Fyrsta heimaleiknum er lokið með sigri okkar manna á spræku Fulham liði. Þetta leit ekki vel út í byrjun þegar Damien Duff kom gestunum yfir á 3. mínútu. En markið var ákveðið spark í rassgatið fyrir heimamenn sem tóku öll völd á vellinum. Patrice Evra átti fyrirgjöf sem virkaði frekar misheppnuð en Robin van Persie afgreiddi hana glæsilega framhjá Mark Schwarzer. Eftir það róaðist leikurinn örlítið en United var samt meira með boltann. Shinji Kagawa skoraði svo auðvelt mark eftir mistök frá Schwarzer sem varði skot Tom Cleverley beint í fætur Japanans sem gat ekki annað en skorað. Bakvörðurinn Rafael var mjög duglegur í sóknarleiknum í dag skoraði svo mark sem var dæmt af vegna rangstæðu réttilega en tæpt. Skömmu seinna átti Ashley Young fyrirgjöf sem Rafael af öllum mönnum skallaði í markið og United komnir í 3-1 og þannig var staðan í hálfleik.
Fulham
Byrjunarliðið gegn Fulham
De Gea
Rafael Carrick Vidic Evra
Cleverley Anderson
Valencia Kagawa Young
Van Persie
Jáhá, heilar fimm breytingar frá leiknum gegn Everton. Rafael kemur inn í hægri bakvörðinn, Valencia settur í sína venjulegu stöðu á kostnað Nani sem var ekki upp á sitt besta s.l. mánudag. Young kemur inn fyrir Welbeck og síðan sjáum herra Robin van Persie í byrjunarliðinu, og það á kostnað Rooney. Það kemur mér aðeins á óvart, ég bjóst við að Ferguson myndi byrja með þá báða í þessum leik, en gamli er greinilega á annari skoðun. Anderson kemur svo inn fyrir Scholes í djúpa miðjumanninn. Þrátt fyrir töluverðar breytingar sjáum við sama kerfi og gegn Everton, ég veit að þetta er það sem koma skal, en einhverja hluta vegna verð ég hissa þegar ég sé Man Utd ekki spila einhverja útgáfu af 4-4-2.
Manchester United vs. Fulham
Á laugardaginn 25.ágúst leika United menn fyrsta heimaleik tímabilsins. Menn verða staðráðnir í því að sýna betri spilamennsku en á móti Everton. Búast má við því að Robin van Persie byrja sinn fyrsta heimaleik fyrir okkur, ekki veitir okkur af smá biti í sóknarleikinn. Vörnin verður líklega óbreytt frá því gegn Everton nema að Rafael fari í bakvörðinn og Valencia á hægri kantinn.