Manchester United hefur spilað tvo aðra leiki í Evrópu á þessari dagsetningu. Á þessum degi árið 2008 tryggði Paul Scholes sigurinn gegn Barcelona með stórglæsilegu marki. United náði svo að skella í lás og verja það forskot þrátt fyrir áhlaup eins sterkasta félagsliðs sem Evrópa hefur séð. Ári síðar vann United Arsenal á þessum sama degi með marki frá gulldrengnum sjálfum, John O’Shea.
En það var ekki svipaður varnarleikur uppi á teningnum í kvöld. Því miður. En sem betur fer kom það ekki að sök því sóknarleikurinn var blússandi, sérstaklega í seinni hálfleik. Edinson Cavani, Bruno Fernandes, Paul Pogba og svo Mason Greenwood sáu til þess að United fer með gott nesti til Ítalíu eftir viku.
Það helsta
Solskjær stillti upp þessu byrjunarliði í kvöld:
Bekkur: Henderson, Grant, Telles, Bailly, Tuanzebe, Williams, Amad, James, Mata (90′ fyrir Fernandes), Matic (83′ fyrir Fred), van de Beek, Greenwood (76′ fyrir Rashford).
Gestirnir byrjuðu svona:
Bekkur: Kumbulla, Peres, Villar, Fuzato, Santon, Mirante, Mayoral, Perez, Darboe, Ciervo.
Mörk:
Manchester United komst yfir strax á 9. mínútu með algjöru gullmarki. Paul Pogba átti þá sprett sem hvaða skíðakappi í svigi sem er hefði verið stoltur af, framhjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum. Þegar hann kom að teignum gaf hann boltann á Cavani sem átti mjög fallega stungu innfyrir vörnina í fyrsta á Bruno Fernandes. Bruno beið eftir að markvörðurinn lagðist og lyfti boltanum þá snyrtilega yfir hann. Stórgott mark.
En því miður náði Roma að snúa leiknum við í fyrri hálfleik með tveimur mörkum úr eiginlega þeirra einu almennilegu sóknum í fyrri hálfleik. Fyrst fengu þeir víti eftir að fyrirgjöf Karsdorp endaði í framhandlegg Paul Pogba þar sem Frakkinn var að reyna að tækliblokka fyrirgjöfina. Það er mjög auðvelt að benda á að svona handadómar séu ósanngjarnir, það var enginn ásetningur í þessu hjá Pogba og menn geta ekki tekið hendurnar af sér þegar þeir henda sér í tæklingar eða hreyfa sig. Engu að síður er þetta í samræmi við lög og hefðir þessa dagana, þótt Pogba hafi ekki viljandi verið að gera sig stóran til að blokka fyrirgjöfina með hendinni þá var hendin hátt uppi og blokkaði sannarlega fyrirgjöfina. Pellegrini tók vítið og þótt de Gea hafi verið í réttu horni þá var vítið fast og nógu langt úti í horni til að vera alveg óverjandi.
Það var á 15. mínútu og helvítið hann Dzeko kom svo Roma yfir á 34. mínútu. Spinazzola átti þá góðan sprett upp vinstri kantinn, fann svo Mkhitaryan sem átti frábæra stungu á Pellegrini, Pellegrini var með alltof mikið pláss og gat gefið þægilega fyrirgjöf á Dzeko sem var á fjær. Alltof margir í vörn United gerðu mistök í þessu marki.
Í byrjun seinni hálfleiks náði Edinson Cavani að jafna með öðru stórglæsilegu United marki. Bruno Fernandes átti þá sprett upp að teig Roma, fann Cavani með góðri stungu. Cavani sá að hann var einn á móti markmanni inní teignum en ákvað samt að gera þetta extra erfitt fyrir varamarkmanninn með því að líma boltann innanfótar alveg upp í skeytin. Geggjað slútt hjá okkar manni og staðan 2-2. Vægast sagt sanngjarnt jöfnunarmark.
Cavani var svo réttur maður á réttum stað á 64. mínútu þegar hann fylgdi á eftir sjaldséðu en góðu skoti frá Wan-Bissaka. Skotið var reyndar ekki nógu gott til að vera mjög líklegt til marks en nógu gott til að markvörðurinn náði ekki meira en slá boltann út í teig þar sem gammurinn Cavani sendi hann þar sem hann átti heima, í netmöskvunum á marki Roma. 3-2 og útlitið orðið töluvert betra.
Útlitið varð svo enn betra á 71. mínútu þegar Bruno Fernandes skoraði fjórða mark Manchester United, úr vítaspyrnu sem dæmd var á Chris Smalling. Smalling fór þá í Cavani sem féll við. Vissulega var snerting og ég trúi því að Cavani hafi fundið fyrir þessu og ekki verið að dýfa sér. En það verður að viðurkennast að þetta var í mýkri kantinum. Bruno var sléttsama um slíkar pælingar og setti vítið bara öruggt uppí skeytin.
United liðið var ekki hætti. Bruno átti frábæra fyrirgjöf fjórum mínútum síðar sem fann Paul Pogba í loftinu. Turn af skalla sem var óverjandi fyrir Mirante.
