Flugeldasýning í bikarnum
Fyrir leik hefð ég glaður tekið sigur í leiðinlegum leik en það var ekki rauninn.
Frábær leikur í alla staði hjá okkar mönnum allavega hjá þeim sem höfðu eitthvað að gera í þessum leik.
Veislan hófst á 16. mín með marki Rashford og uppspilið af því marki var nánast sama fyrir öll hin mörkin sending frá miðju oftast var það Eriksen að senda út á kant þar sem Garnacho var eða Rashford búinn að drifta þangað svo sent á nánast frían leikmann í teignm sem kláraði framhjá Slonina í marki Barnsley.
held að þetta hafi verið eins öruggur sigur og ég hef séð frá þessu liði í mörg ár þótt þeir hafi enn eina ferðina byrjað hægt og létu andstæðinginn vera Meira með boltann fyrstu 5 mín leiksins en sem betur fer endaði það með einu af þremur skotum Barnsley í öllum leiknum.
Lengi vel í þessum leik fannst mér við varla fara úr 3 gír og virðist vera að leik stílinn sem ten Hag vil vera með hafi verið til sýningar í kvöld eða má vona það miðað við hvað þeim tókst vel að bæla strax niður allt sem hét sókn hjá Barnsley og voru sjálfir endalaust að skapa og reyna sem sést með tölfræði leiksins þar sem við áttum 26 skot á móti þeirra fyrr nefndu 3 og mörkin okkar hefðu sennilega getað orðið fleiri en ekki kvarta ég yfir markaleysi í þessum leik og held í vonina að þeir geti spilað svipað í næsta leik á móti Crystal Palace um helgina.
Þrátt fyrir markaregn gerðist svo sem ekki mikið í leiknum og var þetta þægilegur sigur og enginn virtist meiðast í leiknum sem er nánast kraftaverk finnst manni eins og hefur gengið á undanfarið ár ef ekki lengra. Frábært að sjá að Rashford virðist vera endurheimta formið frá þar síðasta tímablili, Garnacho að skapa enn meiri spenningu um hver spilar hvenær og hvar á köntunum og svo Eriksen spilaði sinn lang besta leik fyrir Manchester United í langan tíma eða jafnvel bara besta leik sinn fyrir félagið og geggjað hjá honum að fullkomna framistöðuna með 2 mörkum.
Bruno með gott cameo með báðar stoðsendinarnar í mörkum Eriksen og Mazraoui að sýna það enn einu sinni að það hafi verið rétt ákvörðun að fá hann inn þótt það hafi þýtt brottför Aaron Wan Bisska sem var í uppáhaldi margra allavega þegar koma að stöðunni sem hann spilaði.
Antony virtist í lélegu leikformi en var alltaf að reyna eitthvað sem gaf honum víti sem hann fékk að taka og skoraði úr til að bæta sjálfstraustið þannig í heildinna var þetta frábær frammistaða hjá liðsheildinni og þeir sem þurftu að auka sjálfstraustið fengu það og liðið sýndi hvað í þeim býr og vonandi er þetta byrjunin á skemmtilegu tímabili héðan af og væri frábært með bikarævintýri enn eitt árið.
Byrjunarlið dagsins
Manchester United
í liðið vanta Jonny Evans og Toby Collyer því þeir eru ekki í kerfinu
Barnsley
í liðið vantar Vimal Yoganatha og Corey O’Keefe
Carabao Cup 3. umferð
Þriðja umferð Carabao cup fyrsta umferð okkar í þessari keppni og fengum við á blaði eitthvað sem ætti að vera þægilegt en töfrar bikarsins þýðir að ekkert er öruggt þarf ekki að minna á hvernig undan úrslitin í FA cup í á síðasta tímabili á móti Coventry gengu. Barnsley er ekki alveg óþekkt stærð þótt aðalliðið hafi ekki spilað við Barnsley síðan í 4. umferð sömu keppni 2009/10 tímabilið. Sem vonandi er góður fyrirboði því við enduðum á því að vinna keppnina annað árið í röð það tímabil. Skiptið fyrir það var það 97/98 tímabilið þar sem liðin mættust 4. sinnum 2 í deild og 2 í bikar (jafntefli í fyrri leiknum kallaði á endurspil) og unnu United 2 af 4 annarsvegar 7-0 og 2-0 því miður skipti seinni leikurinn engu máli því það var loka umferðin og Arsenal var þá þegar búið að tryggja sér titilinn.
