Það stefnir allt í stóra viku hjá Manchester United ef marka má fjölmiðla hér og þar í Evrópu. Byrjum á því sem stefnir í að verða stærstu kaup United í sumar.
Mikið hefur verið rætt um Alvaro Morata, framherja Real Madrid, sem virðist vera helsta skotmark United eftir að Antoine Griezmann ákvað að vera áfram hjá Atletico Madrid.
Fyrir helgi var greint frá því að umboðsmaður hans hefði sagt Real Madrid að hann vildi fara frá félaginu enda gæti það ekki lofað honum því hlutverki sem hann sækist nú eftir. Talað er um að Real Madrid vilji allt að 90 milljónir evra (um 80 milljónir punda) fyrir hann en að United telji sig geta sloppið með ca. 70 milljóna evra tilboði (um 60 milljónir punda).