Liðið var enn á ný í 4-2-2-2 uppstillingunni
Varamenn: Henderson, Jones, Shaw, Wan-Bissaka, Matic (78′), Van de Beek, Cavani (46′), Sancho (46′), Elanga
Áherslan hjá Ralf Rangnick hefur verið að styrkja vörnina og endurkoma Raphaël Varane átti sannarlega að gera það. Það voru hins vegar ekki liðnar sjö mínútur þegar Varane misti boltann, sókn Newcastle endaði hjá Saint-Maximin sem lék inn í teiginn, var um það bil að missa jafnvægið en náði skotinu sem small í netinu, óverjandi fyrir De Gea.
Köld tuska í andlit United, og Newcastle voru bara ansi frískir eftir þetta, Joelinton átti ágætis tilraun framhjá.
Það leið þó hjá og United fór að ná upp betri leik og virkari hápressu. Áhugavert samt að þegar Newcastle náði upp sókn sem United stoppaði var gagnsóknin síður en svo hröð og sendingar til hliðar og aftur komu í ljós, væntanlega ekki það sem Rangnick vill sjá.
Að leyfa Jonjo Shelvey frítt hlaup frá miðju er líklega heldur ekki á óskalista nýja stjórans, vildi til að De Gea gat kýlt skotið frá þegar það kom. Hefði reyndar átt að vera dæmt á brot á McTominay í aðdragandanum.
Mikið af spili United fór gegnum Marcus Rashford hægra megin og það gekk sjaldnast mjög vel. United komst ekkert áfram og Newcastle náði loksins yfirtökum. Allan Saint-Maximin var bestur á vellinum og á 38. mínútu valsaði hann gegnum næstum alla vörn United og gaf stungusendingu en blessunarlega var Wilson rangstæður þegar hann skoraði. Þar slapp United vel.
Einhver slakasti leikur United lengi. Miðjan gagnslaus, Bruno áhrifalaus úti á kanti og Rashford slakur. Það hefði enginn United maður getað kvartað undan því að vera tekinn útaf í hálfleik nema helst David de Gea en það voru Fred og Mason Greenwood sem véku og Jadon Sancho og Edinson Cavani komu inná
Leikurinn var samt ekki tveggja mínútna gamall þegar Saint-Maximin átti að koma Newcastle í 2-0, fékk boltann aleinn inni í markteig, innan við tveimur metrum frá marki en skotið var næstum beint á De Gea sem varði vel. Ótrúlegt að klára þetta ekki betur, og stórkostlega slakt hjá vörn United.
United kom nokkrum skotum að marki en engu á mark, og það var lítið fyrsta kortérið í seinni sem benti til að eitthvað hefði gerst í hálfleik til að breyta til. Besta færið kom þegar Newcatle kom í flotta gagnsókn, Joelinton óð upp völlinn og gaf út á Fraser frían en skot hans fór nokkurn veginn beint á De Gea.
United leikmenn höfðu verið vælandi allan leikinn, aðallega hver í öðrum en Bruno tókst að væla það mikið í dómaranum að hann fékk gult fyrir og missir af næsta leik.
Newcastle voru áfram betri en á 70. mínútu tókst United að jafna, fyrirgjöf Dalot frá hægri, Cavani aleinn í teignum skaut í varnarvegginn en fékk boltann til sín aftur, slæmdi fæti í boltann og skotið fór inn úti við stöng.
Fjarri því sanngjarnt og Newcastle ítrekaði það strax á eftir, Saint-Maximin með fínt skot sem De Gea þurfti að fara vel niður til að verja.
Síðasta skipting United var Matic fyrir McTominay, ekki kannske skiptingin sem mann dreymir um til að loka leiknum en svona er þetta.
Newcastle hafði verið með boltann 27% af leiknum og hefði getað klárað leikinn á 88. mínútu, Lewis fékk að athafna sig óáreittur í teignum vinstra megin, gaf inn í þvöguna og United gat ekki hreinsað betur en beint á Lewis sem skaut í þetta skiptið, í stöng og út og Almirón átti frábært skot sem stefndi inn undir slána en De Gea kom svífandi og varði frábærlega.
Cavani hefði getað gert aðeins betur þegar hann vippaði yfir Dubravka á þriðju mínútu uppbótartíma, en það vor of laust og tveir varnarmenn björguðu. Þetta var eftir að Dubravka hafði misst háa sendingu til Sancho.
En þrátt fyrir smá tilburði frá United síðustu mínúturnar kom markið ekki og United stálheppið að sleppa með stig. Þrátt fyrir að vera mun minna með boltann voru leikmenn Newcastle miklu betri, og leikur United var í molum.
Ralf Rangnick bíður erfitt verk að koma sínum leikstíl að og það verður afskaplega fróðlegt að sjá hvort 4-2-2-2 lifir að sjá leikinn gegn Burnley á fimmtudaginn.