En að nútímanum og það er ástæða fyrir því að ég tók sérstaklega fram að aðaliðið hefði ekki mætt Barsley síðan 2009/10 því U-21 liðið okkar er þátttakandi í EFL Trophy sem er keppni þar sem lið úr 3 og 4 deild keppa ásamt 16 akademíu liða úrvalsdeildar liða og eru ungu strákarnir í riðli með Barnsley og unnu þeir 3-2 sigur á Barnsley með mörkum frá Ethan Ennis (sem var í akademíu Liverpool en neitaði samning og kom til okkar) og annar tvíburi Darren Fletcher (Jack) skoraði hin mörkin og hver veit hvort annarhvor þeirra fái að spreyta sig í þessum leik líka.
en eftir þægilegan sigur á Southampton um helgina þar sem þrír fóru meiddir af velli en ættu allir að vera tilbúnir í þennan leik þá væri held ég skárra að gefa þeim frí í dag eða alavega Martinez og Mazroui held að de Ligt hafi gott af því að prufa að spila með nýjum miðverði en hvort það verði Maguire eða Evans skiptir kannski ekki mestu máli.
Þetta er líka frábært tækifæri til að gefa Casemiro meira sjálfstraust eftir brösugt gengi á síðasta tímabili og byrjunin á þessu svo væri gott að sjá einhverja unga leikmenn í hóp en þótt að þessi keppni er kannski ekki sú mikilvægasta fyrir okkur á þessu tímabili þá þarf þessi leikur samt að vinnast því efast ekki um að pressan á Englandi myndi ekki hætta fyrr en að Erik yrði rekinn þótt að stjórnin hafi skoðað aðra möguleika í sumar og komist að þeirri niðurstöðu að hann sé rétti maðurinn í starfið allavega ennþá.
Helsta ósk min úr þessum leik er samt bara þægilegur leikur og enginn meiðsli.
Barnsley leikur í league one og hafa gert það síðan 22/23 tímabilið. þrátt fyrir fína gæði fyrir þessa deild og hafa endað í play off sæti í 2 af 3 tímabilum hefur þeim ekki teksit að komast upp enn þá og situr liðið eins og er í 7. sæti sem er fyrsta sæti sem gefur ekki play offs og eru þar á markatölu.
Sá leikmaður sem flestir ættu að kannast við í liði Barnsley er fyrrum landsliðsmaður Íra Conor Hourihane en Callum Styles sem lék með Ungverjalandi á EM í sumar og sonur Andy Cole, Devante Cole yfirgáfu báðir liðið í sumar og gengu til liðs við West Brom. Mesta hættan stafar sennilega af Adam Phillips sem lék um tíma í akademíu Liverpool og ætti það að kvetja hann til að gefa allt sem hann getur í þennan leik en hann er einnig markahæðstur hjá Barnsley með 4 mörk á þessu tímabili.
NB setti Luke Shaw í byrjunarliðið hér þótt það sé staðfest að hann missi af leiknum en það er vegna þess að Harry Amass er ekki í kerfinu sem við notum til að búa til byrunarlið
Southampton 0:3 Manchester United
Erik ten Hag gaf Úrúgvæanum Manuel Ugarte ekki tækifæri í byrjunarliðinu en í stað Casemiro kom Christian Eriksen. Þá var ekkert pláss fyrir Garnacho en þeir báðir höfðu ferðast til Suður-Ameríku í landsliðsverkefni og eflaust einhver þreyta sem því fylgdi.
Varamenn: Bayındır, Evans, Maguire, Casemiro, Collyer, Ugarte, Antony, Garnacho, Wheatley
Fyrri hálfleikur
Fyrstu mínúturnar voru tíðindalitlar en fyrsta skotið kom þegar ungstirnið Tyler Dibling átti skot frá vítateigshorninu sem Onana þurfti að nota alla sína sentimetra í að blaka frá markinu. Eftir þetta færi óx sjálfstraust heimamanna og stuðningsmennirnir tóku enn betur við sér.
