Klukkan 14:00 á morgun mætir United á King Power Stadium í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar og mætir Leicester. Eftir fjóra heimaleiki í röð er komið að útileik hjá okkar mönnum. Spennandi verður að sjá hvernig liðið mætir til leiks eftir “langt” landsleikjahlé, mörgum til mikillar ama. Eins og fyrr segir mætum við Leicester sem hafa ekki riðið feitum hesti það sem af er tímabils þrátt fyrir að vera búnir að landa fyrsta titlinum sem var í boði á tímabilinu í hús, Samfélagsskildinum.
Leicester
Eftir að hafa rétt misst af Meistardeildarsæti annað árið í röð síðasta vor virðast refirnir ekki ætla gera sömu atlögu að því sæti þetta árið. Tveir sigrar og tvö jafntefli er allt og sumt það sem af er í deildinni og sitja sem stendur í 13. Sæti deildarinnar. Einnig er liðið aðeins með einn sigur í síðustu sjö leikjum í öllum keppnum, var það sigur á Millwall í Carabao bikarnum. Liðið er búið að fá á sig tólf mörk í deild sem af er sem er með því hærra í deildinni. Er það ólíkt liði Brendan Rodgers að leka inn slíku magni af mörkum sem og fyrir Kasper Schmeichel, sem er búinn að halda hreinu í öllum átta leikjum Dana í undankeppni fyrir næsta HM til að mynda.
Leicester liðið er þó stór hættulegt og þá helst Jamie Vardy sem hefur fengið fína hvíld í landsleikjahléinu. Gammurinn Vardy er kominn með sex mörk á tímabilinu og auk þess eitt sjálfsmark meir að segja. Hann er ofan á þessa ágætis tölfræð yfirleitt verið þungur ljár í þúfu fyrir United, fimm mörk hefur hann skorað gegn okkar mönnum á ferlinum. Síðasta mark hans gegn United kom þó í byrjun tímabils 2018, þannig að vonandi helst sú tímasetning áfram.
Þrír leikmenn eru á meiðslalista Leicester: Wesley Fofana, James Justin og hinn öflugi miðjumaður Wilfred Ndid, sem margir United-menn renna hýru auga til þegar rætt er um skort á miðjumönnum á Old Trafford. Jonny Evans er tæpur fyrir leikinn en ég ætla þó að tippa á að hann byrji á morgun.
Líklegt Byrjunarlið:
Manchester United
Eftir blússandi byrjun í fyrstu leikjunum á tímabilinu hefur ekki verið mikill vindur í seglum á skipi Ole Gunnars á milli haust landsleikjahléanna. Sumir hafa rifið fram #OleOut skiltin sín og aðrir kennt “Já” mönnunum í kringum norðmanninn í þjálfarateymi hans um. Hvað sem því líður virðist liðið ekki vera spila í takt. Fiðlan er vanstilt, trommurnar taktlausar og saxafóninn falskur. Við endum því yfirleitt á að vona að trompetleikarinn taki óaðfinnanlegt sóló og bjargi andlit hljómsveitarinnar. Heppnast það oft á tíðum, en ekki er hægt að ætlast til að hann blási sig albláann í framann á hverjum tónleikum með þriggja til fjögurra daga millibili. Sjáum hvað gerist á morgun.
Flestir leikmenn liðsins koma úr landsleikjahléinu með margt jákvætt í farteskinu. McTominay skoraði mikilvægt sigurmark á lokamínútunum í leik Skota og Ísraelsmanna. Ronaldo bætti við markametið sitt með þrennu gegn Lúxemborg. Frakkarnir okkar þrír fögnuðu sigri í nýjasta útspili UEFA til aukins peningarplokks í hinni svokallaðri Þjóðardeild. Það var þó mögulega dýru gjaldi keypt fyrir United þar sem Varane varð fyrir meiðslum í úrslitaleiknum. Svo er það blessaðir Suður-Ameríku mennirnir okkar. Svipað fíaskó virðist vera í uppsiglingu líkt og í síðasta landsleikjahléi varðandi leikmenn frá þessum hluta heimsins vegna sóttvarnareglna í Bretlandi. Það blessaðist þó allt á síðustu stundu þá og vonandi verður sama upp á teningnum nú. Maguire, Rashford og Diallo eru allir að ná heilsu eftir mis löng meiðsli en þessi leikur er sennilega of snemma fyrir þá.
Líklegt byrjunarlið:
Craig Pawson verður með flautuna á morgun.
Áfram Manchester United!