Meira en lágmarkskurteisi er krafist
Bloggið er fyrir United stuðningsmenn og kommentakerfið er fyrir okkur til að tala um liðið sem við elskum. Við höfum mismunandi skoðanir og það er ekki ástæða til að hrauna persónulega yfir aðra stuðningsmenn þó þau hafi aðra skoðun. Það er í góðu lagi að vera algerlega ósammála og deila um einstök mál, en að ráðast á manninn en ekki skoðanirnar er ekki liðið. Reynum að halda aftur af okkur þegar kemur að því að tala illa um okkar eigin leikmenn, gagnrýnum en hraunum ekki yfir þá. Þessi regla á ekki við ef William Prunier snýr aftur.
Enga fordóma
Kynþáttafordómar og aðrir fordómar eru ekki liðnir. Í drögum að nýrri stjórnarskrá segir „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Höfum það í huga að United stuðningmenn eru af öllum stærðum og gerðum sem þarna eru upptaldar.
Vertu málefnaleg
Ætlast er til að nema eitthvað sérstakt komi uppá og ekki sé komin bloggfærsla um málið þá snúist umræður í þráðum um efni viðkomandi bloggfærslu. Þráðrán er það kallað ef reynt er að breyta um efni umræðunnar án þess að ástæða sé til. Augljós undantekning eru opnir þræðir!
Vandaðu þig
Þetta er bloggkomment, ekki Facebook komment. Munurinn er að við biðjum ykkur um að lesa yfir kommentið áður en sent er og hafa stafsetningu og málfar í þokkalegu lagi. Einnar setningar, að ekki sé talað um eins orðs svör gera lítið fyrir umræðuna.
Nöfn og nikk
Ekki er gerð krafa til að skrifa undir nafninu á fæðingarvottorðinu en þess er krafist að ef nikk er notað þá sé alltaf notað sama nikk. Þú getur unnið þér inn virðingu fyrir þinni skoðun alveg jafn auðveldlega sem Jón Jónsson eða Jonni. Ekki er leyfilegt að nota nikk sem annar notar. Netföng sem gefin eru upp verða að vera netföng viðkomandi.
Er nauðsynlegt að lítilækka önnur lið?
Þegar stuðningsmenn annarra liða tala um ‘Scum United’ sýna þeir best minnimáttarkennd sína. Þetta er Ísland, ekki Manchester og stuðningsmenn hinna liðanna eru bara eins og við, hvorki betri né verri. Við erum Manchester United, við sýnum það á vellinum að við séum betri. Komment um ‘man shitty’ og annað slíkt verða ekki fjarlægð, en mælt er með að fólk haldi sig frá þeim.
Stuðningsmenn annarra liða eru ekki bannaðir
Þetta er fyrst og fremst blogg fyrir okkur United stuðningsmenn. Aðrir geta kommentað en skýlaus krafa er gerð um að það séu málefnaleg innlegg og í takt við efni umræðunnar og þráðrán af þeirra völdum verða stöðvuð.
Auglýsingar ekki leyfðar
Augljósar auglýsingar verða fjarlægðar en auðvitað eru ábendingar um vörur/þjónustu sem tengist umræðuefninu leyfðar.
Brot á reglum
Komment sem brjóta reglur verða fjarlægð ef ástæða er til. Ef vitnað er til þeirra í öðrum kommentum getur verið nauðsynlegt að fjarlægja þau komment. Endurtekin brot sama aðila geta leitt til banns, en ekki án viðvörunar.
Stjórnendur eru alvaldir og ákvörðun þeirra er endanleg
Punktur.