Manchester United og Everton gerðu jafntefli í sex marka leik á Old Trafford nú rétt í þessu. Úrslitin eru ofboðslega svekkjandi í ljósi þess að leikmenn United voru sínir verstu óvinir í leiknum, þar sem að dauðafæri fóru forgörðum og ólýsanlega lélegur varnarleikur leit dagsins ljós.
Fyrir leik lögðu fyrirliðar liðanna, Harry Maguire og Lucas Digne, kransa til að minnast þeirra sem glötuðu lífinu í München flugslysinu þann 6. febrúar 1958. Fyrr um daginn var haldin minningarathöfn og þar hafði Ole Gunnar Solskjær lagt svipaðan blómakrans fyrir framan Old Trafford, í grenjandi rigningu í Manchester. Mínútuþögn var svo fyrir upphafsflautið.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United:
Everton:
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór varlega af stað og liðunum gekk illa að halda í boltann en Everton áttu þó í minni vandræðum með það. United liðið spilaði hægt og færði boltann ekki nægilega hratt á milli kanta, því var auðvelt fyrir Everton liðið að halda skipulagi og spila leikinn eins þröngt og hægt var. Gestirnir voru aðeins frekari, unnu seinni boltana og Bruno Fernandes átti erfitt með að finna svæði milli miðju og varnar Everton. Paul Pogba átti þokkalegan skalla í átt að marki eftir hornspyrnu en því miður kom ekkert úr því.
Það hefði ekki alvöru færi litið dagsins ljós stuttu áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður og undirritaður var nálægt því að sækja sér sæng og kodda. Þá tóku United völdin og náðu að festa Everton neðarlega á vellinum. Mason Greenwood átti glæsilegan sprett þar sem að hann fór auðveldlega framhjá Lucas Digne og sólaði síðan Andre Gomes uppúr skónum inní vítateig Everton, en skotið var því miður ekki nægilega gott og fór víðsfjarri markinu. Það var svo á 24. mínútu sem að Bruno Fernandes lagði boltann út á Marcus úti á hægri kantinum. Rashford lagði boltann fyrir sig og setti frábæran bolta á fjær. Þar mætti Edinson Cavani og skallaði boltann af yfirvegun í markið. Virkilega vel að verki staðið hjá El Matador og Rashford!
Næstu mínútur voru ekki mjög viðburðamiklar en United voru þó miklu meira með boltann og teygðu vel á Everton. Gestirnir spiluðu tígulmiðju og þegar United náði tökum á því þá var yfirleitt nóg af svæði fyrir Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka. Edinson Cavani komst í ágætis færi 34. mínútu en skaut eiginlega í sjálfan sig og því kom ekkert úr því. Stuttu síðar féll boltinn fyrir fætur Bruno Fernandes stuttu fyrir utan teig en skot hans var slakt og Michael Keane blokkaði það auðveldlega. Nokkrum mínútum fyrir hálfleiksflautið kenndi Paul Pogba sér meins framan á lærinu og Brasilíumaðurinn brosmildi, Fred, kom inná fyrir hann. Ákaflega svekkjandi fyrir Frakkann sem hefur spilað vel nýlega og var kosinn leikmaður mánaðarins á vefsíðu félagsins fyrir frammistöðu sína í janúar.
Victor Lindelöf lenti í örlitlum vandræðum á 41. mínútu þegar að Lucas Digne pressaði hann stíft ofarlega á vallarhelmingi United. Lindelöf reyndi að þruma boltanum í burtu en boltinn fór af Digne til Richarlison sem var nálægt því að stýra tilraun sinni á markið en David de Gea fylgdi boltanum framhjá markinu. Stuttu síðar gerði Marcus Rashford vel fyrir framan teig Everton áður en hann renndi boltanum til Fred. Brassinn er ekki jafnvígur eins og Greenwood og hægri fótar skot hans var laflaust og langt framhjá.
United virtist svo ætla að halda boltanum bara í rólegheitunum fram að hálfleiksflautinu. Töframaðurinn Bruno Fernandes hélt nú ekki. Á 45. mínútu lét hann boltann rúlla framhjá sér út á hægri kantinn þar sem að Aaron Wan-Bissaka tók við. Wan-Bissaka setti hann aftur á Bruno sem að stóð stuttu fyrir utan teig, hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum yfir Robin Olsen í markinu og í bláhornið fjær. Stórkostlegt mark. Svo fagnaði Portúgalinn að hætta Cantona. Ofmetinn? Ekki að ræða það!
