Crystal Palace og Manchester United buðu ekki uppá neina knattspyrnuveislu þegar liðin mættust í kvöld. Liðin gerðu markalaust jafntefli í leik sem að færi í sögubækurnar af öllum röngu ástæðunum. Leikurinn var með þeim leiðinlegri sem undirritaður hefur séð og það var í raun sárt að fylgjast með spilamennsku United á löngum köflum. Fyrirsjáanlegir, hægir og algjörlega gæðalausir.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United
Crystal Palace
Fyrri hálfleikur
Það virtist sem United liðið hafi ekki heyrt í upphafsflauti Andre Marriner, dómara leiksins, því að liðið var hreinlega ekki með fyrstu 10 mínútur leiksins. Í þrígang gaf vörnin boltann kæruleysislega frá sér og bauð Palace upp í dans, en taktleysi heimamanna fyrir framan markið bjargaði andliti okkar manna. Liðinu gekk afleitlega að halda í boltann og Palace-menn voru á undan í alla seinni bolta.
Sem betur fer rankaði liðið við sér og fór að sýna smá gæði á boltanum. Á 13. mínútu fékk Mason Greenwood boltann úti hægra megin, átti stórhættulega fyrirgjöf inní teig en enginn náði að reka tá í boltann. Boltinn endaði hjá Luke Shaw sem lagði hann fyrir fætur Bruno Fernandes. Bruno setti boltann fyrir Nemanja Matic sem lét vaða og eftir að boltinn hafði haft viðkomu í varnarmanni þá þurfti Guaita að hafa sig allan við til að blaka boltanum framhjá stönginni. Glæsileg markvarsla hjá Spánverjanum. Stuttu síðar áttu Bruno og Shaw gott samspil sem endaði með því að vinstri bakvörðurinn átti fasta sendingu inní teiginn. Þar var Marcus Rashford eiginlega einn á auðum sjó í ákjósanlegu færi en brást heldur betur bogalistin og hitti ekki einu sinni markið.
Nokkrum mínútum seinna áttu Edinson Cavani, sem sneri til baka eftir meiðsli og Mason Greenwood ágætis samspil en Greenwood náði ekki nægilega góðu skoti, rétt fyrir utan teig Palace. Í kjölfar þess þá varð leikurinn að miklu moði og kæruleysið á boltanum var algjört. Fred og Matic gerðu sitt besta til að líta út fyrir að vera leikstjórnendur en þeirra hæfileikar felast í öðrum pörtum leiksins. Bruno virkaði týndur og Greenwood var í litlum takti við leikinn. Liðið varð gífurlega fyrirsjáanlegt, en öll vötn runnu til vinstri kantsins og Palace voru fljótir að loka á Shaw og Rashford.
Skömmu fyrir leikhlé renndi Fred boltanum út á kant á Aaron Wan-Bissaka sem átti frábæra fyrirgjöf sem virtist ætla að sigla alla leið á Cavani á fjærstönginni en á síðustu stundu bjargaði Joel Ward hetjulega með glæsilegri tæklingu. Eftir það gerðist lítið og Andre Marriner hafði ekki einu sinni fyrir því að bæta við mínútu fyrir kurteisissakir. 0-0 í leikhléi og United ekki búið að skora mark í fjórar klukkustundir í öllum keppnum – margt sem þurfti að skerpa á fyrir síðari hálfleik.
Seinni hálfleikur
Það mætti svipað United lið til leiks í seinni hálfleik. Virtust hafa lítinn áhuga á því að snerta boltann mikið eða færast nær marki Palace. Hugmyndaauðgi miðju- og sóknarmanna var sama og ekkert og ég er nokkuð viss um að Súlan á Stöðvarfirði hefði ekki átt í nokkrum einustu vandræðum með að verjast sóknaraðgerðum liðsins – ef ég mætti gerast svo djarfur að lýsa aðgerðum liðsins þannig. Það kom því lítið á óvart að fyrsta tilraun seinni hálfleiks félli í skaut Palace. Þá átti Christian Benteke klippu á lofti sem fór af varnarmanni og yfir.
