Manchester United lék sinn annan leik á undirbúningstímabilinu í dag á Kiyan Prince Foundation vellinum sem áður hét Loftus Road. Heimamenn stilltu upp sínu nánast sterkasta liði í dag með hinn margreynda Charlie Austin í framlínunni. Gestirnir frá Manchester eiga enn eftir að endurheimta leikmennina sem léku á Evrópumótinu í sumar og liðsuppstillingin í dag var ekki sú mest spennandi. Í fjarveru byrjunarliðsins eru leikmenn eins og Dan James, Jesse Lingard, Facundo Pellistri að fá tækifæri til að sýna sig fyrir öðrum liðum í glugganum og ólíklegt að tveir af þeim leiki annars staðar á komandi tímabili. Annar leikmaður í svipaðri stöðu er Andreas Pereira.
Þessir leikir á undirbúningstímabilinu eru eingöngu fyrir leikmenn að komast almennilega af stað og komast í leikform og því eru úrslitin alltaf algjört aukaatriði þó svo gaman sé að horfa liðið sitt vinna leiki. Fyrri hálfleikurinn var þokkalegur í dag til dæmis þegar „sterkasta“ liðið var á vellinum en QPR völtuðu heldur betur yfir United í seinni hálfleiknum en liðið var komið í 4:1 forystu eftir 15 mínútur í seinni hálfleiknum en staðan var jöfn í hálfleik eftir mörk frá Jesse Lingard og Charlie Austin. Lyndon Dykes skoraði 2 mörk í seinni hálfleiknum og Moses Odubajo skoraði eitt. Svíinn Anthony Elanga náði síðan að minnka muninn tæpum 20 mínútum fyrir leikslok en lengra komst United ekki í dag. Sanngjarn 4:2 sigur QPR staðreynd og við bíðum enn eftir að fá nánast allt byrjunarliðið tilbaka.
Næsti leikur United er gegn Patrik Gunnarssyni og félögum í Brentford á miðvikudaginn kl. 18:00.
Þess má geta að Tahith Chong var ekki með í dag því að hann er formlega kominn til Birmingham City á lánsamningi út tímabilið og vonandi tekst honum betur en á síðasta tímabili.