Áfram heldur desembertörnin! Næsta verkefni Manchester United er heimsókn á Carrow Road og andstæðingurinn er neðsta lið deildarinnar, Norwich City. Leikurinn er á morgun, laugardag – og hefst kl. 17:30. Kanarífuglarnir eru í neðsta sæti með 10 stig, jafn mörg og milljarðalið Newcastle og Íslendingalið Burnley.
Okkar menn sitja í 6. sæti en gætu brugðið sér upp í það fjórða ef allt gengur vel. Til þess þarf United reyndar að vinna nokkuð örugglega og að sama skapi þarf West Ham að fá skell. Mögulega látum við 5. sætið duga í bili, en mestu skiptir að koma með þrjú stig í pokanum til baka til Manchester.
Norwich féll úr Úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20, en komst aftur upp í deild þeirra bestu á síðasta tímabili. Tímabilið 2019-20 vann United báðar viðureignir liðanna í deildinni, auk þess að slá Norwich út í FA bikarnum. Síðasti deildarleikur á Carrow Road er eftirminnilegur fyrir þær sakir að okkar menn afrekuðu það að klúðra tveimur vítaspyrnum í sama leiknum. Tim Krul, markmaður Norwich, varði fyrst frá Marcus Rashford og síðar frá Anthony Martial. Báðir skoruðu þó úr opnu spili í leiknum ásamt Scott McTominay og niðurstaðan 1-3 sigur.
Liðsfréttir og vangaveltur
Ralf Rangnick var ekkert að tvínóna við hlutina í miðri viku og gerði 11 breytingar á liðinu sem mætti Crystal Palace um síðustu helgi. Auðvitað er erfitt fyrir leikmenn að sýna sitt allra besta í samsuðu sem engan raunverulegan spiltíma hefur fengið saman. Gott var að sjá Amad Diallo fá mínútur og sýndi hann lipra takta á kantinum. Má gera ráð fyrir því að Fílbeinsstrendingurinn fái að fara á láni í janúar, en til stóð að senda hann til Feyenoord á lán í sumar áður en óheppileg meiðsli gerðu út um það.
Sömuleiðis var glimrandi gott að sjá Luke Shaw eiga stoðsendingu á Mason Greenwood og vonandi mun barátta hans og Alex Telles um byrjunarliðssæti ná því besta fram úr báðum. Shaw hafði staðnað eftir frábært síðasta tímabil og magnaða frammistöðu á EM í sumar. Þá held ég að það sé nokkuð ljóst að Juan Mata á lítið sem ekkert erindi lengur í lið Manchester United. Lappirnar á Spánverjanum dásamlega eru alveg farnar og hann hreyfist varla úr stað.
Þá gaf Rangnick nokkrum ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri lífs síns og ekkert nema yndislegt um það að segja. Getur vel verið að Zidane Iqbal eða Charlie Savage eigi aldrei eftir að spila aðra mínútu fyrir aðallið Manchester United – þetta augnablik tekur enginn frá þeim.
Meiðsli og bönn
Þónokkrir leikmenn United eru á meiðslalistanum. Eftir að hafa spilað 95 mínútur gegn Young Boys, þá slasaði Aaron Wan-Bissaka sig á síðustu andartökum leiksins og er ólíklegt að hann verði klár fyrir morgundaginn. Serbneski risinn Nemanja Matic spilaði í miðverði í vikunni og komst áfallalaust frá leiknum en samkvæmt Ralf er hann að glíma við einhvern kvefskít og er spurningamerki sem stendur, en skilaði þó neikvæðu COVID prófi. Raphael Varane og Edinson Cavani ættu að vera klárir í næstu viku, en lengra er í Paul Pogba. Miðað við blaðamannafund Ralf að þá er enn u.þ.b. mánuður í Frakkann lífsglaða.
Þá er Anthony Martial enn meiddur og sagði umboðsmaður hans í dag að Martial vildi yfirgefa United í janúar. Ég held að ég tali fyrir hönd flestra sem að styðja United þegar ég segi að þær fregnir séu ekki beinlínis reiðarslag fyrir klúbbinn. Tony byrjaði feril sinn hjá United frábærlega og sýndi glæsileg tilþrif á sínu fyrsta tímabili undir Louis van Gaal. Fátt gladdi augað þá!
Þá virtist sem að allt væri á réttri leið undir Ole Gunnar Solskjær, þegar Martial skoraði 23 mörk í öllum keppnum tímabilið 2019-20 og átti flottan lokasprett það tímabil. Síðan þá hefur þetta verið stopp-start og eiginlega bara eyðimerkurganga. Best er því bæði fyrir klúbb og leikmann að leiðir skilji í næsta félagsskiptaglugga.
Hvernig mun liðið líta út?
