Það hefur ekki gengið vel hjá United á Goodison Park síðustu árin, sigur vannst 2011 og síðan ekki aftur fyrr en prýðilegur 3-0 sigur vannst síðasta vetur. Að auki vann United Everton á heimavelli og síðan á Wembley í vor í undanúrslitum bikarsins þannig að síðasta ár var ágætt.
Það er meira en hægt er að segja um gengi United í deildinni í síðustu leikjum. Í síðustu sjö leikjum hefur liðið gert fimm jafntefli, unnið einn leik og tapað einum. Af liðunum í efri helmingnum hefur aðeins einu liði gengið ver: Everton. Þeir hafa aðeins unnið einn af síðustu átta, og tapað fjórum og það er farið að fara um Ronald Koeman stjóra liðsins.