Eftir annars ágætis landsleikjahlé er röðin komin að ensku Úrvalsdeildinni á nýjan leik. 13. umferð tímabilsins er að hefjast og að þessu sinni ferðast Rauðu djöflarnir til Bramall Lane þar sem nýliðarnir í Sheffield United taka á móti okkur.
Sheffield situr öllum að óvörum í fimmta sæti deildarinnar eftir tólf umferðir og er stigi á undan Manchester United með 17 stig, jafnmörg og Arsenal en með betri markatölu. Sá fótboltaspekingur sem hefði haldið því fram að á þessum tímapunkti í deildinni væri Sheffield United fyrir ofan bæði okkur og Arsenal hefði eflaust verið talinn búinn að missa vitið.