United sigrar Sunderland með einu marki gegn engu á Stadium of Light, aftur. United liðið var að spila rosalega í svona 70+ mínútur og voru á tímabili í seinni hálfleik 80% með boltann. Leikurinn var í raun aldrei jafn spennandi og staðan gefur til kynna. Sunderland voru aldrei líklegir til að jafna leikinn.
Sir Alex kom kannski einhverjum á óvart með sterku byrjunarliði í dag, margir höfðu búist við hálfgerðu varaliði í dag en sú var sko ekki raunin. Á 27. mínútu fékk van Persie boltann á vinstri kantinum og eftir smá leikfimiæfingar átti hann skot sem átti viðkomu í hinn alæmda Titus Bramble og þaðan í netið, óverjandi fyrir Mignolet í markinu. Staðan 1-0 og maður vonaði alltaf eftir fleiri mörkum en átti svo sem alveg lúmskan grun um að þetta yrðu úrslitin. Þrátt fyrir gífurlega yfirburði í fyrri hálfleiknum þá náði United ekki að bæta við marki.