Nokkrum mínútum síðar fengu Palace aukaspyrnu eftir klaufalegt brot hjá Fred. Luka Milivojevic átti slaka spyrnu en boltinn barst á endanum til Andros Townsend. Hann náði ágætis skoti og Dean Henderson virtist ekki alveg viss um hvort boltinn stefndi inn eða ekki. Blessunarlega fyrir United þá fór boltinn rétt framhjá markinu. Næstu 20 mínútur gerðist nákvæmlega ekki neitt.
Það var svo um 10 mínútum fyrir leikslok sem að varamaðurinn Daniel James fékk gott skallafæri eftir fyrirgjöf frá vinstri kantinum, en Wales-verjinn hitti ekki boltann og því gátu heimamenn andað léttar. Þremur mínútum seinna átti Mason Greenwood ágætis sprett sem endaði með föstu skoti sem fór yfir markið. Þar má í raun segja að síðasti séns United, ef séns má kalla, hafi farið. Á 90. mínútu fengu svo heimamenn langbesta færi leiksins þegar að Harry Maguire spilaði Patrick van Aanholt réttstæðan. Hollendingurinn var einn gegn Dean Henderson en markmaðurinn gjörsamlega át van Aanholt og bjargaði því að United næði að minnsta kosti stigi úr leiknum. Nokkrum andartökum síðar hafði Andre Marriner flautað til leiksloka.
Pælingar
0-0 í þriðja leiknum í röð og liðið var aldrei líklegt til þess að ná í sigurinn. Það er gífurlegt áhyggjuefni hversu hugmyndasnauður og hægur sóknarleikur liðsins er. Maður hljómar eins og biluð plata, að segja sama hlutinn leik eftir leik. Ef að Bruno Fernandes er ekki á deginum sínum og nú er orðið svolítið síðan að hann átti flottan leik, að þá er sóknarleikur liðsins bara enginn. Marcus Rashford, Mason Greenwood og Edinson Cavani sýndu lítið sem ekkert sömuleiðis.
Liðið saknar Paul Pogba svo um munar. Vera hans á miðjunni gerir það að verkum að pláss skapast fyrir Bruno, bæði af því að andstæðingurinn þarf að hafa áhyggjur af Pogba og líka af því að Frakkinn kann að finna Bruno í réttu svæðunum. Þú færð ekki mörk og stoðsendingar frá Bruno Fernandes með því að troða boltanum í lappirnar á honum á þröngum svæðum þar sem að auðvelt er að tví- og þrímenna á hann. Það er ekki helsti kostur Bruno Fernandes að sóla sig út úr hlutunum eins og Lionel Messi.
Miðjan sem samanstendur af Fred og Matic er ofboðslega neikvæð og aðstoðar fremstu menn lítið. Fred er klaufskur á boltanum og Matic hreyfist eins og John Deere dráttarvél. Gæðin í sendingum hjá hverjum einasta leikmanni liðsins voru í besta falli vandræðaleg og í versta falli til skammar. Leikmenn virðast hreinlega ekki vera á sömu bylgjulengd. Sumir hefðu haldið að það væri laglegt spark í rassinn að sjá Leicester tapa stigum gegn Burnley og fengið blóð á tennurnar. Ónei. United liðið mætti bara varla til leiks og gekk í svefni nánast allan leikinn.
Framundan er leikur gegn toppliði Manchester City og þar hreinlega óttast undirritaður hið versta. City hafa verið ógnvænlegir að undanförnu og spilað frábæran fótbolta. Við höfum verið algjörlega á hinum enda pólsins og átt erfitt með að klára þríhyrningsspil, hvað þá að opna bestu vörn deildarinnar. Það verður í það minnsta áhugavert að sjá hvernig sá leikur spilast. Veit ekki hvort ég gangi svo langt að segjast hlakka til.
En jæja. Áfram Manchester United.