Loksins á 15. mínútu komust gestirnir upp völlinn þegar Bruno elti bolta inn fyrir vörnina og framlengdi hann á Amad Diallo sem lúrði út við vítateigslínuna hægra megin. Sá stutti tók góða gagnhreyfingu og kom boltanum fyrir markið. Þar var að finna Joshua nokkurn Zirkzee sem náði rétt að pota í tuðruna með stóru tánni en beint á Ramsdale í markinu.
Aftur kom álitleg sókn hjá United strax í kjölfarið þegar Rashford stakk boltanum inn fyrir á Dalot sem kom askvaðandi og enginn heimamaður virtist átta sig á því að elta Dalot. En fyrirgjöfin var hreinsuð út fyrir teig og hættunni komið hjá.
Eftir þetta breyttist leikurinn í svolítinn körfuboltaleik, Southampton komust í álitlega sókn þegar Kyle Walker-Pieters fór illa með Mazraoui og de Ligt upp við endalínuna en Eriksen tókst að komast inn í sendinguna út í teiginn og hófst þá skyndisókn í hina áttina. Amad Diallo fékk boltann á hægri kantinum og átti laglega sendingu á Bruno sem virtist vera að sleppa inn fyrir en heimamenn náðu að skila sér í vörnina og trufla hann í skotinu.
Leikurinn róaðist örlítið en heimamenn virtust vera að ná betri tökum á leiknum á sama tíma og vörn United virkaði ryðguð og ósamræmd. Þegar hálftími datt á klukkuna ákvað Diogo Dalot að skella sér í glórulausa tæklingu á Dibling á vítateigslínunni og mistókst að ná boltanum og réttilega dæmt víti.
Cameron Archer steig þá á punktinn og hamraði boltann í vinstra hornið en Onana gerði sér lítið fyrir og varði frá honum en boltinn kastaðist upp í loftið af handleggnum á Onana og Archer var fyrstur upp og skallaði í átt að markinu. En Kamerúninn var fljótur upp og greip lausan skallann auðveldlega.
United brunaði í sókn og eftir laglegt spil milli Rashford og Zirkzee sem endði með því að Hollendingurinn átti skot með hægri fæti alveg út við stöngina en Ramsdale náði að slengja löngu tönginni í tuðruna og bjarga í horn.
Úr horninu kom stutt sending á Bruno við vítateigshornið sem kom með gullfallega fyrirgjöf þar sem þrír United menn risu upp en Matthjis de Ligt skallaði boltann í fjær hornið framhjá Englendingnum í hönskunum. 0-1 og tilfinningarússíbaninn á fleygiferð eftir svona fram og til baka bolta. Ekki beint verðskuldað en kærkomið engu að síður.
Eitthvað virtist leikkerfi og skipulag Southampton hökkta við þetta og ekki leið á löngu áður en United fékk skyndisókn þar sem Amad renndi boltanum inn fyrir vörnina á Rashford sem brunaði upp hægri vænginn en skot hans úr þröngu færi var varið vel. En United fékk aðra hornspyrnu út frá því oen að þessu sinni frá hinum hornfánanum.
Boltinn fór yfir allan pakkann á Amad sem renndi boltanum á Rashford sem ákvað að skjóta. Skot hans sveif í fallegan boga út fyrir de Ligt sem byrgði Ramsdale sýn og small að lokum í innanverðri stönginni og söng í netinu. 0-2 og kærkomið að Rashford sé kominn á blað.
Höfundur var ekki búinn að skrifa þessa síðustu málsgrein áður en Dalot fékk stungusendingu sem hann framsendi áfram á de Ligt sem tókst að koma boltanum fyrir sig og virtist auðveldara að skora en Ramsdale var snöggur út úr rammanum og lokaði vel á Hollendinginn.
Fjórum mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn en hvorugu liðinu tókst að nýta sér það sem eftir lifði hálfleiksins til að gera nokkuð markvert og virtust okkar menn bara sáttir við að fara inn í hálfleikinn með þessa forystu.
