Góðan daginn dömur mínar og herrar.
Á morgun klukkan 16:30 mun Darren Fletcher, ásamt Tony Pulis, koma með lærisveina sína í W.B.A í heimsókn á Old Trafford. Eftir tvo tapleiki í röð þurfa okkar menn að rífa sig upp af rassgatinu og morgundagurinn er tilvalinn til þess.
Mótherjinn
Tony Pulis og liðsmenn hans í W.B.A sitja sjö stigum fyrir ofan fallsæti með 37 stig. Samkvæmt gömlu klisjunni þá þurfa þeir því þrjú stig í viðbót til að gulltryggja veru sína í deildinni. Annað árið í röð hefur Pulis tekið við liði sem er með buxurnar á hælunum en í fyrra tók hann við Crystal Palace sem voru svo gott sem dauðadæmdir. Hann bjargaði þeim frá falli og er að gera það sama með W.B.A í ár. Tony Pulis er vissulega ekki einn þarna en í janúar fékk hann Darren Fletcher til liðs við sig. Pulis var ekki lengi að gera okkar mann að fyrirliða og er hann vægast sagt að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga en Fletcher hefur spilað alla leiki W.B.A síðan hann flutti sig um set.