Liðið í dag er svona
Varamenn: De Gea, Grant, Lindelöf, Tuanzebe, Shaw, Williams, Mata 83., Matic 60., Amad 83. , Martial 69., Shoretire
Lið Real Sociedad
Þessi leikur byrjaði af meira fjöri en flest allir leikir. Það komu þrjú færi á fyrstu 132 sekúndunum, fyrst átti Januzaj ágætt skot utan teigs, framhjá, United fór upp í sókn og Rashford var kominn allt í einu einn á móti markmanni en tókst að skjóta beint á hann og þá var komið að Real Sociedad að sækja og komast innfyrir en Dean Henderson varði skot Alexander Isak í horn.
Alls ekki traustvekjandi varnarleikur hjá liðunum en skánaði þó aðeins eftir þetta. Hvorugt lið náði þó að setja mark sitt á leikinn og næsta færi sem hægt var að segja frá var ansi góð rispa frá Scott McTominay sem fór í gegnum vörnina eins og hún væri ekki þar og var kominn í skotfæri á teignum en færið var aðeins of þröngt og markmaðurinn gat varið vel.
United var að skapa meira og áttu enn meira afgerandi færi rétt á eftir, Bruno Fernandes var kominn framhjá vörninni, gaf þvert og aftur var það Marcus Rashford á auðum sjó sem tók viðstöðulaust innanfótarskot en ekki nógu langt frá markverðinum sem varði með fótunum. Ekki nógu gott hjá Rashford þarna.
En það gekk á endanum og á 26. mínútu kom Bruno Fernandes United yfir. Rashford gaf inn á teiginn og Zulbedia, Normand og markvörðurinn Remiro hlupu allir hver á annan og bolltinn datt fyrir fætur Fernandes sem kláraði þetta auðveldlega. Stórkostlega klaufalegt hjá vörn Sociedad.
Real Sociedad girti sig svo í brók og var betra liðið eftir þetta mark, fengu ekki færi að ráði en ógnuðu samt í teignum en vörnin var verkefninu vaxin. Meira að segja Mason Greenwood þurfti að hjálpa til og hreinsa yfir.
Síðustu mínútur náði United aðeins að snúa þessu við en ekki þannig máli skipti en fóru með forystuna inn í leikhléið.
Fyrri hálfleikur var ekkert sérlega tíðindamikill framan af þangað til 11 mínútur voru liðnar. United kom í hraðaupphlaup, sendingin kom frá Rashford fram á Dan James sem lagði boltann til hliðar fyrir sjálfan sig en var aðeins of langt frá og Bruno Fernandes kom á ferðinni og tók skotið og sveigði boltann í netið. Mjög flott hjá Bruno og VAR skoðunin sýndi að hann var réttstæður þegar James snerti boltann þannig að forystan var komin í 2-0.
Sociedad sótti en ef það er eitthvað sem United gerir vel þá eru það skyndisóknir. Dean Henderson greip inn í fyrirgjöf og kom boltanum beint á Fred sem sendi langa sendingu fram og enn á ný var Marcus Rashford kominn inn fyrir og í þetta skiptið gerði hann engin mistök, 3-0 fyrir United.
Enn eitt hraðaupphlaupið rétt á eftir endaði með boltanum í netinu en Mason Greenwood var rangstæður áður en hann gaf á Dan James og þvi ekkert úr því.
Nemanja Matic hafði komið inná fyrir McTominay og nú kom Martial inn fyrir Rashford.
Það var ekki mikið að gerast í leiknum eftir þetta, La Real komst lítið áfram en voru enn opnir fyrir skyndisóknum United sem voru hættulegri en nokkuð sem Sociedad gerði.
Loksins á 83. mínútu kom skiptingin sem stuðningsmenn voru búnir að biðja um. Amad Diallo kom inná fyrir Mason Greenwood. Um leið kom Juan Mata líka inná fyrir Fernandes. Þetta leiddi líklega ekki beint til þess að Sociedad átti leikinn næstu átta mínúturnar en það hins var hins vegar ástæðan fyrir að United fékk enn eitt hraðaupphlaupið, Dan James fékk boltann úti við hliðarlínu á miðjum vallarhelmingi La Real og tók einfaldlega strikið upp að marki, skaut þegar hann var kominn að markteig og boltinn fór inn við fjærstöng. Fjögur núll og United komið áfram nema eitthvað mikið gerist í seinni leiknum.
Öruggur og góður sigur, gegn Real Sociedad liði sem hafði greinilega ekkert heyrt um að United væri hættulegast ef þeir fengju að beita skyndisóknum. Hefði verið gaman að sjá Amad fá meiri tíma en það kemur.