Nú þegar tímabilið er farið af stað hjá U23 ára liði félagsins er um að gera að skoða hvernig sumarið hefur gengið hjá bæði U23 og U18, hvaða leikmenn eru á láni hjá öðrum félögum og hverju má búast við í vetur. Hugmyndin er að vera með mánaðarlega uppfærslu í lok hvers mánaðar þar sem farið er yfir það helsta sem hefur gerst.
Eitt af því fyrsta sem United gerði í vetur var að ráða Ricky Sbragia aftur til liðsins en hann þjálfaði varaliðið, eins og það hét þá, á árunum 2002-2005. Síðan hefur hann þjálfað hjá Bolton Wanderers, Sunderland AFC og hjá skoska knattspyrnusambandinu. Nicky Butt verður áfram með yfirumsjón yfir yngri flokka starfi félagsins en hann er mjög sáttur með að fá Sbragia aftur til liðsins. Hann talaði sérstaklega um að Sbragia væri einstaklega fær í að þróa hæfileikaríka einstaklinga sem og hann væri auðvitað öllum hnútum kunnugur hjá Manchester United.