Þrátt fyrir fína innkomu Dean Henderson (og Tom Heaton) í liðið gegn Young Boys, þá heldur David de Gea sæti sínu. Ef að de Gea getur bætt „sweeper keeper“ hlutverki í sinn leik, þar sem að hann hreinsar upp stungusendingar aftur fyrir vörn United þá erum við að tala saman. Þetta gerir Henderson virkilega vel, en hefur auðvitað ekki kattarviðbrögð de Gea í rammanum.
Í vörninni heldur Diogo Dalot sæti sínu í hægri bakverðinum, en hann hefur staðið sig vel í undanförnum leikjum. Ef Portúgalinn heldur áfram á sömu braut þá er staðan hans og Wan-Bissaka í kuldanum. Hinu megin býst ég við því að Alex Telles byrji. Luke Shaw er enn að koma til baka eftir meiðsli og Telles hefur staðið sig ágætlega. Í miðvarðarstöðunum verða svo Harry Maguire og Victor Lindelöf. Í síðustu leikjum hefur Lindelöf heillað mig og þá sér í lagi í fyrsta leik liðsins undir Ralf Rangnick. Sýndi frumkvæði, áræðni og góðan skilning á leiknum. Vann boltann ofarlega og kom boltanum fljótt í spil.
Fyrir framan vörnina verða hinir margrómuðu McFred! Fred skoraði glæsilegt sigurmark gegn Crystal Palace og átti bara heilt yfir mjög góðan leik. Hann nýtur sín talsvert betur í box-to-box hlutverki, fremur en sem pjúra akkeri. Það stríðir gegn eðlishvötum Brassans að sitja og dekka svæði. Sama má kannski segja um Scott McTominay, en líklega er auðveldara að stýra honum og fá hann til þess að fylgja fyrirmælum!
Í næstu línu fyrir framan verða Bruno Fernandes og Jadon Sancho. Báðir eru að finna form um þessar mundir og megi það halda áfram. Sancho er kominn á blað og maður sér hann vaxa í sjálfstrausti með hverjum leiknum sem líður. Það gerði ofsalega mikið fyrir Bruno að ná inn marki gegn Arsenal og það er eins og þungu fargi hafi verið létt af honum. Þessi magnaði leikmaður virtist taka slæmt gengi liðsins og brotthvarf Ole Gunnar Solskjær sérstaklega inná sig – en kannski er ég bara að lesa of mikið í hlutina.
Frammi með Cristiano Ronaldo vil ég sjá Mason Greenwood. Þeir virtust eiga í erfiðleikum með að ná saman undir Solskjær, en vonandi tengjast þeir sterkum böndum undir Ralf Rangnick. Greenwood skoraði glæsilegt mark í miðri viku og Ronaldo nældi í tvennu gegn Arsenal, eins og er hans von og vísa.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
4-2-2-2 er líklegasta kerfið, með Greenwood efst uppi ásamt Cristiano Ronaldo.
Andstæðingurinn
Botnlið Norwich verður án Milot Rashica, Mathias Normann, Christoph Zimmermann, Sam Byram og síðast en ekki síst, Brandon Williams. Williams má ekki spila gegn sínu eigin liði. Fyrrum stjóri Aston Villa, Dean Smith, tók við hjá Norwich 15. nóvember og hefur liðið náð í 5 stig af 10 undir hans stjórn. Liðið fékk 3-0 skell gegn Tottenham í síðustu umferð og því er um að gera að strá salti í sárin.
Alltaf hættulegt að tala um skyldusigra í ensku Úrvalsdeildinni en staðreynd málsins er sú að Manchester United má ekki verða af stigum í leikjum á borð við þennan, þ.e. ef að einhverja atlögu á að gera að Meistaradeildarsæti. Undirritaður horfði á 1-1 jafnteflisleik Newcastle og Norwich um daginn og gæðaminni leik mun ég líklega ekki sjá á þessu tímabili. Norwich voru manni fleiri frá 9. mínútu leiksins en sköpuðu varla færi í leiknum. Það var finnski galdramaðurinn, Teemu Pukki, sem að bjargaði stigi fyrir Kanarífuglana með glæsilegu marki undir lok leiks. Á honum þarf að hafa gætur.
Norwich hefur skorað 8 mörk og fengið á sig 31 í 15 deildarleikjum. Það eru engar afsakanir fyrir því að klára ekki þetta verkefni.
Líklegt byrjunarlið Norwich:
Spá
Gerum aðeins betur en Tottenham og vinnum 0-4 sigur. Bruno skorar snemma og róar taugar liðsins. Þá bætir Ronaldo við öðru marki, áður en Jadon Sancho og Mason Greenwood reka síðustu naglana í kistu Norwich. Hljómar þetta ekki eins og plan?
Áfram Manchester United!