Lokaleikur tímabilsins sendir Manchester United fólk með óbragð inn í sumarið eftir tap í framlengdum úrslitaleik Evrópudeildarinnar og maraþonvítaspyrnukeppni. Á endanum var það David de Gea, maðurinn sem um tíma hélt liðinu uppi, sem var skúrkurinn. En hann á svo sannarlega ekki skilið að skuldinni sé alfarið skellt á hann. Frammistaða liðsins var heilt yfir ekki nógu góð, of margir leikmenn spiluðu undir getu og skorti baráttu og þjálfarateymið var ekki með réttu svörin í kvöld til að vinna lið sem er ekki betra en Manchester United en hefur, að því er virðist, töluvert betri knattspyrnustjóra.
Fínt tímabil hefði getað orðið mjög flott með sigri í kvöld en í staðinn skilur leikurinn, og lok tímabilsins, mann eftir með margar spurningar um það nákvæmlega á hvaða leið Manchester United er núna. Sumarið verður stórt.
Byrjunarlið og helstu atvik
Flestir bjuggust líklega við að McFred myndu byrja þennan leik á miðjunni hjá United en Solskjær virtist ætla að sækja meira svo hann stillti Pogba upp á miðjunni með McTominay. Byrjunarliðið var á þessa leið:
Bekkur: Grant, Henderson, Telles (120+2′ fyrir Wan-Bissaka), Maguire, Tuanzebe (116′ fyrir Bailly), Williams, Amad, Fred (100′ fyrir Greenwood), James (115′ fyrir Pogba), Mata (120+2′ fyrir McTominay), Matic, van de Beek.
Á meðan valdi Unai Emery þetta byrjunarlið fyrir Villarreal:
Bekkur: Asenjo, Gaspar, Mori, Raba, Estupinan, Alcacer, Moreno, Coquelin, Pena, Costa, Gomez, Nino.
Helsti markaskorari Villarreal á tímabilinu, Gerard Moreno, kom þeim yfir eftir 29 mínútur með marki eftir aukaspyrnu frá Daniel Parejo. Nokkuð vel unnið hjá þeim þar sem Moreno hljóp Shaw af sér, nýtti skjöld frá samherja til að komast framhjá Bailly og tók svo sprett fyrir aftan Lindelöf og stýrði aukaspyrnunni í markið framhjá de Gea. Vel gert hjá þeim en verulega illa gert hjá United. Liðið saknaði Harry Maguire mikið í kvöld, sérstaklega í þessu marki. Einhvern tímann hefði de Gea varið þetta en sökin er að minnstu leyti hans. Það er bara eðlileg krafa að lið sem er komið í úrslitaleik setji lang, lang, LANG hættulegasta sóknarmann andstæðingsins í gjörgæslu í föstu leikatriði.
Edinson Cavani jafnaði leikinn á 55. mínútu. Eftir hornspyrnu barst boltinn út úr teig Villarreal þar sem Rashford lét vaða en komst ekki alla leið að marki. Boltinn hrökk af McTominay til Edinson Cavani sem lét vaða á markið og skoraði framhjá Rulli sem hafði skutlað sér í annað hornið.
Í vítaspyrnukeppninni skoruðu svo allir leikmenn beggja liða þar til komið var að David de Gea. Flest vítin voru reyndar mjög öflug en stundum hefðu báðir markmenn getað og átt að gera töluvert betur. Rulli skoraði örugglega úr sinni vítaspyrnu í 11. umferð og varði svo heldur slappa vítaspyrnu frá David de Gea og tryggði Villarreal sigurinn.
Pælingar um leikinn
Manchester United er betra fótboltalið en Villarreal. Manchester United endaði í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á meðan Villarreal endaði í 7. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar. Ef leikmenn eru bornir saman þá er United betra lið. Verðmiðinn á United-liðinu er margfalt hærri en á þessu Villarreal-liði.
En það var ekki að sjá á löngum stundum í þessum leik. United byrjaði reyndar betur, að mínu mati, og var með yfirhöndina fyrsta hálftímann. United var þá meira með boltann (sem var að vísu alltaf upplegg Villarreal) og náði að mestu að spila sig í gegnum pressu Villarreal og koma sér í álitleg færi til að gera eitthvað meira. Það vantaði þó alltaf herslumuninn á að breyta því í eitthvað alvöru. En á þessu stigi leiksins var það ekkert alslæmt, með þolinmæði væri eflaust hægt að láta kné fylgja kviði á endanum og nýta yfirburðina.