Síðari hálfleikur
Noussair Mazraoui átti fyrsta alvöru tækifæri síðari hálfleiks þegar Bruno átti góða skiptingu yfir völlinn á Diallo sem fékk utan á hlaup frá Marokkómanninum. En í stað þess að koma með fyrirgjöf ákvað hann að reyna að lauma boltanum á nærstöngina en skotið ónákvæmt og fór í hliðarnetið.
Amad Diallo var allt í öllu fram á við og var viðriðinn flestar sóknir okkar. Hann fékk svo ágætisfæri á 57. mínútu þegar honum tókst að þræða sig í gegnum varnarpakka heimamanna en tókst því miður ekki að koma skotinu á rammann. Þetta var svolítið saga leiksins á þessum tímapunkti, mikill darraðadans inn í teignum hjá Southampton en ekki nægilega mikil hætta sem skapaðist út frá því.
En Rashford fékk annað skotfæri eftir klukkutímaleik þegar vítateigsdansinn endaði hjá honum við horn teigsins og mátti Ramsdale hafa sig allan við að verja skotið frá honum yfir slánna.
Russell Martin virtist vera búinn að fá sig fullsaddan af þessari pressu gestanna og gerði fjórfalda skiptingu, inn á komu Lallana, Fraser, Stewart og Cornet fyrir þá Uguchukwo, Dibling, Brereton Dias og Archer. Skýr skilaboð, blása til sóknar síðasta hálftímann.
Sem betur fer tókst það ekki næstu tíu mínúturnar og þá ákvað Erik ten Hag að gera breytingar, inná komu þeir Garnacho, Ugarte og Maguire inn fyrir þá Rashford, Eriksen og Mazraoui. Martinez færði sig þá yfir í vinstri bakvörðinn og Dalot yfir á hægri hlutann. Maguire tókst svo að krækja sér í gult spjald á mettíma fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að búið var að flauta.
Það leið svo ekki á löngu áður en Martinez var kippt af velli fyrir Jonny Evans og virtist takturinn í leiknum alveg dottinn úr báðum liðum eftir þessar átta breytingar.
En það næsta markverða átti sér stað á 80. mínútu þegar Ugarte kom boltanum úr vörninni á Garnacho sem brunaði upp meðfram hliðarlínunni en var straujaður af Jack Stephens sem stoppaði mjög álitlega sókn. Stuart Atwell var ekki lengi að rífa upp spjald en það kom sjálfsagt flestum á óvart að hann lyfti rauða spjaldinu upp. En í endursýningu sást mjög greinilega að það var vel réttlætanlegt enda fór Stephens hátt með takkana og hefði hæglega geta farið mun verr fyrir Garnacho.
Síðasta skipting kom svo þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar Casemiro kom inn á fyrir de Ligt sem virtist stífna upp og fá krampa. Bæði lið virtust vera að spara orkuna síðustu mínúturnar og lítið sem þau buðu upp á það sem eftir lifði af þessum 90 mínútum. Dómarinn hafði hins vegar ekki fengið nóg af þessari skemmtun og bætti við sex mínútum.
Fyrsta færið í langan tíma kom á fyrstu mínútu uppbótartómans þegar Amad komst upp að endalínu og renndi boltanum fyrir markið þar sem Zirkzee komst í skotfæri en boltanum bjargað nánast á línunni. En United tókst þó að lokum að geirnegla sigurinn þegar Casemiro stakk boltanum inn fyrir í hlaup fyrir Dalot sem renndi boltanum frá endalínunni fyrir framan markmannsteiginn og þar kom Garnacho á siglingunni og smurði knöttinn upp í þaknetið. 0-3 og stigin þrjú gulltryggð og leikurinn flautaður af eftir miðju heimamanna.
Pælingar eftir leikinn
Þriggja marka sigur en engin stórveisla þó. Leikurinn hefði geta farið á annan veg ef Onana hefði ekki varið vítið og liðið hefði verið 0-1 undir en iðnaðarsigur og í raun virtust heimamenn aldrei líklegir til afreka í síðari hálfleik. Amad Diallo skein skært í dag og var hættulegasti leikmaðurinn okkar frá fyrstu mínútu.
