Eftir síðasta sumar bjóst maður við því að United yrði búið að kaupa alla þá leikmenn sem liðið þyrfti fyrir 1. júlí. Sérstaklega í ljósi þess að José Mourinho sagði að Ed Woodward hefði haft óskalistann sinn í um það bil tvo mánuði þegar tímabilinu lauk. Það virðist þó sem sumarið 2017 ætli að verða töluvert flóknara en sumarið 2016.
Ástæðurnar eru margar og eflaust er Ed Woodward búinn að vera í yfirvinnu við að reyna koma þeim leikmönnum sem Mourinho vill til félagsins. Samkvæmt ESPN þá virðist sem Mourinho og Woodward hafi verið undirbúnir undir erfitt sumar. Auknar tekjur enskra liða í gegnum nýjan sjónvarpssamning gerir það að verkum að verðbólgan á leikmönnum innan Englands er enn meiri en undanfarin ár og lið utan Englands selja ekki leikmenn þangað nema fyrir hæsta mögulega verð.