Það má skipta ferli Antonio Valencia í tvo hluta. Þegar hann gat eitthvað og svo þegar hann gat ekki neitt.
Valencia mætti til klúbbsins sumarið 2009 og þurfti þar að fylla stærstu skó sem félagið hafði séð. Hvernig í ósköpunum átti eitthvað ‘no-name’ frá Ekvador sem spilaði með Wigan Athletic að geta komið í stað Cristiano Ronaldo? Svo gott sem ómögulegt en Valencia stóðst prófið eins vel og hægt var að vona. Framan af í það minnsta. Hann byrjaði ágætlega. Fyrsta tímabil sitt var hann stoðsendingahæstur með 11 stykki, setti að auki 5 mörk og fékk sæti í PFA-liði ársins. Því miður ökklabrotnaði hann í upphafi næsta tímabils og var frá stærstan hluta tímabilsins en kom sterkur inn síðasta þriðjung tímabilsins. Innkoma hans var reyndar svo sterkt að hann sló hreinlega Nani út úr liðinu sem var að eiga sitt langbesta tímabil í rauðu treyjunni.