Ísland á tvö frábær A-landslið í knattspyrnu. Þessi lið hafa á síðustu mánuðum og árum náð gríðarlega góðum árangri og vakið verðskuldaða athygli langt út fyrir landsteinana. Kvennalandsliðið er nú nýbúið að tryggja sig inn á þriðja lokamót EM í röð og karlalandsliðið stóð sig framar vonum á sínu fyrsta lokamóti í sumar.
Bæði liðin státa af reynslumiklum kjarna góðra leikmanna með sterkum karakterum og miklum leiðtogum. Fremst þar í flokki eru Aron Einar Gunnarsson hjá körlunum og Margrét Lára Viðarsdóttir hjá konunum. Bæði byrjuðu þau ung að spila fyrir A-landslið Íslands, þau fóru bæði ung í atvinnumennsku erlendis og bæði stefna á að leiða Ísland á fleiri stórmót í framtíðinni. Þau eru fyrirliðar Íslands.