Það var lagið! 0-2 sigur á Spáni og við erum komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Knattspyrnan var ekki áferðafalleg og við sáum lítið af boltanum á löngum stundum, en það skiptir engu máli úr því að stigin þrjú koma með okkur til Manchester. Michael Carrick gerði nokkrar breytingar á liðinu sem byrjaði síðasta leik. Bruno Fernandes og Marcus Rashford fengu sér sæti á bekknum, auk þess sem að Luke Shaw var meiddur. Í stað þeirra komu Donny van de Beek, Anthony Martial og Alex Telles inn í liðið.
Svona leit byrjunarlið Man Utd út:
Bekkur: Heaton, Henderson, Dalot, Bailly, Fernandes, Mata, Matic, Amad, Rashford
Fyrri hálfleikur
United fékk fyrsta hálffæri leiksins á þriðju mínútu þegar að aukaspyrna Alex Telles rataði á fjærstöngina og beint á koll Scott McTominay, en Skotinn skallaði boltann í hliðarnetið. Eftir þetta tóku Villarreal þó völdin og komu sér í nokkrar álitlegar stöður. David de Gea varði ágætlega frá bæði Moi Gomez og Manu Trigueros og okkar menn virtust lítinn áhuga hafa á því að halda í boltann.
Lítið markvert gerðist þó að Villarreal væri miklu meira með boltann og United gengi skelfilega að byggja upp eitthvað sem líktist sókn. Fyrri hálfleikurinn var, í einu orði sagt, leiðinlegur. Rétt fyrir hálfleiksflaut Felix Brych þá gerðu United heiðarlega tilraun til þess að spila úr markspyrnu en það gekk ekki betur en svo að Aaron Wan-Bissaka missti boltann klaufalega og Arnaut Danjuma komst í ágætis færi en þrumaði boltanum yfir markið. Stuttu síðar flautaði Brych til hálfleiks.
Óskemmtilegur hálfleikur að baki og það mátti brýna á nákvæmlega öllu. Jadon Sancho hafði verið þokkalega líflegur þegar hann hafði komist í boltann en kollegi hans, Anthony Martial, var heillum horfinn og maður veltir því fyrir sér hvort að skoðað verði að fá einhvern aur fyrir Tony í janúar. Victor Lindelöf sömuleiðis leit vel út.
Victor Lindelöf stóð sig vel sem skuggi fyrir Harry Maguire.
Seinni hálfleikur
Það var nokkuð endurtekið efni í upphafi síðari hálfleiks. United komst ekki mikið í boltann en að sama skapi þá voru heimamenn afar lítið að skapa af tækifærum. Eitt slíkt leit þó dagsins ljós á 60. mínútu. Segir kannski ýmislegt að ekki sé frá öðru að segja fram að því… Allavega, þá barst boltinn til Manu Trigueros í vítateig United. Spánverjinn negldi boltanum í jörðina þannig að hann fleyttist á ógnarhraða að marki United en David de Gea varði meistaralega í marki United og hélt stöðunni í 0-0. Sex mínútum síðar gerði Michael Carrick sínar fyrstu breytingar á liðinu. Þá komu Marcus Rashford og Bruno Fernandes inná fyrir van de Beek og Martial.
Allt annað var að sjá til liðsins eftir þessar skiptingar. Á 71. mínútu átti Sancho glimrandi sprett inná vallarhelmingi Villarreal þar sem að hann klippti inn af hægri kantinum. Hann tók gott þríhyrningsspil við Bruno og var einn gegn Geronimo Rulli, en argentíski markmaðurinn varði vel frá Sancho. Eftir færið hélt United uppi góðri pressu og átti langbesta kafla sinn í leiknum. Þeir héldu vel í boltann og Bruno Fernandes sótti boltann villt og galið til þess að dreifa spilinu.
Á 78. mínútu gaf Rulli svo boltann á Étienne Capoue sem að sneri bakinu í markið. Frakkinn var alltof seinn að átta sig á pressu Fred sem að gerði frábærlega í að vinna boltann, sem að barst svo til Cristiano Ronaldo. Hann gerði nákvæmlega engin mistök, enda vissi hann að Rulli væri kominn langt út úr markinu. Herra Meistaradeild lyfti boltanum yfirvegað yfir Rulli og fagnaði vel og innilega. 0-1!
Hefur þessi maður virkilega verið vandamál liðsins?
Eftir mark þurftu Villarreal menn að taka sénsa ef að sækja átti stig úr leiknum. Capoue átti fastan skalla langt yfir markið eftir fyrirgjöf Alberto Moreno, sem margir muna ekki eftir frá tíma hans hjá Liverpool. Í kjölfar þess fengum við nokkra sénsa til að gera út um leikinn. Ronaldo var nálægt því að nýta sér mistök Juan Foyth en laust skot hans fór framhjá markinu úr þröngu færi. Mínútu síðar varði Rulli frá Rashford, sem að hafði gert vel í að leika inn á teig Villarreal.
Það var svo á 90. mínútu sem að smiðshöggið var rekið. Þá endaði Jadon Sancho frábæra skyndisókn United á því að þruma boltanum í slá og inn. 0-2 og við komnir áfram. Ofboðslega auðvelt að samgleðjast Sancho sem að hefur farið hægt af stað með liðinu eftir endalaust umtal síðastliðin tvö ár. Eftir þetta var formsatriði að klára leikinn sem og við gerðum. Brych flautaði til leiksloka og Michael Carrick getur fagnað 100% árangri sem knattspyrnustjóri Manchester United. Nú er bara spurningin hver tekur við – hvort sem það er til bráðabirgða eða til langtíma.
Hver tekur við sem knattspyrnustjóri?
Samkvæmt fjölmiðlum er Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, lang líklegastur til þess að taka við Manchester United. Aðrir sem að nefndir hafa verið til sögunnar eru t.d. Erik Ten Hag (Ajax), Zinedine Zidane og Ernesto Valverde. Því fyrr sem að orðrómarnir taka enda og við fáum staðfestingu, því betra. Hvern vilja lesendur helst sjá taka við starfinu? Endilega látið í ykkur heyra!
Áfram Manchester United!