DJÖFULL er gaman að vinna fótboltaleiki! Manchester United vann rétt í þessu hádramatískan seiglusigur á West Ham United. Lokamínútur leiksins voru vægast sagt tíðindamiklar og það leit ekki út fyrir að okkar menn færu brosandi af velli á London Stadium. En Spánverjinn, sem hóf ferilinn hjá United á kleinuhringjaráni, sá til þess að við brosum hringinn á þessum fallega sunnudegi!
Svona stilltu liðin upp:
Byrjunarlið Man Utd:
Lingard, Sancho og Matic komu inn fyrir Pogba, Greenwood og Fred.
Byrjunarlið West Ham:
Fyrri hálfleikur
Okkar menn fóru ágætlega af stað í leiknum og héldu boltanum nokkuð þægilega sín á milli. Heimamenn vörðust neðarlega en það sást snemma að þeirra plan var að liggja til baka og freista þess að sækja hratt. Fyrsta korterið var tíðindalítið og það voru Hamrarnir sem að fengu fyrsta tækifæri leiksins. Þá sólaði Harry Maguire sig í mikil vandræði neðarlega á vinstri kantinum og missti boltann rétt fyrir utan teiginn. Boltinn var hirtur af honum og Jarrod Bowen náði ágætis skoti að marki United, en Raphaël Varane var réttur maður á réttum stað og blokkaði skot Bowen. Í kjölfarið fór sjálfstraust West Ham vaxandi og Bowen kom sér stuttu síðar í annað hálffæri.
Við náðum þó fljótlega áttum á ný og Cristiano Ronaldo reyndi á Lukasz Fabianski eftir gott spil við Paul Pogba. Á 28. mínútu fékk Bruno Fernandes svo boltann utarlega í vítateig West Ham eftir eina af milljón hornspyrnum okkar, hann tók boltann vel niður og náði föstu skoti í fjærhornið en Fabianski varði glæsilega í stöngina. Andartökum síðar varði svo Pólverjinn vel þéttingsfast langskot Shaw.
Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar að Said Benrahma kom West Ham yfir. Hann fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateig og skaut að marki. Boltinn hafði viðkomu í Varane og fór í öfugt horn en boltinn stefndi í – David de Gea algjörlega sigraður og 1-0 fyrir heimamenn eftir sléttar 30 mínútur. Þetta hefði getað dregið tennurnar úr Man Utd, en liðið svaraði þessu mótlæti frábærlega.
Fimm mínútum síðar jafnaði Cristiano Ronaldo eftir fyrirgjöf Bruno Fernandes. Ronaldo þurfti tvær tilraunir til en Fabianski varði fyrra skot hans vel, en gat ekki haldið boltanum og sjöan skoraði í opið markið af stuttu færi. 1-1 og nú var bara að láta kné fylgja kviði. Í kjölfar jöfnunarmarksins var þetta klassískur leikur í enska boltanum, fram og til baka. Fabianski varði frábærlega frá Ronaldo eftir góðan undirbúning Greenwood og mínútu seinna komst Nikola Vlasic í ágætis færi. Stuttu seinna flautaði afleitur dómari leiksins, Martin Atkinson, til hálfleiks og menn gátu náð andanum.
Seinni hálfleikur
Strax í upphafi seinni hálfleiks fékk Ronaldo gullið tækifæri til að koma United yfir. West Ham töpuðu boltanum klaufalega fyrir framan eigin teig og Bruno setti Ronaldo í gegn, einn á móti Fabianski en enn og aftur varði markmaðurinn vel. Færi sem að Ronaldo klárar í 99 af 100 skiptum. Framan af í seinni hálfleiknum vorum við ofan á og heimamenn komust varla fram yfir miðju.
Illa gekk að skapa opin marktækifæri, en undirrituðum fannst mark liggja í loftinu. Hinu megin vildu West Ham fá vítaspyrnu þegar að Aaron Wan-Bissaka tæklaði Tomas Soucek niður í vítateig United. Ákvörðunin var óskiljanleg en sem betur fer var annar leikmaður West Ham rangstæður og því ekkert gert. Sá samt flaggið ekki koma upp.
Á 77. mínútu fékk Ronaldo svo boltann inni í teig West Ham og tók Vladimir Coufal á. Hægri bakvörðurinn setti löppina út og tók Ronaldo augljóslega niður. Áfram með leikinn sagði Martin Atkinson. Snertingin var augljós, en VAR-liðar bökkuðu að sjálfsögðu sinn mann upp. Næstu mínútur voru gríðarlega frústrerandi og manni fannst botninn vera dottinn úr þessu. Heimamenn neðarlega með liðið sitt og flæðið á boltanum hjá okkar mönnum ekki nægilega gott.
Þá fékk varamaðurinn Jesse Lingard boltann frá öðrum varamanni, Matic, utarlega í teig West Ham. Lingard klippti inn og tók Declan Rice á. Okkar maður var ekkert að tvínóna við hlutina heldur hlóð í algjöra sprengju og klíndi boltanum í bláhornið – algjörlega óverjandi fyrir Fabianski! Röddin farin hjá undirrituðum og taugarnar þandar. 1-2 á 89. mínútu og nú var bara að halda út.
Stuttu síðar kom Martin Atkinson sér svo endanlega í svörtu bókina hjá okkur United mönnum. Cristiano Ronaldo var svo augljóslega tekinn niður af Kurt Zouma á 91. mínútu leiksins að ég hreinlega trúði ekki eigin augum þegar að Atkinson sleppti þessu. Vantrúin varð ekki minni þegar að fyrirgjöf Coufal lenti í hendi Luke Shaw af stuttu færi inni í teig United. 100% víti og Atkinson staðfesti það eftir stutta skoðun við VAR skjáinn. Helvítis helvíti.
Eins og tíðkast oft í handbolta að þá er vítaskyttunni skipt inná einungis til að taka víti. Sú var raunin hjá Mark Noble. Hann kom inná um leið og vítið var dæmt. Noble er frábær vítaskytta og David de Gea hefur átt í heimsins mesta basli með að verja vítaspyrnur. Þetta vissi ekki á gott…
AUÐVITAÐ VARÐI DAVID DE GEA VÍTIÐ! Noble setti þéttingsfastan bolta niður í hægra hornið en de Gea las hann og sló boltann til hliðar. Nokkrum andartökum seinna flautaði Atkinson til leiksloka og við í sjöunda himni og algjörum tilfinningarússíbana. 1-2 útisigur staðreynd!
Framhaldið
Það er yndislegt að klára svona leiki. Þetta er ástæðan fyrir því að fótboltinn er svona stórkostlegt sport, en ég þakkaði svosem ekkert fyrir það áður en að de Gea varði vítið! Það er margt hægt að taka með sér úr svona sigrum og sömuleiðis mikilvægt að kvitta strax fyrir vonbrigðin í Sviss. Svona karakterssigrar gefa mönnum aukna trú á sjálfum sér og verkefninu. Næsti leikur okkar er einmitt gegn West Ham í Deildarbikarnum. Sá leikur fer fram á miðvikudaginn næstkomandi, 22. september.
Í dag skulum við bara fá að njóta þess að horfa aftur og aftur og aftur og aftur á mörkin og hetjuvörsluna!
Áfram Manchester United!