Það er ýmislegt sem hægt er að ræða eftir þessar síðustu umferðir í enska boltanum. Eftir flotta byrjun á árinu hefur Manchester United nú tapað tveimur af síðustu þremur leikjum í ensku deildinni og spilamennska liðsins ekki beint verið að heilla. Liðið er enn sem stendur í 2. sætinu, þar sem það hefur verið frá því í 6. umferð, fyrir utan stutt stopp í 3. sætinu í lok árs 2017. En liðin sem eru þar rétt fyrir neðan nálgast og framundan er 11 umferða barátta fjögurra liða um þrjú laus sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
Meistaradeild Evrópu
Benfica 0:1 Manchester United
Ekki var það skemmtilegt en þrjú stig eru þrjú stig og um það snýst leikurinn. Enn og aftur heldur David De Gea hreinu og enn og aftur vinnur Manchester United knattspyrnuleik. Byrjunarliðið sem José Mourinho stillti upp kom lítið á óvart en hann sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að blaðamenn ættu að geta giskað á byrjunarliðið þar sem hópurinn væri svo þunnur vegna meiðsla. Mourinho gerði samt sem áður fjórar breytingar frá leiknum gegn Liverpool um helgina.