Vörnin var frekar óörugg framan af leiknum en óx ásmegin og að lokum var nánast öruggt að liðið væri að fara halda hreinu. Ef við rýnum í tölfræðina þá var United 56% með boltann og með 20 skot og þar af helmingur þeirra á rammann. Ramsdale var langbesti leikmaður heimamanna í dag og það var honum að þakka að Southampton endaði ekki með 5 eða 6 mörk á sig.
Á sama tíma takmarkaði United skottilraunir heimamanna en þeir áttu 6 skot yfir allan leikinn. Auðvitað þarf að taka mið af því að við vorum að spila við nýliða í deildinni en eins og við þekkjum mjög vel þá eru engir leikir í deildinni auðveldir og hvað þá útileikir.
Þá var einnig mjög ljúft að halda hreinu og vera nú komnir með tvö hrein lök í fyrstu fjórum umferðunum. Næsti leikur er svo gegn Barnsley í deildarbikarnum á þriðjudaginn. Góðar stundir!
Dýrlingarnir taka á móti Rauðu djöflunum!
Þá geta tuðrusparksáhugamenn og -konur komið sér vel fyrir framan skjáinn eftir langt og strembið landsleikjahlé því Enska úrvalsdeildin heldur áfram um helgina. Okkar menn gera sér ferð aftur suður með sjó og að þessu sinni mæta þeir á St. Mary’s Stadium þar sem þeir hitta fyrir nýliðana í Southampton. Síðasta ferðalag okkar suður endaði með 2-1 tapi gegn Brighton sem hefði hæglega geta farið á annan veg á öðrum degi en á milli þessara leikja var svo afhroð á Old Trafford gegn erkifjendunum í Liverpool þar sem liðið steinlá gegn öðru af tveimur efstu liðunum.
Liðið liggur þar af leiðandi heldur neðarlega á töflunni eða í 14. sæti eftir þrjá fyrstu leiki tímabilsins með þrjú stig. Einu liðin sem eru fyrir neðan okkur eru liðin sem hafa ekki ennþá unnið leik á tímabilinu. Markaskorun eða öllu heldur færanýtingin heldur áfram að vera Akkílesarhæll okkar og það mun reynast liðinu mjög dýrkeypt ef það mun ekki breytast fljótlega. Það hitnar alltaf meira og meira undir sæti stjórans í hvert sinn sem liðið tapar stigum og eflaust einhverjir sem telja Erik ten Hag líklegan til að tapa sætinu til aðstoðarstjórans innan nokkurra vikna.
Næstu fjórir leikir eru gríðarlega mikilvæg prófraun fyrir stjórann sem hefur þó skilað okkur málmum á síðustu tveimur leiktíðum þrátt fyrir að spilamennska liðsins hafi ekki beint bent til mikilla afreka. Liðið mætir Southampton á útivelli núna í hádegisleiknum á morgun áður en þeir halda svo aftur á heimaslóðir þar sem Barnsley úr C-deildinni heimsækir okkur á Old Trafford. Því næst tekur Crystal Palace á móti United á Selhurst Park og þessari leikjahrinu lýkur svo með heimaleik gegn Twente í Evrópudeildinni. Fjórir leikir á ellefu dögum en sem betur fer engin ferðalög erlendis að þessu sinni.
Southampton
Í fyrra voru Southampton í Championship deildinni (B-deildinni) og enduðu tímabilið nokkuð þægilega í fjórða sætinu og komust í gegnum umspilið eftir að hafa lagt Leeds í úrslitaleiknum. Þeir féllu tímabilið 22/23 en þetta var fyrsta ár Dýrlinganna í B-deildinni frá því herrans ári 2012 en á árunum á milli höfðu þeir verið í deild þeirra bestu þótt þeir hafi oft á tíðum daðrað við falldrauginn. Á því tímabili (22/23) ráku þeir stjórann, Ralf Hassenhuttl sem hafði þá verið með liðið í 4 ár samfleytt. Nathan Jones tók við en hann entist ekki nema þrjá mánuði í starfi og skildi við liðið á botni deildarinnar og Ruben Sellés tók við sem bráðabirgðastjóri en honum mistókst að vinna það kraftaverk sem honum var ætlað, það er að halda liðinu uppi. Liðið ákvað að framlengja ekki við hann og fékk í hans stað Russell Martin á þriggja ára saming.
