Stórundarlegt leikskipulag, hræðilegur varnarleikur og ótrúleg einstaklingsgæði. Þetta var uppskriftin að dramatísku 2-2 jafntefli Atalanta og Manchester United í kvöld. Leikurinn var stimplaður sem próf nr. 2 af þremur hjá Ole Gunnar Solskjær. Hann og lærisveinar hans unnu sér ekki inn nein extra prik með frammistöðu kvöldsins. Stjórinn gerði nokkrar breytingar á liði sínu frá því um helgina og svona stilltum við upp:
Bekkur: Henderson, Dalot, Telles, Fred, Mata, Matic (’69), van de Beek (’86), Lingard, Cavani (’69), Greenwood (’38), Martial, Sancho (’86)
Byrjunarlið heimamanna var svipað og það sem að United mætti á Old Trafford 20. október.
Atalanta:
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og Scott McTominay var hársbreidd frá því að koma United yfir þegar hann skaut slöku skoti í bak Jose Luis Palomino og þar breytti boltinn svaðalega um stefnu, Musso kominn í andstætt horn en hafði heppnina með sér þar sem að boltinn lak á snigilshraða í stöngina.
Stuttu síðar kom fyrsta mark leiksins. Það kemur sennilega fæstum á óvart að vörn okkar leit ömurlega út í aðdraganda marksins og David de Gea, sem hefur spilað vel í haust, gerði sig sekan um vond mistök. Duvan Zapata nýtti sér samskiptaleysi Scott McTominay og Eric Bailly sem að skildu eftir sig mikið pláss úti á vinstri kantinum. Zapata fann Josep Ilicic rétt fyrir utan teig United og Ilicic átt þéttingsfast skot beint á markið. Boltinn lak undir David de Gea í markinu og Slóveninn fagnaði ákaft. 1-0 fyrir Atalanta.
Menn virtust telja vitlaust trekk í trekk og lesa kolvitlaust í aðstæður sem að betra lið en Atalanta hefði nýtt sér, þá er nú gott að næsti leikur sé bara gegn Manchester City. Á 30. mínútu var Paul Pogba alveg staðráðinn í að sýna okkur hvað hann væri sterkur og duglegur að geta haldið mönnum frá sér, en það fór ekki betur en svo að hann missti boltann beint fyrir framan teiginn okkar og Zapata komst í algjört dauðafæri en Eric Bailly bjargaði frábærlega á ögurstundu. Stuttu síðar settist Raphael Varane í grasið og kenndi sér meins. Frábært… Inn fyrir hann kom Mason Greenwood og liðið því komið í fjögurra manna varnarlínu.
Í uppbótartíma í fyrri hálfleik komu svo í raun einu raunverulega gæði fyrri hálfleiksins af okkar hálfu. Þá spiluðu Mason Greenwood, Ronaldo og Bruno Fernandes frábærlega sín á milli áður en Ronaldo setti Bruno í gegn og tók svo á rás. Bruno las hárrétt í aðstæður og setti boltann aftur til baka á Ronaldo með hælnum sem þrumaði boltanum í fjærhornið af stuttu færi. 1-1, glæsilega gert. Stuttu síðar flautaði Slavko Vincic til loka fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikur
Fljótlega eftir að seinni hálfleikur hófst komst Bruno í ágætis færi eftir góðan undirbúning Ronaldo en skot hans var blokkað. Eftir þessi kröftugu byrjun var nákvæmlega ekkert að frétta. Liðið tengdi varla saman sendingar og fremstu menn voru gjörsamlega einangraðir.
Það var því algjörlega í takt við gang leiksins þegar að Duvan Zapata skoraði og kom Atalanta í 2-1. Varnarleikurinn í þessu marki var verri en í fyrra markinu. Eric Bailly steingleymdi sér og Zapata stakk sér aftur fyrir hann. Fyrirliðinn Maguire spilaði hann réttstæðan og reyndi svo í þokkabót að hakka hann niður innan teigs rétt áður en Kólumbíumaðurinn setti boltann yfir David de Gea, sem að stóð eins og þvara á marklínunni allan tímann. Alveg ömurlegt mark og algjörlega lýsandi fyrir bjánaganginn í öftustu línu hjá okkur. Smá tíma tók að staðfesta markið en það sást nokkuð greinilega að Maguire spilaði Zapata réttstæðan og því réttilega staðan orðin 2-1.
Það gerðist ekki margt markvert í kjölfar marks Zapata. Tilraunir United til að byggja upp sóknir voru í besta falli sorglegar og heimamenn áttu ekki í nokkrum einustu vandræðum með að verjast þeim. Þeir freistuðu þess svo að ná þriðja markinu sem að hefði tvímælalaust gert út um leikinn og þrátt fyrir talsverða aðstoð frá Maguire að þá var Bailly oftar en ekki mættur til að sópa upp lausu boltana og fyrirgjafirnar. Langt því frá fullkominn leikur hjá Bailly en hann var skömminni skárri en Maguire.
