Tottenham tókst loksins að vinna Manchester United á heimavelli en það hafði ekki gerst síðan 2001 takk fyrir. Þessi leikur sýndi það svo rosalega vel á hversu langt Louis van Gaal er frá því að gera það sem hann var ráðinn til.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði ágætlega og United var mikið boltann og var mikið að reyna að sækja á Spurs. Vandamálið er ávallt það að liðið skýtur nánast aldrei á markið. Timothy Fosu-Mensah er mjög sprækur í fyrri hálfleiknum en hann byrjaði óvænt í stað Mattio Darmian í hægri bakverði. Hann og David de Gea báru af í fyrri hálfleiknum og björguðu báðir tveir oft meistaralega. Fosu-Mensah sem er varnartengill að upplagi stefnir í að ætla að verða hörkuleikmaður í framtíðinni þeas nema hann taki upp á því að verða Phil Jones. Framlína United sem hóf leikinn er sú sama og í undanförnum leikjum og hún var frekar spræk í hálfleiknum þrátt fyrir að United hafi ekki átt skot á rammann. Staðan í hálfleik var 0:0 en hefði hæglega getað verið 1-2:0 fyrir gestgjöfunum.