Russell Martin er 38 ára gamall Englendingur sem spilaði lengst af fyrir Norwich og Wycombe Wanderers en eftir að fótboltaferlinum lauk hjá MK Dons árið 2019 tók hann við sem stjóri liðsins yfir tvö tímabil. Þrátt fyrir að hafa endað fyrsta tímabilið í 19. sæti og það næsta í 13. sæti ákvað Swansea City að tryggja sér þjónustu hans um mitt ár 2021. Þar tókst honum ekkert mikið betur til en liðið endaði í 15. sæti og árið eftir í 10. sæti sem ekki er hægt að telja sem mikinn árangur miðað við að liðið komst í umspil eftir að hafa lent í 4. sæti á tímabilinu fyrir komu hans.
En hvað er þá það sem fékk Southampton til að stökkva um borð með Russell Martin? Til þess að glöggva sig á því getur verið ágætt að rýna í tölfræðina og skoða leikstíl liðanna sem hann hefur stýrt en þau eiga það öll sameiginlegt að vera óvenjumikið með boltann í leikjum. Reyndar svo að einungis Barcelona (65,11%) og Man City (63,83%) voru með hærra hlutfall með boltann en MK Dons (63,82%) á fyrra tímabilinu hans með MK Dons (the Athletic). Á sama tímabili setti liðið met þegar þeir áttu 56 sendingar án þess að mótherjinn kæmi við boltann áður en þeir skoruðu (3-2 tap gegn Gillingham).
Í Championship deildinni hélt Russell Martin áfram að spila þennan bolta, þar sem liðið toppaði marga tölfræðiþætti deildarinnar eins og hlutfall heppnaðra sendinga (87,7%), flestar sendingar (28.747), með flestar aðgerðir sem leiddu til skots (1255) og auðvitað hlutfall með bolta (65,5%). En tölfræðin vinnur ekki leikina og það er heldur ekki eins og liðin sem hann hafi stýrt hafi valtað yfir mótherjana.
Liðið slapp með naumindum í gegnum umspilið og hefur ekki farið af stað með neinni flugeldasýningu í deild þeirra bestu. Liðið hefur leikið þrjá leiki og tapað þeim öllum, 1-0 gegn 10 leikmönnum Newcastle, 0-1 á heimavelli gegn Nottingham Forest og að lokum 1-3 tap á útivelli gegn Brentford. Þrátt fyrir að liðið sitji á botni deildarinnar er liðið í öðru sæti þegar kemur að fjölda snertinga í leikjum og með næst flestar sendingar aðeins á eftir Man City en þeim tekst einhvern veginn ekki að nýta sér þá „yfirburði“ til að hala inn stigum ef yfirburði mætti kalla.
Russell Martin stillir mjög gjarnan upp í 3-5-2 og hefur notað það kerfi í öllum leikjunum í deildinni en stillti upp í 4-3-3 gegn Cardiff í bikarnum (3-5 útisigur). Hann virðist þó vera heldur vanafastur og því ætla ég að spá því að hann stilli áfram upp í 3-5-2 og reyni að spila sinn bolta, sérstaklega þar sem liðið er á heimavelli.
Þeirra hættulegustu leikmenn verða án vafa Brereton Días og Adam Armstrong en sá síðarnefndi raðaði inn 21 deildarmarki á síðustu leiktíð þó hann sé ekki enn kominn á blað á þessari leiktíð. Þá mæli ég eindregið með að gefa Tyler Dibling sérstaklega auga í þessum leik en hann er 18 ára leikmaður sem hefur spilað með flestöllum yngri landsliðum Englands og er gríðarlega efnilegur. Á meiðslalistanum hjá Dýrlingunum eru þeir Juan Larios, Gavin Bazunu, Kamaldeen Sulemana og Ross Stewart.
