchester United missteig sig í hundraðasta sinn, að því er virðist, á tímabilinu. Dýrlingarnir frá Southampton komu á Old Trafford og sóttu verðskuldað stig. Svekkjandi 1-1 jafntefli niðurstaðan og ofsalega lítið við henni að segja. Það verður ólíklegra með hverjum leiknum sem líður að næsti stjóri United erfi lið sem að spilar í Meistaradeildinni tímabilið 2022-23. Grátlegt, en svona er þetta nú stundum.
Byrjunarliðið:
Skiptingar: Rashford út, Lingard inn. McTominay út, Elanga inn.
Fyrri hálfleikur
Eins og svo oft áður, þá byrjaði United liðið nokkuð líflega. Cristiano Ronaldo komst í algjört dauðafæri á 7. mínútu leiksins þegar að hann slapp einn í gegn og lék á Fraser Forster í marki gestanna. Skot Portúgalans var hins vegar laflaust og var boltanum þrumað burt áður en hann gat lekið í netið. Stuttu síðar fengu Southampton svo sitt fyrsta færi. Þá fékk Kyle Walker-Peters boltann á fjærstönginni og setti hann fyrir markið, þar náði Che Adams ekki að stýra boltanum á markið. Í kjölfarið brunuðu okkar menn upp og Jadon Sancho var hársbreidd frá því að koma United yfir.
Það var svo um 10 mínútum seinna sem að mark okkar manna leit dagsins ljós. Bruno Fernandes fékk boltann á okkar vallarhelmingi, leit upp og sá Marcus Rashford í hlaupi hægra megin. Bruno setti fína sendingu aftur fyrir vörn Southampton og Rashford brunaði með boltann í átt að teignum, þar beið Sancho á fjærstönginni og Rashford fann hann. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Sancho sem að setti boltann örlítið í Walker-Peters og svo í netið. 1-0.
Næstu mínútur voru tíðindalitlar en United var þó með ágætis tök á leiknum og fátt sem að virtist benda til þess að áhlaup frá gestunum væri væntanlegt. Þeir sóttu þó í sig veðrið þegar að líða tók á hálfleikinn og voru nokkuð aðgangsharðir síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks, en þó aldrei meira en þannig að þeir væru þvingaðir í langskot eða hálffæri. Eftirlæti okkar, Stuart Atwell, flautaði svo til loka fyrri hálfleiks og viðkvæm 1-0 forysta var hlutskipti okkar manna í leikhléi.
Seinni hálfleikur
Það voru liðnar þrjár mínútur af síðari hálfleik þegar að gestirnir höfðu jafnað leikinn. Skotinn Che Adams fékk þá stungusendingu frá Mohamed Elyounoussi eftir fínasta spil, þar sem að Luke Shaw spilaði Adams réttstæðan. Ekki í fyrsta skipti sem að Shaw gerir sig sekan um slík mistök. Þetta er helvíti dýrt þegar að liðið skorar ekki beinlínis að gamni sínu og hvert mark er gulls ígildi.
Það er ekki orðum ofaukið að segja að leikurinn hafi dáið um stund eftir jöfnunarmark Southampton. Þetta var moð, kraðak og vesen. Ekkert gekk að skapa færi og með hverri mínútunni sem leið þá sá maður hvernig leikmenn gestanna tvíefldust í trú sinni á verkefninu. Harry Maguire komst þokkalega nálægt því að skora eftir aukaspyrnu, en Fraser Forster sparkaði skrítnu skoti Maguire í burtu.
Maguire lenti svo í stöðu þar sem að hann var einn gegnum tveimur leikmönnum Southampton og framherji liðsins, Armando Broja, skildi fyrirliðann eftir í ryki og komst einn gegn de Gea í þröngt færi. Broja virtist hins vegar ekki viss um hvort að hann ætti að setja boltann fyrir markið eða klára sjálfur og úr varð mjög veik tilraun.
Ralf Rangnick reyndi að blása lífi í daufan sóknarleik United með því að setja Anthony Elanga inn fyrir Scott McTominay og síðar Jesse Lingard fyrir Marcus Rashford. Hvorugum tókst að setja mark sitt á leikinn af einhverju viti og eftir flotta vörslu Forster þegar hann sá við Harry Maguire, þá vissi maður að leikurinn myndi bara renna út í sandinn og liðin sættast á skiptan hlut. Sem og þau gerðu.
Pælingar
Adeu, Ronaldo…?
Bleikasti fíllinn í herberginu er Cristiano Ronaldo. Hann hentar liðinu engan veginn. Hann hefur lítinn sprengikraft, viðbrögðin virðast hægjast með hverjum leiknum og sem „target striker“ þá heldur hann boltanum gjörsamlega afleitlega þegar að liðið er annað hvort að færa sig upp eða vill spila í kringum hann. Það dóu svona 15-20 sóknir vegna hans í dag.
Rangnick hafði orð á því á blaðamannafundi fyrir leikinn að það yrði 100% keyptur framherji í sumar, þar sem að Edinson Cavani er á förum. Þægilegasta lendingin fyrir klúbb og leikmann væri sennilega ef að Ronaldo gerði slíkt hið sama. Við losnum við ofurháan launapakka leikmannsins og Ronaldo fer mögulega eitthvert þar sem að hann kemst upp með að koma bara við boltann inni í vítateig andstæðinganna.
Eins og postulín
Það má ekkert útaf bregða og þá virðist liðið hrynja úr jafnvægi. Við byrjum vel og við skorum mark – andstæðingurinn bítur frá sér og við förum inn í skel. Þetta er bara mynstrið, leik eftir leik. Það kemur svo mikið fát og óðagot á suma leikmenn liðsins, sem virðast ætla að skora í það minnsta tvö mörk í hverri sókn. Eðlilega þá verður ákvörðunartakan frekar slöpp þegar að hausinn er á þeim stað.
Eftir fyrri hálfleikinn gegn Burnley og eftir ca. 25 mínútur af þessum leik þá hugsagði ég: „Já, það er nú bara ágætis taktur í þessu og flott holning á liðinu.“ En 10 mínútum seinna þá líður mér eins og ég sé að horfa á bara aðra einstaklinga. Þetta er auðvitað spurning um sjálfstraust að mörgu leyti og það bíður hnekki þegar að úrslitin falla ekki – en þau gera það ekki af sjálfu sér.
Framhaldið
Næsti leikur er heimaleikur gegn Brighton, þriðjudaginn 15. febrúar og má búast við öðru krefjandi verkefni. Eftir það þyngist leikaprógramm Manchester United talsvert þar sem að leikir gegn Leeds, Atletico Madrid, Manchester City, Tottenham og Liverpool eru framundan. Áfram gakk.