Á slaginu 13:05 á morgun hefst strembnasti partur tímabilsins álagslega séð. Þrír heilir leikir á 104 klst. sem er sjald séð í knattspyrnu heiminum nema þá á yngriflokka túrneringum. Fyrsti leikurinn er gegn Aston Villa í Birmingham á morgun, svo er það Leicester á þriðjudaginn og frestaði leikurinn gegn Liverpool á fimmtudaginn. Báðir þeir leikir eru á Old Trafford sem gerir þetta örlítið þægilegra miðað við aðstæður. Okkar menn eru með nokkuð þægilega forrustu í öðru sæti deildarinnar. United þarf einungis sjö stig til viðbótar úr síðustu fimm leikjunum til að tryggja það, miðað við núverandi stöðu. Miðað við gengi liðsins á tímabilinu hingað til með aðeins 4 tapleiki í deild tel ég ólíklegt að við glutrum öðru sætinu úr greipum okkar þrátt fyrir strembna leikjatörn framundann.
Byrjunarliðspælingar
Aldrei þessu vant var Ole Gunnar duglegur að hvíla og rúlla á liðinu í Róm á fimmtudaginn. Enda full ástæða til vegna komandi leikja og stöðu einvígisins gegn Roma liðinu. Ole lét líka óánægju sína í ljós í viðtölum eftir leikinn varðandi uppröðun næstu leikja. Þar sagði hann komandi álag “ómögulegt fyrir leikmenn”.
Lindelöf og McTominay voru á bekknum allann tímann og því má fastlega búast við að þeir byrji á morgun. Einnig skipti hann báðum aðal bakvörðum okkar út af í hálfleik sem þýðir líklega að þeir byrji á morgun. Pogba, Cavani og Bruno fengu svo allir skiptingu. Martial er en meiddur og mun sennilega ekki taka meira þátt á þessu tímabili. Einnig er Daniel James meiddur og ekki búist við að hann verði klár fyrir leikinn, en ætti að ná lokum tímabilsins. Henderson verður að sjálfsögðu í markinu, enda um deildarleik að ræða. Harry “always available” Maguire mun sennilega spila alla leikina í þessari törn. Að sjálfsögðu vill maður svo sjá Cavani spila sem allra mest því það þýðir aðeins eitt, mörk! Í síðustu sex leikjum hefur hann skorað 7 mörk og lagt upp 2 sem þýðir að hann er kominn með 14 mörk og 5 stoðsendingar á tímabilinu í öllum keppnum.
Líklegt byrjunarlið
Aston Villa
Villa mönnum hefur fatast flugið nokkuð síðan við mættum þeim síðast í byrjun árs eftir frábæra byrjun á tímabilinu þar sem 7-2 sigur á Liverpool var algjör hápunktur. Þeir sitja nú nokkuð þægilega í 10 sæti deildarinnar. Það má tengja þessa hnignun hjá Aston Villa beint við fjarveru Jack Grealish sem hefur verið frá síðan 13. febrúar. Grealish er nefnilega þrátt fyrir það meðal efstu manna í allri tölfræði sem kemur að sköpuðum færum. Hann er t.a.m. með 10 stoðsendingar sem er aðeins þrem stoðsendingum frá þeim stoðsendinga hæsta í deildinni sem er nokkuð gott miðað við aðeins 22 leiki spilaða.
Annars er lítið spennandi við lið Aston Villa á þessum tímapunkti, stutt er eftir af tímabilinu og liðið fer sennilega ekki mikið ofar né neðar í töflunni. Flestir leikmenn Villa sjá sennilega sumarfríið í hillingum eftir erfitt tímabil. Það er þá ekki nema Martínez (Copa America), Mings (EM), Watkins (EM) og McGinn (EM) sem stefna allir á að fara á stórmót með sínum landsliðum í sumar.
Líklegt byrjunarlið:
Spá
Ég spái að við vinnum 2-1 eftir daprann fyrri hálfleik hjá okkar mönnum. Cavani með eitt mark og svo skorar einhver óvæntur t.d. Wan-Bissaka. Watkins setur mark Aston Villa.
Hinn oft á tíðum slaki dómari Chris Kavanagh dæmir leikinn á morgun. Vonum að hann fari ekki út í smáatriði í VAR-inu líkt og gegn Spurs fyrr á tímabilinu (McTominay vs. Son).