Manchester United
Það eru ansi mörg augu og spjót sem beinast að stjóranum okkar um þessar mundir enda hefur byrjun tímabilsins farið illa ofan í margan stuðningsmanninn. Sumarglugginn lokaði eftir að við fengum töluvert spennandi liðsauka (Zirkzee, de Ligt, Mazraoui, Yoro og að lokum Ugarte auk efnilegra yngri leikmanna) en sú eftirvænting og spenna sem farin var að byggjast upp virðist löngu dauð núna. Liðið situr í 14. sæti, einn sigur gegn Fulham og svo tveir tapleikir í röð sem gerir það að verkum að allt annað en sigur í leiknum á morgun er ekki nógu gott. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að liðið verði ekki bara að sigra heldur sigra sannfærandi og örugglega til að reyna að rétta af skútuna. En það er langt síðan United vann síðast leik með sannfærandi og öruggum hætti svo best væri að skala niður væntingar og kröfur okkar um slíkt.
Ef eitthvað er að marka síðustu leiki þessara liða þá verða ekki mörg mörk í leiknum þrjú jafntefli (eitt markalaust og hin 1-1) og einn 0-1 sigur á þessum velli. Ef við förum svo enn lengra aftur í tímann þá finnum við auðvitað 9-0 sigurinn sem er auðvitað merkilegur útaf fyrir sig en hefur ekkert forspárgildi fyrir komandi leik. Hins vegar hefur United ekki tapað fyrir Southampton í síðustu 12 viðureignum liðanna en verði jafntefli niðurstaðan munu stuðningsmenn United sjálfsagt upplifa það sem tap.
En þrátt fyrir þessa hroðalegu byrjun á tímabilinu hefur United ekki verið að spila eins illa og margir vilja meina. Einungis þrjú lið (Liverpool, Man City og Bournemouth) eru með hærra xG en við (5,2) á meðan við höfum bara skorað 2 mörk og þrátt fyrir að við séum búin að fá á okkur 5 mörk þá höfum við í raun bara fengið 7 skot á rammann en einungis fjögur lið hafa fengið færri skot á markið. Við erum hins vegar þar af leiðandi með lægsta markvörsluhlutfallið (44,4%) og því þarf stóri Karmerúninn okkar að fara sýna sitt rétta andlit. Honum til varnar verð ég þó að minnast á að við erum með þrjú mistök sem hafa leitt til marks en eina liðið sem hefur átt jafnmörg mistök sem leitt hafa til marks (3) er einmitt Southampton.
En að liðsuppstillingunni. Erik ten Hag sagði á fréttamannafundinum fyrir leikinn að Manuel Ugarte væri klár eftir að hann spilaði tvo leiki með Úrugvæ í landsleikjahléinu og væri tilbúinn en mögulega verður hann á bekknum ef ég þekki ten Hag rétt. Það sama á hins vegar ekki við um Luke Shaw og Rasmus Hojlund sem báðir eru frá vegna meiðsla en miðað við orð stjórans styttist óðfluga í að þeir snúi aftur. Aðrir á meiðslalistanum eru þeir Leny Yoro, Tyrell Malacia, Victor Lindelöf og Mason Mount.
Það væri óskandi að hann myndi treysta Úrúgvæanum í verkefnið því tvö af þessum fyrrnefndu mistökum komu frá Casemiro í síðasta leik. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Hollendingurinn stillir upp í hádeginu á morgun því hann hefur bæði hent mönnum beint inn í liðið (t.d. Antony) og látið menn bíða heilllengi eftir sínu fyrsta tækifæir (t.d. Casemiro)
En þetta er liðið sem ég vil sjá á morgun:
Amad Diallo hefur verið ljósi punkturinn okkar í framlínunni og þrátt fyrir að hann hafi átt einn slakan leik þá virðist hann vera loksins að stíga upp og sýna hvers vegna hann var keyptur á rúmlega 20 millj. evra frá Atalanta á Ítalíu. Joshua Zirkzee er ábyggilega staðráðinn í að bæta upp fyrir Liverpool leikinn þar sem hann átti að vera með að lágmarki eitt ef ekki tvö mörk, hvoru tveggja eftir góða fyrirgjöf frá Rashford. Varnarlínan verður að ég held óbreytt, Matthjis de Ligt og Lisandro Martinez hefja sinn annan leik og bakverðirnir verða Diogo Dalot og Noussair Mazraoui. Þetta velur sig svolítið sjálft.
Leikurinn er sá fyrsti í 4. umferð og verður flautuleikari dagsins enginn annar en Stuart Atwell sem mun flauta leikinn á 11:30. Góðar stundir!