Upphitarinn góði í gær var með byrjunarlið United á tæru
Varamenn: Bishop, Grant, Lindelöf, Shaw, Tuanzebe, Williams, Fred, Amad, Shoretire
Lið AC Milan
United byrjaði betur í leiknum og fyrir utan rangstöðu“mark“ Leao í skyndisókn fóru þeir að ógna fljótlega. Fyrsta færið var þegar Martial tók bolta frá Alex Telles á kassann og smellti honum síðan að marki en Donnarumma sló boltann yfir. Skemmtilegt skot hjá Martial og ágætlega varið.
En rétt á eftir kom Milan boltanum aftur í netið. Þeir fengu innkast frá hægri, Kessié tók boltann og fékk að leggja hann fyrir sig án þess að Maguire eða McTominay kæmust nálægt og smellhitti tuðruna, óverjandi fyrir Henderson. Þetta fór hins vegar í VAR og þar sást að Kessié hafði notað hendina til að hjálpa við að taka á móti boltanum og markið dæmt af.
Eftir þetta sótti Milan nokku og svo United, fram og til baka og hvorugt lið náði almennilega tökum á miðjunni. Svo sem ekki að furða að Nemanja Matic sé ekki sá líflegasti en Kessié og Meité voru öllu frískari hjá Milan og fyrir vikið var meira og meira af leiknum að fara fram á vallarþriðjungi United.
Að auki var leikmönnum United ansi mislagðir fætur þegar kom að því að gefa á samherja og erfitt að koma boltanum fram á við.
Saelemaekers kom svo með eitt besta færið í leiknum, lék inn í teig og fékk að skjóta en það var beint á Henderson sem sló frá. Alls ekki sannfærandi hjá vörn United frekar en oft áður.
United sótti nú samt nokkuð, Alex Telles fékk að taka aukaspyrnu sem fór í horn og síðan kom horn sem endaði á að Harry Maguire var óvaldaður á fjær stöng en náði ekki skoti heldur setti sköflunginn í hann og boltinn small í stöng. Gullið tækifæri fyrir fyrirliðann þar.
Anthony Martial hafði alls ekki verið að skila sínu í fyrri hálfleik og var að auki að haltra og í hálfleik kom Amad Diallo inná fyrir hann.
United sótti frá upphafi og það tók Amad innan við fimm mínútur að skora. Bruno Fernandes fékk boltann á miðjunni, leit upp og gaf langa beina sendingu inn á vítapunktinn, og þar var Amad mættur eftir frábært hlaup milli tveggja varnarmanna, stökk upp og sneri sér í loftinu og með bakið að marki nikkaði hann yfir Donnarumma. Frábært skallamark! 1-0 fyrir United.
Milan varð hins vegar enn á ný hættulegra og enn á ný var vörn United ekki sú traustasta. Kessié slapp í gegn vinstra megin og hefði getað gert betur en var í frekar þröngu færi og Henderson varði í horn. Næst var það svo Krunić sem fékk fínt færi þegar hann kom á ferðinni í skalla en Maguire var í bakinu á honum og gat truflað hann nóg til að skallinn fór framhjá.
Þetta var orðin ansi mikil einstefna en allt í einu brenndi United af öðru dauðafæri. Greenwood kom upp, gaf stutt á Amad í teignum og fékk hann strax til baka og var allt í einu frír, gaf þvert og þar var Daniel James enn og óvaldaður en skaut hátt framhjá.
Þá gerði Ole þrjár breytingar. Fred kom inná fyrir Bruno, Williams fyrir Wan-Bissaka og Shaw fyrir Daniel James.
Það sem eftir var leiks gerðist ekkert allt of mikið. Milan var með yfirhöndina, United var oftast með pakkað í vörn en samt var Milan oft aðeins hársbreidd frá að brjótast í gegn.
Það hafðist að lokum.
Skörp sókn Milan endaði með horni, og úr því kom boltinn inn á teiginnn, framhjá Alex Telles og McTominay komst ekki í Simon Kjær sem skallaði fast, Henderson sá boltann seint, stóð ekki beinn og náði bara rétt að slá í boltann ekki nóg til að koma honum yfir. Jöfnunarmarkið og lokaflautið kom sekúndum eftir að United byrjað.
Lokatölur mikil vonbrigði en ekkert sem Milan átti ekki skilið. United brenndi tveimur dauðafærum en átti samt minnst í leiknum, eins og minnst hefur verið á var miðjan varla með, og vörnin er alltaf sekúndubroti frá hruni.
Síðast en ekki síst er ekki mjög ósanngjarnt að segja að Henderson hefði átt að verja skalla Kjær.
Þetta eru allt kunnugleg vandamál en við förum frá þessum leik með frábært mark nýliðans okkar í farteskinu, velkominn til United Amad Diallo!