Eftir frækinn sigur gegn Southampton síðustu helgi í úrslitum EFL bikarsins þá fengu okkar menn heila sex daga án þess að spila leik. Jaðrar það við þriggja mánaða sumarfrí fyrir liðið enda hefur það spilað tvo leiki á viku síðan nýja árið gekk í garð, svona nánast.
Eftir ævintýrið síðustu helgi þar sem Zlatan fór enn einu sinni fyrir liðinu þá tekur alvaran í deildinni við en Manchester United hefur ekki spilað deildarleik síðan 11. febrúar en þá sigraði liðið Watford 2-0. Af þeim sjö leikjum sem liðið spilaði í febrúar þá vann það sex þeirra og gerði eitt jafntefli, 0-0 við Hull City. Að sama skapi fékk það ekki mark á sig í deildinni, vonandi heldur það áfram á morgun.