Átjánda umferð ensku úrvalsdeildarinnar verður spiluð á morgun, öðrum degi jóla.
Fyrsti leikur umferðarinnar verður kl 12:45 þegar Steve Bruce og hans leikmenn í Hull City FC taka á móti United á KC Stadium.
Upphitunin
United er í áttunda sæti deildarinnar og átta stig skilja United og Liverpool sem situr í efsta sæti deildarinnar. Okkar menn eru á góðu róli þessa dagana eftir hræðilega byrjun í desember. Desember byrjaði með jafntefli gegn Tottenham og svo tapi gegn Everton og Newcastle (sem eru einmitt þau þrjú lið sem sitja í fimmta, sjötta og sjöunda sæti deildarinnar) en svo komu sigrar gegn Shakhtar, Aston Villa, Stoke og West Ham. Í þokkabót hefur liðið verið að spila betur og betur undir stjórn Moyes. Ég veit að það er alltaf hægt að koma með svona pælingar en… ímyndið ykkur að ef United hefði sigrað en ekki tapað leikjunum gegn Newcastle og Everton. Liðið væri í 4-5 sæti með Chelsea, einu stigi á eftir City og tveimur á eftir Liverpool og Arsenal. Það sýnir okkur hvað allt er í járnum ennþá og enn mjög góður möguleiki á að eiga mjög fínt tímabil undir stjórn Moyes.