Donny van de Beek, Jadon Sancho, Edinson Cavani og Nemanja Matic komu inn á til að opna breyta gangi mála. Spilamennska liðsins batnaði ekki mikið, en blessunarlega áttum við hauk í horni. Á 92. mínútu klippti Ronaldo inn frá vinstri í átt að marki Atalanta, stuttu fyrir utan teig þeirra. Varnarmenn Atalanta náðu að krafsa í boltann sem að datt fyrir Mason Greenwood. Hann potaði boltanum upp í loftið fyrir Ronaldo og sá portúgalski var ekkert að tvínóna við hlutina. Hann gjörsamlega smellhitti boltann á lofti, rétt fyrir utan teig heimamanna og boltinn flaug neðst í fjærhornið. Algjörlega óverjandi fyrir Musso! 2-2 og bráðnauðsynlegt stig unnið í baráttunni um að komast uppúr riðlinum.
Pælingar eftir leik
Enn og aftur skilur frammistaða liðsins eftir óbragð í munni undirritaðs. Liðinu gekk ágætlega að halda í boltann fram að fyrra marki Atalanta en holningin á liðinu stærstan hluta leiks er einfaldlega stórundarleg. Hvert var hlutverk Paul Pogba í leiknum í kvöld? Hvað er að Harry Maguire? Til hvers var Jadon Sancho keyptur? Höfum við einhvern áhuga á því að byggja upp sóknir og leikfléttur eins og eðlilegt fótboltalið eða á knattspyrnustíll okkar bara eftir að verða tilviljanakenndari? Hvað gerist í landsleikjahléinu?
Öll vitum við innst inni að Pogba semur við annað lið í janúar. Líkurnar á því að hann endursemji við félagið eru sáralitlar og hann hefur daðrað við brottför síðan 2017. Fjögur ár komin af þessari hringavitleysu. Að eiga við Mino Raiola og vona svo heitt og innilega að við fáum að sjá stöðugt frábæran Paul Pogba. Alltaf hefur það verið einhverju/m að kenna að ekki gekk nægilega vel hjá Frakkanum hæfileikaríka. Mourinho kunni ekki að nota hann rétt, hann þarf aukið frelsi, það vantar heimsklassa akkeri með honum, hann er ekki vinstri kantmaður og svo framvegis. Kannski er vandamál Paul Pogba… bara Paul Pogba? Næsti leikur er gegn nágrönnum okkar í Manchester City. Þeir eru ekki jafn háfljúgandi og Liverpool voru þegar við mættum þeim, en þeir hafa það mikil gæði innan sinna raða að svona spilamennska mun einungis skila annarri flengingu. Sem betur fer er Paul Pogba í banni þar, því að hann yrði sennilega með 30 tapaða bolta á eigin vallarhelmingi gegn City eftir 20 mínútur.
Það er hryllilega sárt að missa Raphael Varane í meiðsli aftur. Maður biður til æðri máttarvalda að ekkert alvarlegt sé að, en er þó ekkert sérlega bjartsýnn á að hann spili gegn grönnunum. Hann er langbesti miðvörður okkar og með Harry Maguire í tvímælalaust versta formi lífs síns, þá er þetta vondur tími til að missa Varane aftur í meiðsli. Fyrirliðinn er bara ekki með risastóran hausinn rétt skrúfaðan á sig. Auðvitað er langt síðan að Bailly spilaði leik og þeir kannski aldrei náð sérlega vel saman, en öllu má nú ofgera. Hikið og klaufaskapurinn í honum í síðustu leikjum er eitthvað meira en bara áhyggjuefni.
En til að enda þetta á jákvæðum nótum þá verð ég að taka hatt minn ofan fyrir einstaklingsgæðum Cristiano Ronaldo. Hann fékk ekki úr miklu að moða í kvöld en skilaði tveimur frábærum mörkum. Seinna markið var í algjörum heimsklassa. Ef að boltinn hefði mátt detta fyrir hvaða leikmann sem er í veröldinni á þessum tímapunkti, af þessu færi, þá hefði ég valið Ronaldo. Stigið sem að liðið tekur með sér frá Ítalíu er risastórt og erum við nú jafnir Villarreal á toppnum með 7 stig, en þeir eru einmitt næsti andstæðingur okkar í keppninni – Atalanta hafa náð í 5 stig og Young Boys eru með 3 stig. Ljóst er að starf Ole Gunnar Solskjær er langt í frá öruggt en Cristiano Ronaldo hjálpaði honum talsvert með þessu jöfnunarmarki.
Næsti leikur liðsins er eins og áður sagði gegn Manchester City – laugardaginn 6. nóvember, kl. 12:30.
Áfram Manchester United!