Enn var tími og Mason Greenwood nýtti hann á 86. mínútu til að skora sjötta mark United. Þá fékk hann stungu frá Cavani eftir að United hafði unnið boltann og sótt snöggt. Greenwood bar boltann upp og skaut svo föstu, óverjandi skoti að marki Roma. Hvílíkt partý!
Spjöld:
Gonzalo Villar fékk gult á 50. mínútu og Paul Pogba á 51. mínútu.
Smalling fékk svo gult á 61. mínútu fyrir að brjóta á Bruno Fernandes.
Annað:
Það rigndi rómverskum skiptingum í fyrri hálfleik. Miðjumaðurinn Jordan Veretout tognaði eftir þriggja mínútna leik og þurfti að fara af velli fyrir Gonzalo Villar. Markvörðurinn Pau Lopez meiddist á öxl við að skutluverja langskot frá Pogba eftir tæpan hálftíma og þurfti að fara af velli fyrir Antonio Mirante. Vængbakvörðurinn Leonardo Spinazzola meiddist svo skömmu eftir að hann átti stóran þátt í öðru marki Roma og þurfti að fara af velli fyrir Bruno Peres.
Það kom sér heldur illa fyrir Roma því þótt liðið ætti rétt á fimm skiptingum í allt þá var það bara hægt í þremur skiptistoppum í leiknum sjálfum. Þannig að þegar enn Romaleikmaður var augljóslega meiddur í lok leiks þá átti Roma ekki skiptingarstopp inni.
Pælingar eftir leik
Miðað við allt og allt í þessum leik þá er Manchester United einfaldlega miklu betra fótboltalið en AS Roma. Roma varðist vel í fyrri hálfleik en náði samt að gefa dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks sem Cavani var klaufi að nýta ekki. Svo þegar leikmenn Roma þreyttust í seinni hálfleik þá valtaði United einfaldlega yfir liðið. Auðvitað munaði um það fyrir gestina að missa þrjá menn meidda af velli í fyrri hálfleik en getumunurinn var samt augljós fyrir það.
En United reyndi sitt besta að skemma fyrir sér í fyrri hálfleik. Ég myndi ekki ganga svo langt að kenna Pogba um vítið sem hann fékk á sig. Ég held það sé engin leið að renna sér með hendur meðfram líkamanum svo þetta var meira óheppni og strangar reglur en eitthvað klúður. Hins vegar hefði mögulega mátt stoppa þessa sókn fyrr.
Annað mark Roma var hins vegar klúúúúður hjá United. Maguire og Shaw höfðu alltof miklar áhyggjur af Dzeko. Lindelöf var kominn í hjálparvörn út á hægri kantinn, menn höfðu áhyggjur af Mkhitaryan en allir bara steingleymdu Lorenzo Pellegrini þar sem hann lullaði sér inn fyrir vörn United og fékk allt plássið og allan tímann til að sigta út fyrirgjöf á fjær. Hrikalegt. Fred var næstur Pellegrini og átti að fylgja honum en öll varnarlínan fær vænan slurk af skömm fyrir þetta. Sérstaklega var svekkjandi að sjá að fyrst Maguire og Shaw höfðu svona ofsalega miklar áhyggjur af Dzeko (sem gerði reyndar vel í að teyma þá í burtu með boltalausa hlaupinu sínu) þá náðu þeir samt ekki að stoppa hann þegar hann svo fékk fyrirgjöfina til sín.
En sem betur fer kom þetta ekki að sök. Varnarleikurinn og leikur liðsins í heild var miklu, miklu betri í seinni hálfleik. Þá kom þessi gírun sem ég kallaði eftir í upphituninni. Það var alvöru karakter í því að klára leikinn með svona miklum stæl. Þetta einvígi er ekki búið en ef bæði lið spila svipað í seinni leiknum eftir viku þá á United að fara áfram.
Ég veit ekki hvað Roma á mögulega inni á heimavelli en Manchester United þarf allavega að passa að mæta svipað til leiks þá og þeir gerðu í seinni hálfleik í kvöld.
Maður leiksins var Edinson Cavani með tvö mörk, tvær stoðsendingar, eina fiskaða vítaspyrnu og sífellda ógn í sínum leik.
Ekki langt þar á eftir var Bruno Fernandes með tvö mörk og tvær stoðsendingar sömuleiðis. Pogba var líka góður.
Hinn leikurinn í Evrópudeildinni
Villareal tók á meðan á móti Arsenal á Spáni í hinni undanúrslitaviðureigninni.
Heimamenn komust í 2-0 í fyrri hálfleik og útlitið dökknaði fyrir Lundúnarliðið í seinni hálfleik þegar Ceballos fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.
En Nicolas Pepe náði að minnka muninn úr víti áður en Villareal missti líka mann af velli með rautt spjald. Lokastaðan 2-1. Arsenal fer með tap en útivallarmark aftur til Englands og á ágætis séns í seinni leiknum, myndi maður halda.