United spilar klukkan 14:00 á morgun sinn þriðja leik á sex dögum. Gengið í þessum leikjum hefur verið afskaplega sveiflukennt. Liðið vann góðan og sannfærandi 4-1 sigur á Fenerbahce þar sem liðið hefði getað og jafnvel átt að skora fleiri mörk. Næsti leikur þar á eftir var 4:0 lestarslysið gegn Chelsea á Stamford Bridge. Eðlilega voru margir þá stressaðir fyrir næsta leik sem var heimaleikur gegn City í EFL bikarnum en liðið átti fína kafla í þeim leik og vann sanngjarnan 1:0 sigur.
Upphitun
Stór leikur í lítilli keppni – Manchester City kemur aftur í heimsókn
Klukkan 19:00 annað kvöld fer fram óvenju þýðingarmikill leikur í annars heldur þýðingarlítilli keppni þegar nágrannarnir í Manchester City koma í heimsókn á Old Trafford. Þótt báðum liðum sé líklega nokk sama um EFL bikarinn sem slíkan þá munu þau samt koma inn í þennan leik í leit að langþráðum sigri. Stjórarnir eru undir pressu, leikmenn þurfa að stíga upp, það hefur verið að safnast upp pirringur meðal stuðningsmanna liðanna, blöðin hafa kjamsað á óförum síðustu vikna (reyndar töluvert meira United megin) og hlátrasköll stuðningsmanna annarra liða, sem velta sér upp úr hæðnisfullri Þórðargleði, bergmála í eyrunum. Nú er tíminn til að draga fram sokkaskúffurnar og korktappana, nú er tíminn til að byrja að svara almennilega fyrir sig. Það er komið að næsta stóra prófi Manchester United, endurtektarprófi gegn ljósbláklæddum leikmönnum Pep Guardiola. Bring it on!
Chelsea á Stamford Bridge á morgun
Leikjahrinan spennandi heldur áfram á morgun klukkan 3, þegar United fer til London og mætir Chelsea á Stamford Bridge.
Eftir jafnteflið á Anfield á mánudaginn búast mörg við því að United mæti til að spila stífan varnarleik. Sú skoðun lítur framhjá því að mestan hluta fyrri hálfleiks gegn Liverpool átti United leikinn og spilið fór að mestu fram á vallarhelmingi Liverpool. Það ásamt frískum leik á fimmtudaginn ætti að sýna að það er engin ástæða til að gefa sér það fyrirfram að leikurinn á morgun verði eins og síðari hluti Liverpoolleiksins. Það er engu að síður alveg á hreinu að það verður lagt upp með að þegar United þarf að verjast þá verði varnarleikurinn eins öruggur og hægt er
Robin van Persie snýr heim á ný – Fenerbahçe kemur í heimsókn
Það er afskaplega skammt stórra högga á milli hjá United. Útileikur gegn Liverpool á mánudaginn var, heimaleikur gegn Chelsea á sunnudaginn og Pep kemur svo í heimsókn eftir viku. En áður en að við getum farið að huga að þessu þarf United að spila leik í Evrópudeildinni sem væri afskaplega fínt að vera laus við. Fenerbahçe er að koma á Old Trafford og með þeim kemur gamall félagi sem reyndist okkur vel. Robin van Persie.
Liverpool heimsótt á Anfield annað kvöld
Risaslagur á mánudagskvöldi, klukkan 19:00. Erkifjendurnir í nágrannaborgunum Manchester og Liverpool. Rauðustu liðin í norðurhluta Englands. Rauðustu liðin á Englandi! Manchester United gegn Liverpool. José Mourinho gegn Jürgen Klopp. Paul Pogba gegn Jordan Henderson.
Liverpool hafa verið í fluggírnum í flestum leikjum haustsins á meðan okkar menn hafa sjaldan sýnt okkur sparihliðarnar. Síðan kom landsleikjahlé og það verður forvitnilegt að sjá hvað smá pása gerir fyrir þessi lið. Stjórarnir eru báðir miklir stemningskallar og það er ekki ólíklegt að þessi viðureign ráðist á því hvor stjórinn nær að mótivera sinn hóp betur.