Flottur 3-2 sigur á Arsenal leit dagsins ljós í síðasta leik Michael Carrick að sinni sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Michael Carrick eða Ralf Rangnick eða hver svo sem það var stillti upp í hið klassíska 4-2-3-1 leikkerfið í leiknum í kvöld. Eina sem hægt væri að telja sem óvænt í liðsvalinu miðað við þá uppstillingu var koma Diogo Dalot inn í hægri bakvarðarstöðuna, en svo virðist vera að Wan-Bissaka sé meiddur þar sem hann var ekki einu sinni á bekknum. Fyrsti byrjunarliðs leikur Dalot í ensku úrvalsdeildinni síðan í október 2019.
Svona var byrjunarlið Manchester United:
Bekkur: Henderson, Bailly, Jones, Mata, Lingard, Beek, Greenwood, Amad og Martial.
Arteta gerði tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik sem vannst gegn Newcastle. Egyptinn Elneny kom inn á miðsvæðið í stað Lokonga, sem settist á bekkinn. Martinelli kom svo inn í liðið fyrir Saka sem er meiddur.
Byrjunarlið Arsenal leit svona út:
Fyrri hálfleikur
Leikurinn hófst af krafti og þá aðallega af hendi Skyttanna. Arsenal fékk nefnilega þrjár hornspyrnur á fyrstu tveimur mínútum leiksins. Úr einni þeirra var okkar maður, Rashford hársbreidd frá því að skora sjálfsmark en boltinn rétt yfir slána.
Undarlegt atvik átti sér stað eftir um tólf mínútna leik. Þá skoraði Smith-Rowe með skoti utan teigs eftir hornspyrnu Arsenal. Undarlega við þetta allt saman var að De Gea lá óvígur í markteig sínum eftir að Fred hafi stígið á hásin De Gea í baráttu inn í teignum eftir hornspyrnuna. Eftir nokkra mínútna samtal Martin Atkinson við VAR-dómara leiksins var ákvörðunin sú að markið skildi standa. Í spjalli okkar hjá Rauðu djöflunum voru tvær skoðanir á þessu atviki. Annars vegar að um dómaraskandal væri að ræða og hins vegar að um löglegt en siðlaust athæfi væri um að ræða hjá Smith-Rowe að taka skotið vitandi af óvígum markmanni í markinu. Hvað sem okkur finnst eða öðrum um þetta þá var staðan orðin 0-1.
Lítið markvert gerðist í langa stund eftir markið. United hélt töluvert betur í boltann eftir að hafa lent undir og átti þó nokkrar tilraunir sem voru þó langt frá því að teljast hættulegar. Því til staðfestingar var samanlagt xG (vænt mörk) liðsins 0,19 þar til að 43. mínútan skall á.
Keyrði Sancho þá inn á teiginn vinstra megin og kom boltanum á Fred sem var fljótur að fóta sig og rendi honum fyrir markið á Bruno Fernandes. Hann stýrði boltanum snyrtilega í fjær hornið af stuttu færi fram hjá Ramsdale. Fyrsta mark Bruno síðan 11. september fyrir United sem gerir 15 leiki í röð án marks. Staðan 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur
Líkt og í fyrri hálfleik var Arsenal nálægt því að skora á upphafsmínútum hálfleiksins úr horni, De Gea varði þó skalla Gabriel vel. Strax í sókninni eftir það komst Ronaldo í ágætis færi þó þröngt væri, þar náði Ramsdale að gera sig breiðan og varði fast skot Portúgalans.
Það leið þó ekki að löngu þangað til að Ronaldo náði að koma boltanum í netið. Dalot fékk þá boltann skyndilega og var fljótur að koma honum á Rashford á hægri kantinum. Rashford hafði gífurlegt flæmi af grænu grasi fyrir framan sig og kom sér í fyrirgjafastöðu. Fyrirgjöfin sem kom úr þeirri stöðu fór rakleitt á Ronaldo sem skoraði auðvelt mark. Staðan 2-1 eftir 52. mínútur.
Það tók þó Arsenal aðeins tvær mínútur að jafna leikinn. Þar var að verki Martin Ødegaard sem skrúfaði boltann í fjær hornið í fyrstu snertingu innan teigs, eftir fyrirgjöf Martinelli. Þrjátíu og fimm mínútur eftir og staðan orðinn 2-2.
Á 66. mínútu tæklaði Martin Ødegaard Fred innan teigs en ekkert dæmt. VAR var þó fljótt að grípa í taumana og skipaði Martin Atkinson að stöðva leikinn og dæma vítaspyrnu, takk. Ronaldo fór á punktinn og þrumaði á mitt markið og þandi netmöskvana. United aftur komið yfir.
Á næstu mínútum sótti Arsenal með hröðum sóknum með Martinelli fremstan í flokki, þær skiluðu þó litlu.
Á 87. mínútu náði United skyndisókn eftir hornspyrnu Arsenal. Sancho bar þá boltann upp og var gegn tveimur varnarmönnum Arsenal ásamt Bruno og Ronaldo. Englendingurinn ungi rendi boltanum á Bruno, en skot hans hafnaði í varnarmanni Arsenal. Fimm mínútum var bætt við leikinn og á þeim mínútum gerðist ekkert markvert.
Manchester United komið í sjöunda sæti í deildinni, þremur stigum frá fjórða sæti deildarinnar og tólf stigum á eftir liðinu í efsta sætinu, Chelsea.
Hugleiðingar eftir leik
Það sem mætti túlka sem mögulega neikvætt við þennan leik var uppstillingin á liðinu. Ef ég hefði ekki vitað að búið væri að reka Ole Gunnar Solskjær áður en ég sá liðið hefði ég talið að hann væri en knattspyrnustjóri liðsins. Það þýðir að liðið er en í raun lið Ole, enda sagði Carrick þegar hann tók við liðinu að hann væri ekki ósvipaður þjálfari og Ole. Liðið er því enn á algjörum núll punkti, jafnvel sunnan megin við hann, núna þegar Ralf Rangnick tekur við liðinu. Einnig fannst mér ekki jákvætt hversu seint þjálfarateymi United notaði sínar skiptingar vitandi að tiltölulega stutt er í næsta leik.
Af því sem var jákvætt var að sjálfsögðu sigurinn og að Bruno er byrjaður að skora á ný og það í leik númer 100 fyrir United. Dalot átti flottan leik í vörninni og ætti að grípa tækifærið með báðum höndum sem er að opnast núna vegna meiðsla Wan-Bissaka. Einnig er það frábært að liðinu tókst að skora þrjú mörk í leiknum gegn liði sem er búið að byggja árangur sinn þetta tímabilið upp á varnarleik.
Brasilísk framviðstaða frá brassanum okkar Fred, stoðsending og fiskað víti. Ásamt því var hann valdurinn af meiðslum De Gea sem leiddu að fyrsta marki Arsenal. Þrátt fyrir það ætla ég að gefa hinum umdeilda Fred nafnbótina maður leiksins.
Nú er bara að vona að Ralf Rangnick nýtti þennan sigurleik sem upphaf á nýrri sigurgöngu hjá Rauðu djöflunum.