Loksins er komið að því. Dagurinn þegar við reynum að gleyma öllu veseni vetrarins, setjum allar vangaveltur um ráðningarmál og leikmannakaup til hliðar, þó ekki nema næsta sólarhringinn eða svo (já, þrátt fyrir fyrirsagnir í morgun) og einbeitum okkur að því að styðja okkar menn til sigurs í tólfta skipti í ensku bikarkeppninni.
Við fórum yfir ellefu sæta sigra á miðvikudaginn, og þó að mörg, ef ekki öll, okkar mundu, ef beitt er ísköldu mati 21. aldar knattspyrnu, frekar vilja vinna Wenger bikarinn og komast í Meistaradeildina þá munu öll okkar fagna vel og innilega annað kvöld ef þetta tímabil endar með því að við jöfnum Arsenal í fjölda bikarsigra. Á morgun skiljum við eftir vonbrigðin, þau eru hvort sem er að baki, og vonumst eftir indælum sigri í elstu knattspyrnukeppni heims.