Manchester United er á leið til Ítalíu til að etja kappi við AC Milan á San Siro á morgun. Eftir 1-1 vonbrigðin á fimmtudaginn er ljóst að United þarf á marki að halda á morgun, og því er vonandi að liðið verði sókndjarft sem því nemur.
Það verða fá til þessa að gráta um of ef leikjaálag minnkar eftir leikinn á morgun en á hinn bóginn er Milan eitt sterkasta liðið sem eftir er í keppninni og því til mikils ef United kemst áfram. Stærstu fréttirnar eru auðvitað þær að David de Gea, Paul Pogba og Donny van de Beek eru allir í hópnum. Það er eftir að sjá hvort Pogba er nógu góður af meiðslunum til að byrja inná en hann verður í það minnsta á bekknum. Vonast var til að Edinson Cavani færi með en á síðustu æfingu í morgun kom í ljós að hann er ekki í standi til þess og þarf að verða eftir.
Anthony Martial er enn ekki orðinn heill og er ekki með í för, né heldur Eric Bailly og Juan Mata. Shola Shoretire situr heima en Amad Diallo mætir.
Það þarf því kannske ekki að hafa fleiri orð um þetta, ég ætla að leyfa mér að vona að Pogba verði til í slaginn og liðið verði svona
Engum kæmi þó á óvart ef Fred kæmi þarna inn fyrir Pogba.
United hefur ekki oft riðið feitum hesti frá San Siro, fyrstu fjóra leikina þar skoraði liðið ekki mark, en 2011 vannst frækinn 3-2 sigur eins og Halldór fór yfir í upphitun fyrir fyrri leikinn. Það er nauðsynlegt að sýna þannig frammistöðu á morgun.
AC Milan
Milan var jafnvel í meiri meiðslavandræðum en United, en Hakan Çalhanoğlu, Ante Rebić og Theo Hernández léku allir í 0-1 tapi gegn Napoli um helgina, og búist er við að Zlatan Ibrahimović verði klár líka. Ibrahim Bennacer og Alessio Romagnoli eru svo komnir til æfinga og er búist við þeim á bekkinn.
Rebić, sem kom inná móti Napoli tókst reyndar að fá beint rautt spjald í uppbótartíma fyrir að fyrtast við dómara eftir að hann braut á andstæðingi, en það telur auðvitað ekki í Evrópukeppni. Annað mál hvort það hefur áhrif á það hvort hann byrjar.
Spáum þessu svona
Það getur verið að Zlatan sé orðinn 39 ára en það væri auðvitað stóra sagan ef hann gerði sínu gamla liði grikk. Það má ekki gerast, og það kemur í ljós á morgun kl 20:00