Eitt af því sem gerir fótboltann svona skemmtilegan eru stundirnar þegar rómantíkin yfirtekur raunsæið, þegar undirhundarnir sigrast á Golíötunum, þegar lið sýna seiglu og snúa tapstöðu í sigur, þegar það óvænta og fallega gerist. Ekki það, við vitum að Manchester United er alltaf Golíat frekar en Davíð, núna er liðið hins vegar í þannig stöðu að við þurfum knattspyrnurómantíkina með okkur í lið til að komast áfram. Bakið er rækilega upp að veggnum. Meiðsli hrjá hópinn og besti útivallarleikmaður liðsins er í leikbanni. Það þarf kraftaverk. En á knattspyrnuvöllunum gerast kraftaverkin reglulega, það er undir þeim leikmönnum sem þó eru heilir og ekki í leikbanni komið að gefa kraftaverkinu sénsinn.
Meistaradeild Evrópu