Það gerðist þó ekki heldur fylgdi leikurinn uppskrift Villarreal þegar þeir skoruðu upp úr föstu leikatriði utarlega á vellinum. Það er löngu orðið rannsóknarefni hvað United eru slakir að verjast föstum leikatriðum. Munaði líka afskaplega miklu um að fyrirliðann vantaði.
Eftir þetta átti Villarreal meira í fyrri hálfleiknum. Það var leiðinlegt að sjá ekki meiri svör frá Manchester United eftir markið. Einu mennirnir með almennilegu lífsmarki voru Edinson Cavani, sem var óþreytandi að reyna að keyra áfram baráttuna, og Scott McTominay, sem var alls staðar. Mason Greenwood átti fína spretti en aðrir voru hreinlega farþegar miðað við hvað þeir eiga að geta sýnt. Sérstaklega var svekkjandi að sjá að Marcus Rashford og Luke Shaw voru að spila undir getu á vinstri kantinum.
Maður vonaðist til að hálfleiksræða Solskjær myndi sparka lífi í liðið en ef eitthvað var komu Villarreal sprækari inn í seinni hálfleikinn. Harðfylgni McTominay skilaði sér þó á 55. mínútu þegar hann náði upp á sitt einsdæmi að vinna hornspyrnu eftir fína tilraun. Upp úr þeirri hornspyrnu skoraði Cavani eftir stoðsendingu frá McTominay. Þá loksins sáum við eitthvað líf í United. Liðið náði tökum á leiknum sem entust út venjulegan leiktíma. Það var eitthvað um færi en þó ekki almennileg.
Í framlengingu var eins og allur vindur væri úr Manchester United. Villarreal hafði, ólíkt United, gert skiptingar í leiknum og voru miklu ferskari og tilbúnari í þetta. Solskjær virtist vera með hugann alfarið við vítaspyrnukeppni þegar hann loksins gerði sínar skiptingar. Allir bjuggust við að Rashford færi af velli en í staðinn tók hann Greenwood og Pogba af velli. Það var vægast sagt skrýtið.
Vissulega skoruðu allir leikmennirnir sem Solskjær setti inn á völlinn í vítaspyrnukeppninni, og tveir af þeim úr fyrstu tveimur spyrnunum. En það er mjög eðlileg spurning að spyrja hvers vegna ekki var reynt að gera meira til að vinna helvítis leikinn í venjulegum leiktíma eða framlengingu frekar en að treysta á vítaspyrnu? Og í öðru lagi þá af hverju ein af þessum skiptingum var ekki nýtt til að skipta markmanni inn á sem hefur reynslu af því að verja vítaspyrnu á síðustu fimm árum eða svo.
Vonbrigði
Úrslitin úr þessum leik eru mikil vonbrigði. Frammistaða of margra leikmanna var vonbrigði. Taktískt uppleg og sér í lagi gameplay stjórnun Solskjær voru afskaplega mikil vonbrigði. Enn og aftur fellur hann á prófi. Hann komst upp úr undanúrslitinum í þetta skiptið en hefur hann það sem þarf til að taka þetta alla leið?
Það er auðvitað ekki endilega sanngjarnt að láta svekkelsið strax eftir vondan tapleik lita of mikinn hluta af tímabilinu og því sem Solskjær hefur fært liðinu. En þetta eru ekki nýjar spurningar samt, ekki nýjar efasemdir. Og þótt tapsærið spili inn í þá finnst manni þetta samt sem áður svo augljóst að það hefði þurft að gera meiri og betri breytingar á liðinu. Upphaflega uppleggið var ekki endilega svo slæmt en það var ekki að virka og það hefði þurft að breyta einhverju. Fyrir mann sem gerði það að listgrein að breyta leikjum af bekknum þá virðist Solskjær hafa alltof litla tilfinningu fyrir því hvað hann eigi að gera við varamennina í miðjum leikjum.
Niðurstaðan á tímabilinu er þá Meistaradeildarsæti en titlaleysi. Fyrirfram hefði maður kannski þegið það en akkúrat núna verður maður að lýsa þessu sem ákveðnum vonbrigðum.