Ef vika er langur tími í pólitík þá eru sex mánuðir stundum óratími í fótbolta. Fyrir rétt rúmu hálfu ári kom José Mourinho í heimsókn með Tottenham liðið sitt á Old Trafford. United átti frábæra byrjun en Tottenham svaraði rækilega fyrir sig, Anthony Martial var rekinn útaf og í leikslok var staðan 1-6 og United var með þrjú stig eftir þrjá leiki og í 16. sæti í deild. Litið var framhjá því að United hafði varla fengið nokkuð undirbúningstímabil, né heldur frí frá síðustu leiktíð sem lauk í ágúst og kallað var eftir höfði Ole Gunnars Solskjærs.
Sex mánuðum síðar situr United í öðru sæti, reyndar fjórtán stigum á eftir Manchester City en með tvo leiki til góða. Tottenham er þegar þetta er skrifað á meðan á leik Liverpool og Aston Villa stendur í sjötta sæti, sjöunda ef Liverpool fær stig úr leiknum. Það er farið að örla á meira en óánægju með störf Mourinho og með sigri á morgun myndi United bara hella olíu á þann eld.
En það er sýnd veiði en ekki gefin, eftir afspyrnuslaka janúar og febrúar er Spurs aðeins búið að rétta úr kútnum, og hefur verið að hala inn stig, en erfitt jafntefli gegn Newcastle um síðustu helgi vakti aftur óánægjuraddir. En lið með Harry Kane og Son Heung-min er einfaldlega alltaf hættulegt, sama hvað vörnin kann að vera mistæk.
Mourinho hefur breytt liðinu í tveimur síðustu leikjum og stillt upp í 4-4-fjandinnhafiða-2 og búist er við sama á morgun, Rodon og sér í lagi Davinson Sánchez áttu slæman leik gegn Newcastle en þetta verður önnur vörn þegar Toby Alderweireld er kominn aftur. Son kom inná í hálfleik móti Newcastle og Bale undir lokin og það er búist við þeim á morgun.
Búast má við því að lykilatriði á morgun verði hvernig liðið kemur stemmt í leikinn. Leikurinn í október gæti gefið þeim orku og trú en mikið hraun hefur runnið í Geldingadölum síðan. Það verður á ábyrgð José Mourinho að peppa liðið og það er víst ekki alveg komin sama súra stemming í klefann hjá Spurs og var undir lokin hjá Real, Chelsea og United þegar José var að spila rassinn úr buxunum þar þannig það er ekki hægt að gera ráð fyrir að Spurs verði ekki almennilega í stuði fyrir leikinn.
Manchester United
En að okkar mönnum. Það var góður og auðveldur sigur í Granada á fimmtudaginn og ætti ekki að sitja um of í mönnum. Það verður samt alltaf áfram spurningarmerki við Marcus Rashford, hann hefur verið að spila mismeiddur og við sjáum mikinn dagamun á honum, samt er það oftar en ekki svo að hann setur boltann í netið þrátt fyrir að hafa litið út fyrir að vera á hælnum í leik.
Luke Shaw er óviss eftir að hafa komið af velli í hálfleik móti Granada en ætti að vera klár. Annars velur liðið sitt að mestu sjálft, spurning hver fer á miðjuna með Pogba.
Þessi leikur er mikilvægur, á því er enginn vafi. Jafntefli væri alls ekki slæmt, og stigið alveg kærkomið í baráttunni um Meistaradeildarsæti en eftir að City tapaði áðan og United gæti verið 8 stigum á eftir þeim ef báðir leikirnir sem United á til góða vinnast þá væri síður en svo leiðinlegt að leyfa City aðeins að halda að það é ekki allt búið enn.
Frá sjónarhóli Tottenham er sigur það eina sem kemur til greina ef þeir ætla sér að eiga möguleika á Wenger bikarnum. Allt annað væri mjög erfitt fyrir þá. Sem fyrr segir er það á Alderweireld að drífa vörnina þeirra, en við munum þegar José Mourinho lék upp á að gera Davinson Sánchez lífið leitt í úrslitaleik United og Ajax í Evrópudeildinni.
Það væri ekkert leiðinlegt ef United næði að vinna á veikleikum Tottenham varnarinnar en á sama tíma ná að halda niðri einhverju besta framherjapari í Englandi.
Þetta verður sem sé hörkuspennandi og það er bara ekki nokkur lifandi leið að þessi leikur fari 0-0. Flautað er til leiks kl 15:30 á morgun, sunnudag.