United stillti upp eins og flestir bjuggust við, þó ekki upphitarinn í gær. Pogba var vinstra megin eins og hann hafði gert vel á móti Spurs um síðustu helgi, Cavani fór á bekkinn og Rashford kom inn.
Varamenn: De Gea, Alex Telles, Tuanzebe, Williams, James, Matic, Mata, Van de Beek
Lið Burnley stillti upp í 4-5-1, varnarsinnaðari en venjulega 4-4-2
Það tók Burnley um 15 sekúndur að setja boltann í netið, löng sending inn á teiginn og Wood komst í boltann á undan úthlaupi Henderson, skallaði yfir Henderson og inn. En það var til allrar hanimgju rangstaða, tæp en ekki þannig að þyrfti að rífast um VAR niðurstöðu.
Þetta var mjög fjörugt áfram, Burnley sótti á og svo í fyrstu sókn United varði Peacock-Farrell ágætlega. United var komið í gírinn eftir þessa byrjun og Burnley dró sig vel til baka og leyfði sóknirnar.
Næsta færi var fyrirgjöf þar sem Pogba kom á fjærstöngina og var næstum búinn að setja lúmskan skalla, og aftur þurfti Peacock-Farrell að bjarga. Varamarkvörðurinn strax betri en enginn þarna fyrstu tíu mínúturnar.
Þetta var aðeins rólegra í færunum eftir þetta. United sótti, Burnley varðist og það var nokkur harka í þessu. Það var ekki fyrr en tæpur hálftími var liðinn að United átti næstu tilraun, skot Rashford fór beint á Peacock-Farrell, en hann þurfti samt að beina boltanum yfir slána.
Það þurfti ekki að koma neinum á óvart að United var ekki búið að stimpla sig inn í leikinn í fyrri hálfleik. Burnley voru bara þokkalega ferskir framávið þegar þeir settu í sókn.
Sóknin hjá United hafði verið ágæt með miklum hrókeringum í stöðum en það þurfti eitthvað meira og Cavani kom inná fyrir Fred í hálfleik.
Það tók svo ekki þrjár mínútur fyrir United að ná forystunni. Rashford kom upp allan hægri kantinn og að teig, gaf þvert, Bruno lét boltann fara og Mason Greenwood kom á ferðinni og skoraði auðveldlega. Mjög flott mark en Burnley jafnaði innan við tveimur mínútum síðar, fengu horn og James Tarkowski stökk hærra en Harry Maguire meðal annars vegna þess hann var með hönd á öxl Maguire og skallaði inn. Köld tuska þar.
Eins og í fyrri hálfleik var ekkert endilega að sjá að Burnley væri á barmi fallbaráttu ef eftir því sem leið á jókst sóknarþungi United. Burnley varðist með alla menn því sem næsti inni í teig og það voru ekki auðfundnar glufur á varnarveggnum.
Um miðjan hálfleik var loksins aftur komið að Peacock-Farrell að gera eitthvað, varði ágætlega skalla Fernandes, sem þó var beint á hann.
Áfram sótti United og áfram gekk ekkert hjá þeim.
Marcus Rashford var búinn að vera besti maðurinn, hvað eftir annað að skapa hættu en stundum vantaði smá upp á að hann gæti notað vinstri fótinn betur. En hann er ekki alveg heill frekar en undanfarið og á 84. mínútu þurfti hann að fara útaf og Donny van de Beek kom inná.
Van de Beek kom þó ekki við sögu þegar United komst yfir á sömu mínútunni. Það var sama sagan, boltinn inn í teig og allir varnarmenn Burnley og þá var bara að nota andstæðinginn.
Mason Greenvood fók skotið, boltinn fór i Jack Cork og villti fullkomlega um fyrir Peacock-Farrell, óverjandi fyrir hann.
Ef einhver hélt að það að Nick Pope væri meittur myndi gera þetta auðveldara, þá var það ekki Peacock-Farrell, hann varði maður á móti manni móti McTominay og aftur gegn Cavani. Eftir seinni vörsluna fékk Bruno boltann og átti að skora en reyndi of mikið að leggja boltann fyrir sig og á endanum var varnarmaður kominn fyrir skotið.
Burnley fékk góða sókn á síðustu mínútunni, voru næstum komnir í gegnum vörnina og það var því sem næst nauðvörn. En United náði að hreinsa fram á Bruno og Burnley voru of fáliðaðir. Bruno gaf á Cavani, sem sendi út á Greenwood, hann aftur á miðjuna á Bruno, hann beið eftir Van de Beek að koma upp vinstra megin. Donny upp í teiginn og í staðinn fyrir reyna skotið gaf hann þvert og Edinson Cavani skoraði í opið mark. Frábært hraðaupphlaup og erfiður sigur endanlega í höfn.
Þetta var United eins og United hefur verið í allan vetur. Dræmur fyrri hálfleikur, óþarfa mark fengið á sig, virkilega erfitt að brjóta niður þétta vörn og svo hraðaupphlaup eins og þau gerast flottustu.
Mason Greenwood átti erfitt uppdráttar lengst af þessu tímabili eftir frábærar frammistöður eftir að boltinn fór aftur að rúlla í fyrrasumar en Ole treysti sínum manni og sagði að mörkin myndu koma og þau hafa svo sannarlega komið. Fimm mörk í síðustu sex leikjum!
Nú er viku frí fram að næsta leik, það fyrsta frá því í september!