Andartökum fyrir hálfleiksflautið fékk Dominic Calvert-Lewin svo eina færi Everton í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegn en skot hans fór naumlega framhjá markinu. VAR hefði sennilega fundið leið til þess að dæma markið af en af þessari einu endursýningu sem ég sá virtist Englendingurinn var réttstæður. Jon Moss blés svo í flautuna og United með sterka 2-0 forystu þegar gengið var til búningsherbergja. Hæg byrjun en eftir að United liðið náði áttum þá voru þeir miklu betri.
Seinni hálfleikur
Okkar menn mættu grimmir til leiks og Luke Shaw átti flottan sprett upp vinstri kantinn, tengdi vel við Cavani og átti fast skot að marki Everton sem að Olsen varði til hliðar. Stuttu seinna mátti David de Gea týna boltann úr netinu þegar að Dominic Calvert-Lewin komst aftur fyrir Harry Maguire. Hann átti lausa fyrirgjöf sem að de Gea sló beint til Abdoulaye Doucoure. Miðjumaðurinn náði að pota boltanum yfir línuna og staðan orðin 1-2 og 50 mínútur eftir. Það sást hversu slegnir United menn voru við það að fá markið í andlitið og örfáum mínútum seinna hafði James Rodriguez jafnað leikinn. Gjörsamlega afleitur varnarleikur þegar að James fékk boltann út í teiginn og negldi boltanum framhjá David de Gea. Það er ekki orðum ofaukið að tala um að United hafi verið sjálfum sér verstir á þessum hörmulega kafla.
Eftir þetta reiðarslag róaðist leikurinn og United reyndi að finna glufur á Everton liðinu. Leikurinn kominn í algjört jafnvægi eftir að heimamenn höfðu komið sér í frábæra stöðu í lok fyrri hálfleiks. Leikmenn Everton virtust fullkomlega sáttir við að hægja aftur á tempóinu í leiknum og freista þess að sækja hratt þegar að færi gafst. Á 63. mínútu spiluðu United sig vel í gegnum vörn gestanna og Marcus Rashford komst einn í gegn. Hann virtist oviss um hvernig hann ætti að klára færið, það nýtti Robin Olsen sér og át Rashford gjörsamlega.
Á 70. mínútu vann Luke Shaw aukaspyrnu úti á vinstri kantinum, nokkuð langt fyrir utan vítateig Everton. Shaw ákvað að taka aukaspyrnuna sjálfur og það var eins gott því að hann fann hausinn á Scott McTominay sem skallaði boltann í fjærhornið! Það verður að setja spurningamerki við markmanninn Robin Olsen en inn fór boltinn. 3-2 fyrir United, 20 mínútur eftir. Nú var bara að sigla þessu heim.
United átti svo frábæra sókn á 78. mínútu þegar að Bruno renndi boltanum í gegn á Marcus Rashford. Rashford sneri með Michael Keane í bakinu og reyndi fast skot með vinstri en boltinn flaug framhjá markinu. Edinson Cavani beið dauðafrír fyrir opnu marki en sending Rashford hefði þurft að vera góð ef hann ætlaði að finna Cavani. Stuttu síðar átti Lucas Digne fast skot í utanverða stöngina, en ég er 85% viss um að de Gea hafi verið með það allt saman á hreinu…
Á 88. mínútu stuggaði Calvert-Lewin við Harry Maguire og fyrirliði United féll til jarðar. Jonathan Moss lét leikinn halda áfram og Richarlison fékk ágætis færi til þess að jafna leikinn en skot hans var lélegt og langt framhjá. Líklega hefði VAR skoðað þetta vandlega þar sem að þetta leit út fyrir að vera brot á Calvert-Lewin.
Axel Tuanzebe kom inná fyrir Mason Greenwood til þess að bæta við manni í vörnina. Það reyndist afdrifarík skipting þar sem að Tuanzebe braut aulalega á Joshua King. Lucas Digne lúðraði bolta inná vítateiginn, þar var boltanum flikkað inní markteiginn og Dominic Calvert-Lewin réðst á boltann og setti hann í netið. Þrjú góð færi, þrjú mörk. Skammarlegur varnarleikur og í raun ófyrirgefanlegur. Örfáum andartökum síðar blés Moss í flautuna og leikurinn búinn. 3-3 jafntefli niðurstaðan og hún er grátleg.
Næsti leikur er í FA bikarnum gegn West Ham. Vonandi geta menn rifið sig upp og mögulega fundið einhverja Post-It miða um hvernig á að verjast eins og menn. Áfram Manchester United.