Áður en við á höfuðborgarsvæðinu förum í bæinn á morgun til að njóta menningarnætur setjumst við niður og horfum á United taka á móti Newcastle United á Old Trafford kl 11:45.
Newcastle gekk ömurlega í fyrra, en þó aðallega eftir að Alan Pardew fór frá félaginu, töpuðu meira að segja átta leikjum í röð og ráku auðvitað á endanum stjórann, John Carver. Steve McLaren er tekinn við og er hann okkur auðvitað að góðu kunnur síðan hann var aðstoðarstjóri United þrennutímabilið góða. Hann hefur nú ekki alveg slegið í gegn sem stjóri, nema í Hollandi, enda ekki verið með albestu liðin, og tel ég enska landsliðið þar með.